Fleiri fréttir

Bremen styrkir stöðu sína

Werder Bremen styrkti stöðu sína í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í dag með 2-0 sigri á Mainz á heimavelli. Jurica Vranjes og Diego skoruðu mörk heimamanna, sem eru þremur stigum á eftir toppliði Schalke. Leverkusen vann dýrmætan 1-0 sigur á botnliði Gladbach með marki Andriy Voronin í uppbótartíma. Sigurinn kom Leverkusen í Evrópusæti í fyrsta sinn síðan í fyrstu umferð deildarinnar, en Gladbach er í mjög vondum málum á botninum.

Robinho tryggði Real sigur

Real Madrid var ekki ýkja sannfærandi í spænska boltanum í kvöld þegar liðið vann nauman sigur á smáliði Gimnastic Tarragona 2-0 eftir að vera manni fleiri í 85 mínútur. Real liðið var andlaust í fyrri hálfleik en Robinho breytti gangi leiksins þegar hann kom inn sem varamaður og skoraði fyrra mark liðsins eftir 55 mínútur.

Zlatan með tvö í sigri Inter

Inter Milan lagði botnlið Ascoli 2-1 með tveimur mörkum frá sænska framherjanum Zlatan Ibrahimovic í dag og er liðið nú komið með 18 stiga forskot á toppi deildarinnar eftir að Roma náði aðeins markalausu jafntefli gegn Fiorentina. Palermo er í þriðja sæti eftir 1-1 jafntefli við Sampdoria í gær. Lazio getur komist í þriðja sæti með sigri á Palermo í kvöld en Milan er í fimmta sætinu eftir sigur á Atalanta.

Everton lagði Arsenal

Andy Johnson tryggði Everton mikilvægan 1-0 sigur á Arsenal á Goodison Park í dag þegar hann skoraði sigurmark liðsins þegar komið var fram í uppbótartíma. Everton átti tvö stangarskot í leiknum og er nú komið í sjötta sæti deildarinnar.

Pardew: Við erum á fínu skriði

Alan Pardew var mjög sáttur við sína menn í dag þegar lið hans Charlton tryggðu sér sjöunda stigið sitt í síðustu þremur leikjum með sigri á Newcastle í dag 2-0. Charlton er enn í bullandi fallbaráttu, en staða liðsins hefur þó lagast til muna eftir góða rispu undanfarið.

Benitez: Við verðum að skapa okkur fleiri færi

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, viðurkenndi að hans menn hefðu ekki spilað vel í markalausu jafntefli gegn Aston Villa á útivelli í dag. Hann sagði sína menn ekki nógu beitta í sóknarleiknum.

Ajax rótburstaði PSV

Ajax burstaði erkifjendur sína í PSV Eindhoven 5-1 á útivelli í stórleik helgarinnar í hollenska boltanum í dag. Klaas-Jan Huntelaar skoraði tvö mörk fyrir gestina, sem söxuðu forskot PSV niður í fimm stig þegar fimm leikir eru eftir. Þetta var næststærsti sigur Ajax á PSV í sögunni. AZ Alkmaar þurfti að sætta sig við jafntefli við Heracles á útivelli og datt því niður í þriðja sæti á eftir PSV.

Inter ætlar að gera risatilboð í Terry

Breska blaðið Mail on Sunday fullyrðir að ítalska félagið Inter Milan ætli að gera Chelsea 20 milljón punda tilboð í varnarmanninn og fyrirliðann John Terry í sumar. Talsmaður ítalska liðsins staðfesti áhuga félagsins á Terry í dag og segir liðið fylgjast spennt með varnarjaxlinum.

Mikilvægur sigur hjá Charlton

Hermann Hreiðarsson og félagar í Charlton unnu í dag gríðarlega mikilvægan sigur á Newcastle 2-0 í ensku úrvalsdeildinni. Zheng Zie skoraði sitt fyrsta úrvalsdeildarmark og fiskaði vítaspyrnu fyrir Charlton, sem lagaði stöðu sína í botnbaráttunni.

Jafnt hjá Villa og Liverpool

Aston Villa og Liverpool skildu jöfn 0-0 á Villa Park í bragðdaufum leik í ensku úrvalsdeildinni í dag. Steven Gerrard var skipt af velli hjá Liverpool og leit út fyrir að eiga við meiðsli að stríða, en Aston Villa hefur ekki náð að vinna Liverpool á heimavelli síðan árið 1998. Liverpool hefur nú hlotið 54 stig í fjórða sæti deildarinnar, einu stigi minna en Arsenal sem á tvo leiki til góða.

Jol: Seljum Berbatov ekki fyrir 40 milljónir

Martin Jol stjóri Tottenham, segir að félagið myndi aldrei geta hugsað sér að selja framherjann Dimitar Berbatov - ekki einu sinni þó það fengi 30-40 milljón punda tilboð í hann. Jol segir Búlgarann magnaða minna sig á Johan Cuyff.

Auðvelt hjá Barcelona

Barcelona er aftur komið á toppinn á Spáni eftir auðveldan 4-0 útisigur gegn Recreativo. Barcelona hefur nú þriggja stiga forystu á toppnum og er til alls líklegt í deildinni þrátt fyrir að vera úr leik í Evrópukeppninni. Samuel Eto´o skoraði tvívegis í kvöld og þeir Zambrotta og Messi sitt markið hvor. Eiður Smári Guðjohnsen spilaði síðustu tíu mínúturnar í leiknum. Valencia steinlá 2-0 á heimavelli fyrir Santander fyrr í kvöld.

Ben Foster: Ég ætla ekkert að lesa blöðin á morgun

Markvörðurinn Ben Foster hjá Watford sagðist eiga von á erfiðri viku með enska landsliðinu eftir að hann lét félaga sinn og markvörð Tottenham Paul Robinson skora hjá sér í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Paul Robinson: Þetta var heppni

Paul Robinson, markvörður Tottenham, viðurkenndi að hann hefði haft heppnina með sér í dag þegar hann skoraði mark af um 80 metra færi gegn Watford. Markið skoraði hann gegn félaga sínum í enska landsliðinu, Ben Foster.

Vonarglæta hjá West Ham

West Ham á enn veika von um að bjarga sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinni eftir að liðið vann frækinn 2-1 útisigur á Blackburn í lokaleik dagsins. Christopher Samba kom heimamönnum yfir strax í upphafi síðari hálfleiks, en þeir Carlos Tevez (víti) og Bobby Zamora skoruðu tvö mörk á fimm mínútum þegar 15 mínútur lifðu leiks og tryggðu Lundúnaliðinu gríðarlega mikilvæg þrjú stig.

Stóri-Sam reiður

Sam Allardyce var reiður eftir að hans menn í Bolton steinlágu 4-1 á Old Trafford í dag. Hann sagði sína menn hafa gefið Manchester United þrjú mörk og það eftir föst leikatriði, sem eru venjulega sterkasta hlið liðsins í vörn og sókn.

Schalke á toppnum - Bayern tapar enn

Schalke styrkti stöðu sína á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag með 1-0 sigri á Stuttgart. Á sama tíma tapaði Bayern 1-0 fyrir Frankfurt á útivelli. Schalke hefur 53 stig eftir 26 leiki en Bremen getur minnkað forskot þeirra í þrjú stig með sigri á Mainz á morgun. Stuttgart er í þriðja sætinu með 46 stig og Bayern er í fjórða með 44 stig.

Ferguson: Frábær úrslit

Sir Alex Ferguson var mjög ánægður með frammistöðu sinna manna í dag þegar Manchester United burstaði Bolton 4-1 á Old Trafford og styrkti stöðu sína á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Auðvelt hjá Chelsea

Chelsea vann í dag auðveldan 3-0 sigur á Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni og minnkaði forskot Man Utd á toppnum niður í sex stig á ný. Paul Robinson, markvörður Tottenham, var maður dagsins eftir að hann skoraði eitt marka sinna manna í 3-1 sigri á Watford. Manchester City vann fyrsta leik sinn í deildinni síðan á nýársdag þegar liðið skellti Middlesbrough á útivelli 2-0. Ekkert mark var skorað í leikjum Reading - Portsmouth og Wigan - Fulham.

Paul Robinson markvörður skoraði fyrir Tottenham

Enski landsliðsmaðurinn Paul Robinson hjá Tottenham afrekaði það í dag að skora mark fyrir lið sitt í leiknum gegn Watford. Robinson kom Tottenham í 2-0 í leiknum þegar hann tók aukaspyrnu úti á velli sem skoppaði yfir félaga hans í landsliðinu Ben Foster hjá Watford og í netið. Það er því ljóst að aumingja Foster þarf að hlusta á nokkra fimmaurabrandara frá félögum sínum í landsliðshópnum í næstu viku.

Bakverðir Englands á meiðslalistanum

Steve McClaren landsliðsþjálfari Englendinga hefur eflaust grett sig í dag þegar hann fékk þær fréttir að tveir af hægribakvörðum enska landsliðsins meiddust í dag. Gary Neville fór af velli strax í byrjun leiks hjá Manchester United og er meiddur á ökkla. Micah Richards hjá Manchester City fór svo sömu leið í fyrri hálfleik gegn Middlesbrough og því útlit fyrir að hvorugur verði með landsliðinu í næstu viku.

Ronaldo fór á kostum í stórsigri United

Manchester United stefnir nú hraðbyri á að tryggja sér sigur í ensku úrvalsdeildinni, en í dag vann liðið sannfærandi 4-1 sigur á Bolton á Old Trafford. Ji-Sung Park og Wayne Rooney skoruðu tvö mörk hvor og Christiano Ronaldo lagði upp þrjú þeirra, en Gary Speed minnkaði muninn fyrir Bolton.

Chelsea yfir 2-0

Chelsea hefur örugga 2-0 forystu gegn Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni þegar flautað hefur verið til hálfleiks. Andriy Shevchenko og Salomon Kalou skoruðu mörk liðsins. Tottenham hefur yfir 1-0 gegn Watford með marki Jermaine Jenas, en markalaust er í hinum leikjunum þremur sem standa yfir. Fylgist með stöðu mála á Boltavaktinni hér á Vísi.

Ívar byrjar fyrir Reading

Nú eru að hefjast fimm leikir í ensku úrvalsdeildinni. Ívar Ingimarsson er á sínum stað í byrjunarliði Reading sem tekur á móti Portsmouth, en þar er Brynjar Björn Gunnarsson á bekknum. Heiðar Helguson er á bekknum hjá Fulham sem sækir Wigan heim og þá hafa Chelsea og Tottenham ákveðið að hvíla lykilmenn sína í dag fyrir slaginn í bikarnum á mánudaginn.

Valur að fá danskan framherja

Danski knattspyrnukappinn, Dennis Bo Mortensen á leið til Vals. Mortensen er 26 ára framherji og er samningsbundinn danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland. Bo Mortensen hefur spilað með dönsku ungmennalandsliðunum, m.a. á móti Íslendingum. Arnar Björnsson greindi frá þessu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Mourinho vill halda í Lampard og Terry

Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea vill ólmur halda þeim John Terry og Frank Lampard í röðum félagsins þangað til samningur hans rennur út árið 2010, en bresku blöðin hafa mikið ritað um að þeir væru á leið frá Chelsea í sumar.

Ferguson og Giggs bestir í febrúar

Sir Alex Ferguson og Ryan Giggs hjá Manchester United voru í dag útnefndir knattspyrnustjóri og leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni. Þetta er í annað sinn á leiktíðinni sem þeir félagar taka við verðlaununum saman, en þeir urðu einnig fyrir valinu í ágústmánuði.

Aragones velur hópinn sem mætir Íslendingum

Luis Aragones, landsliðsþjálfari Spánverja, hefur ákveðið að halda tryggð við megnið af leikmönnunum sem lögðu Englendinga 1-0 í æfingaleik í síðasta mánuði. Hann hefur nú tilkynnt hóp sinn fyrir leikina gegn Íslendingum og Dönum í undankeppni EM.

Ekkert óvænt hjá McClaren

Steve McClaren landsliðsþjálfari Englendinga gaf í dag út hvaða leikmenn yrðu í landsliðshópi hans fyrir leikina gegn Ísrael og Andorra í undankeppni EM. Joey Barton, Gareth Barry og Shaun Wright-Phillips detta út úr hópnum sem tapaði síðast fyrir Spánverjum í æfingaleik.

Tímabilið búið hjá Walcott

Framherjinn ungi Theo Walcott hjá Arsenal verður líklega ekkert meira með liðinu í vor. Hann þarf að fara í uppskurð á öxl, en hafði verið beðinn um að fresta honum vegna mikilla meiðsla í herbúðum liðsins. Walcott, sem er 18 ára í dag, segir meiðslin hafa versnað undanfarnar vikur og ekki sé hægt að fresta aðgerðinni lengur.

Tottenham mætir Evrópumeisturunum

Í dag var dregið um hvaða lið mætast í 8-liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða. Tottenham mætir Evrópumeisturum Sevilla frá Spáni og Grétar Rafn Steinsson og félagar í AZ Alkmaar fá erfitt verkefni þegar þeir mæta Werder Bremen.

Frækinn sigur AZ á Newcastle

AZ Alkmaar vann í kvöld góðan 2-0 sigur á Newcastle í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða og sendu þar með enska liðið úr keppni þrátt fyrir 4-2 tap í fyrri leiknum á Englandi. Grétar Rafn Steinsson var á sínum stað í vörninni hjá hollenska liðinu sem er greinilega til alls líklegt í keppninni. Shota Arveladze og Danny Koevermans skoruðu mörk AZ í kvöld, en liðið hefði vel geta unnið stærri sigur.

Wenger þarf enn að svara til saka

Arsene Wenger hefur nú enn á ný verið kallaður inn á teppi hjá enska knattspyrnusambandinu. Wenger hefur verið kærður fyrir ósæmilega framkomu eftir úrslitaleikinn í deildarbikarnum gegn Chelsea á dögunum og hefur frest til 30. mars til að svara fyrir sig. Wenger kallaði aðstoðardómarann í leiknum lygara og sagði agareglur knattspyrnusambandsins óheiðarlegar.

Johnson vill ljúka ferlinum hjá Everton

Framherjinn Andy Johnson segir ekkert til í þeim orðrómi sem gengið hefur í bresku blöðunum undanfarið sem sagði hann þjást af heimþrá. Johnson segir að ef hann gæti skrifað undir ævilangan samning við Everton ef það stæði til boða.

Domenech orðinn þreyttur á Wenger

Raymond Domenech landsliðsþjálfari Frakka, segist vera orðinn afar þreyttur á athugasemdum landa síns og kollega Arsene Wenger hjá Arsenal. Wenger sagði í vikunni að það væri franska landsliðinu að kenna að Thierry Henry hafi aldrei náð sér á strik í vetur vegna meiðsla.

Navarro gengst við banni sínu

David Navarro, leikmaður Valencia á Spáni, ætlar ekki að áfrýja sjö mánaða keppnisbanninum sem hann var settur í af aganefnd Knattspyrnusambands Evrópu eftir slagsmálin sem brutust út eftir leik Valencia og Inter í Meistaradeildinni á dögunum.

Robinho hótar að hætta hjá Real

Brasilíski framherjinn Robinho hefur nú endanlega fengið sig fullsaddan af því að sitja á tréverkinu hjá Real Madrid og hefur sent forráðamönnum félagsins skýr skilaboð. Leyfið mér að spila eða ég er farinn.

Nýr samningur í smíðum fyrir Robben

Han Robben, faðir og umboðsmaður Arjen Robben hjá Chelsea, segir að félagið sé að undirbúa nýjan samning handa syni sínum. Hann segir Robben vera ánægðan hjá Chelsea, en bætir því við að hann hefði ekkert á móti því að spila fyrir Barcelona einn daginn.

Rijkaard: Áfall að missa af Henry

Frank Rijkaard, þjálfari Barcelona, segir að það hafi verið mikið áfall fyrir félagið í sumar þegar því mistókst að krækja í framherjann Thierry Henry hjá Arsenal. Hann segist bjartsýnn á að Barca nái að halda í þá Ronaldinho og Samuel Eto´o þrátt fyrir þrálátan orðróm um að þeir séu að fara frá félaginu.

Hitzfeld framlengir við Bayern

Þjálfarinn Ottmar Hitzfeld hefur skrifað undir nýjan samning við Þýskalandsmeistara Bayern Munchen og gildir hann út næstu leiktíð. Hitzfeld samdi fyrir nokkru við félagið út þessa leiktíð eftir að Felix Magath var rekinn, en aldrei stóð til hjá honum að vera lengur hjá félaginu en til vors.

Chelsea heldur sínu striki

Chelsea minnkaði forskot Manchester United niður í sex stig á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld þegar liðið lagði Manchester City 1-0 á útivelli. Það var Frank Lampard sem skoraði sigurmark Chelsea úr vítaspyrnu á 28. mínútu leiksins eftir að brotið var á Salomon Kalou innan teigs.

Arsenal í þriðja sætið

Arsenal skaust í kvöld í þriðja sætið í ensku úrvalsdeildinni með 1-0 sigri á Aston Villa á útivelli. Það var Abou Diaby sem skoraði slysalegt sigurmark gestanna í upphafi leiksins þegar hann stýrði óvart skoti Julio Baptista í netið. Diaby var síðar heppinn að tryggja villa ekki jafntefli þegar Freddie Ljungberg hreinsaði skot hans á eigið mark af marklínunni.

Tottenham í 8-liða úrslit

Tottenham tryggði sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða með sigri á portúgalska liðinu Braga á heimavelli 3-2. Heimamenn lentu undir snemma leiks með sjálfsmarki Tom Huddlestone, en hinn magnaði Dimitar Berbatov kom Tottenham í 2-1í hálfleik með frábærum mörkum. Gestirnir náðu að jafna leikinn á 61. mínútu en það var svo Steed Malbranque sem tryggði Tottenham samtals 6-4 sigur með marki á 76. mínútu.

Tottenham í góðum málum

Tottenham hefur yfir 2-1 í hálfleik gegn Braga þegar flautað hefur verið til hálfleiks í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða. Leikurinn er sýndur beint á Sýn og hefur enska liðið haft algjöra yfirburði og er yfir 5-3 samanlagt. Sjálfsmark Tom Huddlestone kom Braga yfir en hinn magnaði Dimitar Berbatov hefur síðan skorað tvö lagleg mörk og komið Tottenham yfir.

Chelsea og Arsenal yfir í hálfleik

Nú er kominn hálfleikur í viðureignunum tveimur sem standa yfir í ensku úrvalsdeildinni. Arsenal er yfir 1-0 á útivelli gegn Aston Villa þar sem Abu Diaby skoraði slysalegt mark í upphafi leiks. Chelsea hefur yfir 1-0 gegn Man City á útivelli þar sem Frank Lampard ellefta mark sitt á leiktíðinni úr vítaspyrnu eftir að Micah Richards felldi Salomon Kalou í teignum.

Sjá næstu 50 fréttir