Sport

Hólmfríður leggur upp flest mörk

KR-ingurinn Hólmfríður Magnúsdóttir er þriðji markahæsti leikmaður Landsbankadeildar kvenna í knattspyrnu með sex mörk en enginn leikmaður deildarinnar hefur lagt upp fleiri mörk en hún í fyrstu fimm umferðunum. Hólmfríður hefur alls átt sjö stoðsendingar, allar í tveimur síðustu sigurleikjum KR sem liðið hefur unnið með markatölunnni 15-3. Hólmfríður átti þátt í 11 af þessum 15 mörkum með beinum hætti, skoraði fjögur mörk og átti fimm stoðsendingar í 11-2 sigri á FH og átti síðan tvær stoðsendingar í 4-1 sigri á Breiðabliki. Hólmfríður hefur átt fjórar af þessum stoðsendingum á Guðlaugu Jónsdóttur, tvær á Eddu Garðarsdóttur og eina á Önnu Berglindi Jónsdóttur. Hólmfríður Magnúsdóttir er tvítugur framherji og er á fimmta ári með meistaraflokki KR en hún hefur alls skorað 30 mörk í 46 leikjum í efstu deild. Hún hefur auk þess spilað átta A-landsleiki og hefur verið í byrjunarliðinu í öllum fjórum landsleikjum ársins. Hólmfríður skoraði sjö mörk og átti fimm stoðsendingar í fyrrasumar og hefur þegar bætt sig þó enn séu eftir níu leikir á tímabilinu. Hún hefur fengið stærra hlutverk í sóknarleik KR eftir fráhvarf markadrottningarinnar Hrefnu Jóhannsdóttur og er greinilega að finna sig vel í því ábyrgðarmikla hlutverki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×