Innlent

Komu í veg fyrir eldsvoða

Ungir drengir komu í veg fyrir eldsvoða í íbúð að Ásabraut 11 í Reykjanesbæ aðfararnótt sunnudags samkvæmt fréttavef Víkurfrétta í dag. Segjast drengirnir hafa heyrt í reykskynjara í húsinu og runnið á hljóðið. Þegar þeir litu inn um gluggann í húsinu sáu þeir reyk og höfðu samband við neyðarlínuna þegar í stað. Það vekur athygli að það tók lögreglu og slökkvilið u.þ.b. 10 mínútur að mæta á staðinn að sögn drengjanna. Þegar lögreglan var komin á vettvang spennti hún upp glugga og kom þá í ljós að húsráðandi var sofandi í íbúðinni. Honum varð ekki meint af. Plast sem lá á eldavél í húsinu hafði bráðnað og myndað mikinn reyk í húsinu en slökkviliðið reykræsti íbúðina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×