Innlent

Getur ekki fjallað um málið

Siðanefnd Háskóla Íslands getur ekki tekið til umfjöllunar mál aðstandenda Halldórs Laxness vegna bókar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um skáldið. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í morgun lögbann á hendur siðanefndarinnar vegna málsins. Þetta þýðir þó ekki að málaferlum vegna bókarinnar sé lokið. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að siðanefnd Háskólans geti ekki tekið til umfjöllunar mál gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni vegna ævisögu hans um Halldór Laxness. Siðanefnd Háskólans getur áfrýjað þessum úrskurði en Gestur Jónsson, lögmaður nefndarinnar í málinu, segir ákvörðun um það ekki liggja fyrir. Sjálfstætt mál verður næst rekið fyrir dómstólum sem er svokallað staðfestingarmál lögbannsins. Það verður sameinað málinu sem Hannes Hólmsteinn hefur höfðað gegn erfingjum Halldórs Laxness annars vegar, og siðanefndinni hins vegar, og tekið verður fyrir í september. Málaferlum vegna hinnar umdeildu bókar Hannesar um Nóbelsskáldið er því engan veginn lokið. Hannes var sakaður um grófan ritstuld, um að hafa gert orð skáldsins að sínum og að vitna ekki í fræðimenn sem hann studdist við. Þessu hefur Hannes alla tíð neitað. Siðanefnd Háskólans hafði ætlað að fjalla um kæru aðstandenda Halldórs Laxness á hendur Hannesi sem er prófessor við Háskóla Íslands. Dómari telur fram kominn verulegan vafa um það hvort siðanefnd Háskóla Íslands hafi nægilega stoð í lögum og sé af þeirri ástæðu heimilt að fara með málið yfirhöfuð. Í það minnsta væri það ekki sanngjarnt gagnvart Hannesi að nefndin, sem hefur óvissa lagalega stöðu, úrskurði um mál sem eftir á að reka fyrir dómstólum. Hannes Hólmsteinn er í Bandaríkjunum og var ekki viðstaddur þegar úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp í morgun. Aðspurður hvað úrskurðurinn þýði í reynd segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Hannesar, að ef dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að siðanefndin megi fjalla um málið, þá muni hún gera það, en ef þeir komist að þeirri niðurstöðu að hún megi það ekki, þá sé málið úr sögunni fyrir nefndinni. Spurður hvers vegna Hannes vilji ekki að nefndin fjalli um málið segir Jón Steinar að Hannes sé tortrygginn á málsmeðferð hennar vegna ákveðinnar andúðar sem hann telur að sé gegn sér innan háskólasamfélagsins. Sú andúð stafi af afskiptum hans af stjórnmálum og þátttöku Hannesar í þjóðmálaumræðu í gegnum tíðina. Hann treysti „þessu kerfi“ því illa og vilji þ.a.l. ekki eiga neitt undir því. Hannes Hólmsteinn telur að ef menn eigi eitthvað sökótt við hann vegna ritun ævisögu Halldórs Laxness, þá sé það hlutverk íslenskra dómstóla að fjalla um það að sögn Jóns Steinars. Hann var ekki búinn að lesa dómsorðið þegar rætt var við hann. Hægt er að hlusta á viðtal við Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann Hannesar Hólmsteins, úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×