Erlent

Ísraelum gert að rífa múrinn

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun um að Ísraelum beri að rífa niður múrinn sem þeir eru að reisa við Vesturbakkann. Stjórnvöld í Ísrael mótmæla ályktuninni og ætla að halda áfram að reisa múrinn. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær að Ísrael bæri að rífa niður múrinn sem ísraelski herinn hefur verið að byggja síðustu mánuði. Ályktunin er í samræmi við niðurstöður alþjóðadómstóla. Ályktunin er ekki lagalega bindandi, né heldur úrskurður Alþjóðadómstólsins, en hvort tveggja hefur táknrænt gildi. Samstaða á þinginu náðist eftir að Evrópusambandið og Arababandalagið náðu samkomulagi um texta ályktunarinnar. Í henni kemur fram að múrinn sé ólöglegur því hann fari inn á land sem tilheyrir Palestínu. 150 greiddu með, sex gegn og tíu sátu hjá. Bandaríkin, Ísrael, Ástralía og Kanada voru meðal þeirra sem voru á móti. Sendiherra Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum segir ályktunina svívirðilega og ráðgjafi Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, sagði að bygging múrsins myndi halda áfram. Múrinn væri hluti af sjálfsvörnum Ísraela og væri eina leiðin til að stemma stigu við sjálfsmorðsárásum. Ísraelsmenn hafa sömuleiðis neitað að viðurkenna úrskurð alþjóðadómstóla en dómstólar í Ísrael komust reyndar að þeirri niðurstöðu að stjórnvöldum bæri að breyta legu múrsins þar sem hann bryti á mannréttindum Palestínumanna. Margir Palestínumenn eru krógaðir af vegna múrsins og komast ekki til vinnu sinnar eða í ræktunarlönd sín. Palestínumenn fögnuðu niðurstöðunni og sendiherra þeirra þakkaði meðlimum þingsins fyrir að styðja við friðarferlið í Miðausturlöndum. Hann hvatti meðlimi þingsins til þess að íhuga viðskiptabann á Ísrael. Múrinn liggur á landi Palestínu sem samkvæmt Óslóarsamkomlaginu tilheyrir Palestínumönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×