Innlent

Blés lífi í ársgamla stúlku

Flokksstjóri á Vinnuvélaverkstæði Alcan í Straumsvík, Hjörtur Á. Ingólfsson, lenti í óvenjulegri lífsreynslu fyrir nokkrum dögum þegar hann blés lífi í ársgamla stúlku og bjargaði þannig lífi hennar, en þetta kemur fram í frásögn á innraneti Alcan. Atvikið átti sér stað á föstudegi þegar Hjörtur ásamt konu sinni fór í helgarferð austur í Brekkuskóg í Biskupstungum. Þau höfðu aðeins keyrt fáeinar mínútur þegar þau sáu konu sem stóð fyrir utan bíl á Reykjanesbrautinni í Garðabæ og hélt uppi ungabarni og hristi það. Hjónin stöðvuðu bílinn og Hjörtur gekk að konunni og áttaði sig fljótlega á ástandinu. Barnið var ekki með meðvitund. Hann tók barnið úr höndum móður sinnar og hóf strax lífgunaraðgerðir. Hann lagði barnið á magann í lófa sér og hóf að banka á bakið á því og hélt að eitthvað stæði fast í hálsi barnsins. Þegar það bar ekki árangur og hvorki fannst púls eða andardráttur með barninu lagði Hjörtur það á jörðina og hóf að reyna að blása lífi í það. "Svo þegar ég blæs í þriðja skiptið þá frussaði hún framan í mig. Þá fór hún í gang. Það var dýrleg tilfinning," sagði Hjörtur. Skömmu síðar kom sjúkrabíll á svæðið. Hjörtur þakkar tíðum skyndihjálparnámskeiðum í vinnunni að hann skyldi bregðast hratt og rétt við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×