Innlent

10 ára strákur í sjálfheldu

Tíu ára gamall strákur lenti í sjálfheldu í klettum fyrir ofan Ölfusborgir um hádegi í dag. Hjálparsveit skáta í Hveragerði var kölluð út kl.11:55 og brugðust björgunarsveitarmenn og lögregla skjótt við og voru komnir á staðinn nokkrum mínútum eftir útkall. Þá höfðu hinsvegar tveir sumarhúsagestir komist til stráksins og voru byrjaðir að hjálpa honum niður sem tókst að lokum með smávægilegri aðstoð björgunarsveitarmanna. Útkallinu var lokið á 25 mínútum. Þetta er ekki fyrsta útkallið sem Hjálparsveit skáta í Hveragerði fer í Ölfusborgir og segir í fréttatilkynningu frá þeim að það sé nánast árlegur atburður að hjálpa þurfi niður barni eða börnum úr sjálfheldu þar. Björgunarsveitarmenn úr Hveragerði vilja beina þeim tilmælum til foreldra að varúðar sé gætt þegar börn eru við leik í klettum og stórgrýti. Þau eiga oft mun auðveldara með að klifra upp en að komast niður úr klettum þar sem á niðurleið reynir meira á jafnvægi ásamt samhæfingu handa og fóta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×