Erlent

Hefðu átt að vita betur

Fyrrum vopnaeftirlitssérfræðingur Bandaríkjanna, David Kay, segir að George W. Bush Bandaríkjaforseti og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefðu átt að gera sér grein fyrir því áður en þeir hófu stríðið í Írak að upplýsingar um gjöreyðingavopn Íraka hefðu verið byggðar á veikum grunni og að ekkert benti til að Saddam Hussein ógnaði öryggi Vesturlanda.  Kay lét þessi orð falla í viðtali við breska sjónvarpsstöð. Kay sagði af sér embætti í janúarmánuði síðastliðnum og var sú niðurstaða hans að Írakar ættu ekki byrgðir af vopnum sem eru á bannlista afar óþægileg fyrir Bush og Blair. Réttlæting þeirra á stríðinu hafði byggst á gjöreyðingavopnaeign Íraka. David segir að leiðtogarnir hefðu ekki verið nægilega gagnrýnir á upplýsingar um vopnaeign Saddams þar sem þeir hefðu haft nægar aðrar ástæður fyrir innrásinni og því hafi efinn um tilvist gjöreyðingarvopna ekki verið jafn alvarlegur í þeirra huga og hann var í hugum heimsbyggðarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×