Erlent

35 létust í bílsprengingu

Að minnsta kosti 35 manns fórust og eitt 138 særðust í bílsprengingu í Baghdad í morgun. Sprengingin er sögð tengjast valdaskiptum í Írak. Sprengingin átti sér stað utan við herskráningarstofu í fjölfarinni umferðargötu í miðborg Baghdad. Maðurinn í bifreiðinni ók henni að hópi fólks fyrir utan herskráningarstofuna og sprengdi sjálfan sig og bílinn upp með fyrrgreindum afleiðingum. Að sögn herlögreglunnar í Írak eru fórnarlömb árásarinnar allt óbreyttir borgarar, sem fyrir tilviljun voru á vettvangi. Þeir sem staddir voru inni í herskráningarstofunni til að skrá sig í her Íraka meiddust ekki í árásinni. Hermenn sakaði ekki heldur, hvorki írakska né bandaríska. Sprengingin er ein af fjölda árása sem komið hafa í aðdraganda valdaskipta í Írak þann þrítugasta júní næstkomandi. Tilvonandi Forsætisráðherra Íraks, Lyad Allawi, segir að áður hafi hryðjuverkamenn réttlætt gjörðir sínar með því að þær væru liður í að mótmæla hernámi Bandaríkjanna yfir Írak, en nú væri engu líkara en að þeir væru á móti því að írakska þjóðin fengi völd yfir eigin lífi. Allawi segir Íraka ekki láta árásir af þessu tagi draga úr sér kjark fyrir valdaskiptin og að Írakar muni eftir sem áður taka við völdum þann þrítugasta júní.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×