Erlent

Andspyrnan fjármögnuð frá Sýrlandi

Vígamenn í Írak njóta mun meiri stuðnings frá Írak en áður var talið, að sögn bandarískra leyniþjónustumanna sem Washington Post ræddi við. Þeir segja að fyrrum stuðningsmenn Saddams Hussein hafi fundið sér hæli í Sýrlandi og noti það til að dæla peningum til vígamanna og veita þeim annan stuðning. Niðurstöðu sína byggja leyniþjónustumenn á upplýsingum sem fengust í Falluja, Bagdad og víða í súnníþríhyrningnum. Þeir segja að þar hafi komið fram að háttsettir ráðamenn í Baathflokki Saddams safni fjármunum frá fólki í Sádi-Arabíu og Evrópu til að fjármagna baráttuna gegn íröskum yfirvöldum og erlendum hersveitum í landinu. Vísbendingar hafa komið fram sem gefa til kynna að hluta baráttunnar gegn yfirvöldum sé stjórnað af fyrrum ráðamönnum Íraks, búsettum í Sýrlandi. "Í Sýrlandi er að finna fólk sem er illmenni, flóttamenn frá lögum og rétti, leifarnar af veldi Saddams sem vilja endurvekja hina illræmdu ógnarstjórn hans," sagði Ghazi al-Yawar, forseti Íraks, í viðtali við Washington Post.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×