Innlent

Telja gagnrýni ósanngjarna

Gagnrýni höfuðborgarsamtakanna á færslu Hringbrautar, er ósanngjörn og tillögur þeirra ganga ekki upp, segir formaður borgarráðs. Sjálfstæðismenn telja núverandi forsendur framkvæmdanna óskynsamlegar og vilja að málið verði skoðað betur. Á fundi borgarráðs í dag lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu, um að betri upplýsingar yrðu veittar um þær athugasemdir, sem átakshópur Höfuðborgarsamtakanna um betri byggð, gerði við greinargerð sem lögð var fram um málið á dögunum, en hópurinn telur að hún byggist meðal annars á eldri hugmyndum þeirra um lokaðan stokk. Tillagan var ekki afgreidd á fundinum í dag. Höfuðborgarsamtökin fullyrða að borgaryfirvöld hafi reynt að sverta tillögur þeirra um að setja Hringbraut í 600 metra opinn stokk. Alfreð Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segir að þessi gagnrýni sé ósanngjörn. Farið ahfi verið vandlega yfir tillögurnar. Borgarverkfræðingur hefur gert kostnaðarmat, samgöngunefnd hefur farið yfir tillögurnar svo og skypulags og bygginganefnd. Niðurstaðan hafi hins vegar verið sú að tillögurnar gengju ekki upp. Formaður borgarráðs segir eðlilega að verkinu staðið, en Sjálfstæðismenn segja mikilvægt að ná betri sátt um framkvæmdina og vilja meðal annars skoða betur hvernig gamla Hringbrautin verður í nýja skipulaginu. Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að miðað við þær forsendur sem gert sé ráð fyrir sé Hringbrautin ennþá fjölmenn umferðargata sem sé ekki ásættanlegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×