Vandkvæði í símakerfi lögreglunnar
Byrjunarörðugleikar settu strik í reikninginn þegar lögreglan í Reykjavík tók nýtt símkerfi í notkun í gær. Nýja kerfið sameinar öll símanúmer og símakerfi embættisins í eitt kerfi sem hefur fengið símanúmerið 444 1000. Lögreglan segir fjarskipti veigamikinn hluta af daglegum rekstri lögreglunnar og að kröfurnar um greið símasamskipti séu stöðugt að aukast, ekki aðeins innan lögreglunnar, heldur einnig við borgarana. Vandkvæði gerðu þó vart við sig. Þegar Fréttablaðið hafði samband við lögregluna í gegnum hið nýja símanúmer hringdi þrisvar út áður en það var svarað og eitthvað var um að gefið væri samband við röng innanhússnúmer. Starfsmaður skiptiborðs lögreglunnar sagði byrjunarvandræði hafa vissulega sett sitt mark á daginn, erfitt væri oft að ná sambandi við ný númer og þar fram eftir götunum. Þetta olli þó ekki miklum vandkvæðum fyrir utan óþægindin að sögn starfsmannsins sem gerði ráð fyrir að þetta myndi lagast fljótt. Einar Karl Kristjánsson lögreglufulltrúi segist ekki hafa orðið var við nein vandkvæði sem tæki að nefna.