Innlent

Þrjú slys í umdæmi Selfosslögreglu

Lögreglan á Selfossi hefur staðið í ströngu í dag en þrjú slys hafa orðið í umdæmi hennar í góðviðrinu. 16 ára piltur handleggsbrotnaði þegar hann flaug af hjóli sínu á mótorkrossbrautinni á Selfossi laust eftir hádegi í dag. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var pilturinn að æfa sig á brautinni. Hann virðist hafa hikað þegar hann kom að hindrun í brautinni með þeim afleiðingum að hann flaug ofan í gjótu við hindrunina. Nokkrir piltar voru við æfingar í brautinni þegar slysið varð. Nokkru síðar, eða um klukkan hálf tvö, varð þriggja bíla árekstur á Hellisheiði. Tveir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar en enginn meiddist alvarlega þótt einn bílanna hafi oltið út af veginum. Laust fyrir klukkan fjögur varð árekstur dráttarvélar og fólksbifreiðar við Reyki á Skeiðum við Skálholtsaflegggjara. Dráttarvélin valt og var ökumaður hennar fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi en Selfosslögregla taldi hann ekki mikið slasaðan. Engan sakaði í fólksbílnum. Engar teljandi skemmdir urðu á dráttarvélinni við veltuna og segir lögregla að bændur hafi helst viljað velta henni á dekkin og halda heyskapnum áfram í brakandi þurrkinum sem þar er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×