Innlent

Fjöldi hátíða um helgina

Fjöldi fólks lagði land undir fót um helgina og umferðin í átt til Reykjavíkur var farin að þyngjast verulega seinni partinn í gærdag að sögn lögreglunnar í Borgarnesi og á Selfossi. Hundrað ára afmælishátíð síldveiða var haldin hátíðleg á Siglufirði um helgina og var forseti Íslands meðal gesta. Talið er að 1.500 til 2.000 gestir hafi tekið þátt í afmælishátíðinni og öll tjaldstæði voru full í bænum. Hátíðin fór að mestu friðsamlega fram að sögn lögreglu sem stöðvaði þó einn ökumann grunaðan um ölvun við akstur. Franskir dagar á Fáskrúðsfirði og Vopnaskak á Vopnafirði drógu einnig að sér þúsundir gesta um helgina. Hátíðirnar fóru mjög vel fram að sögn lögreglu. Þá fylltist tjaldstæðið á Hólmavík um helgina og talsverð ölvun var í bænum á laugardagskvöld. Lögregla þurfti að hafa afskipti af nokkrum aðilum vegna ölvunar og ryskinga manna á milli. Tjaldstæði Víkur í Mýrdal og Kirkjubæjarklausturs fylltust einnig en þar fór allt friðsamlega fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×