Fleiri fréttir

FH fær HB í undankeppni Meistaradeildar Evrópu

FH-ingar fá að kljást við HB frá Færeyjum í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Ef þeir vinna það einvígi munu þeir keppa við APOEL frá Kýpur eða BATE frá Hvíta-Rússlandi í annarri umferð undankeppninnar. Fyrri leikurinn fer fram annað hvort 17. eða 18. júlí og síðari leikurinn þann 24. eða 25. sama mánaðar.

Newcastle sagt falast eftir Eiði Smára

Enskir miðlar greina frá því að Sam Allardyce, nýr knattspyrnustjóri Newcastle, sé nú staddur í Barcelona þar sem hann reyni að tryggja sér starfskrafta Eiðs Smára Guðjohnsen, fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Darren Bent til Tottenham

Darren Bent er kominn til Tottenham fyrir 16,5 milljón punda. Þetta var staðfest í morgun. Bent er 23 ára og hefur spilað fyrir Charlton síðastliðin ár. Hann á tvo landsleiki að baki fyrir England. Bent hafnaði því nýverið að fara til Íslendingafélagsins West Ham.

Loksins sigur hjá KR

KR-ingar unnu langþráðan sigur í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í kvöld þegar þeir lögðu Framara 2-1 í Frostaskjóli. Hjálmar Þórarinsson kom Fram yfir í fyrri hálfleik með góðu skoti en Jóhann Þórhallsson jafnaði fyrir KR á 79. mínútu. Þar á undan hafði Stefán Logi Magnússon markvörður KR varið vítaspyrnu frá Hjálmari Þórarinssyni.

Tottenham sagt ganga að kröfum Charlton

Sky fréttastofan segir að Tottenham hafi nú gengið að kröfum Charlton um kaupverð á framherjanum Darren Bent. Hinn 23 ára gamli landsliðsmaður mun fara í læknisskoðun á morgun og skrifar væntanlega undir samning við Tottenham á morgun.

Sharapova í þriðju umferð

Rússneska tenniskonan Maria Sharapova vann sannfærandi sigur á frönsku stúlkunni Severine Bremond í annari umferð Wimbledon mótsins í dag 6-0 og 6-3. Sigur Sharapovu var aldrei í hættu í leiknum og fengu þær að sjá sjaldgæft sólskin á mótinu eftir að rigningar höfðu sett strik í reikninginn til þessa. Sharrapova mætir Ai Sugiyama í þriðju umferð, en þær mættust einnig árið 2004 þegar Sharapova vann sigur á mótinu.

Frábær árangur hjá skylmingamönnum

Íslensku keppendurnir á Norðurlandamótinu í skylmingum hafa nú lokið keppni á mótinu og er árangurinn frábær. Íslenska liðið sigraði í dag í liðakeppni í skylmingum með höggsverði og vann alls til níu gullverðlauna á mótinu. 35 íslenskir keppendur tóku þátt í mótinu og sigruðu þeir í 8 af 11 flokkum í keppni einstaklinga.

Kubica efast um kraftaverkamátt páfa

Pólski ökuþórinn Robert Kubica í Formúlu 1 vill ekki meina að það hafi verið hreinræktað kraftaverk þegar hann slapp að mestu ómeiddur úr skelfilegum árekstri í Kanadakappakstrinum fyrr í þessu mánuði. Fréttastofa í Póllandi vill meina að um kraftaverk frá Jóhannesi Páli páfa hafi verið að ræða.

Mayweather boðnar 630 milljónir fyrir að mæta Hatton

Umboðsmaður breska hnefaleikarans Ricky Hatton hefur boðist til að greiða Floyd Mayweather 630 milljónir króna fyrir að taka hanskana fram á ný og berjast við Hatton. Mayweather hefur látið í það skína að hann sé tilbúinn að berjast við Hatton, en það verður þá ekki ókeypis frekar en annað þegar stærstu nöfnin í hnefaleikunum eru annars vegar.

Sissoko framlengir við Liverpool

Miðjumaðurinn Mohamed Sissoko hjá Liverpool hefur framlengt samning sinn við félagið til ársins 2011. Malímaðurinn er 22 ára gamall og gekk í raðir Liverpool frá Valencia fyrir rúmar 5 milljónir punda árið 2005. Hann á að baki 71 leik með liðinu en hefur enn ekki náð að skora mark fyrir þá rauðu.

Kylfingur í krókódílskjafti

Bandarískur kylfingur, Bruce Burger að nafni, var hætt kominn á Lake Venice-vellinum í Flórida á mánudaginn þegar krókódíll réðist á hann við 6. braut vallarins. Krókódíllinn var rúmlega þriggja metra langur og beit í handlegginn á Burger og reyndi að draga hann út í vatnið.

Mónakó í viðræðum við Giuly

Þjálfari franska liðsins Mónakó segist nú vera í viðræðum við vængmanninn Ludovic Giuly hjá Barcelona og á jafnvel von á að landa honum til síns gamla félags á morgun. Giuly hefur verið hjá Barca í þrú ár en hann lék með Mónakó árin 1997-2004. "Ludo er stórt nafn í Mónakó og ég veit að allir vilja fá hann heim aftur," sagði Ricardo þjálfari liðsins.

Getafe: Schuster er ekki að taka við af Capello

Forráðamenn Getafe á Spáni gáfu út yfirlýsingu í dag þar sem félagið neitar því að Bernd Schuster sé eftirmaður Fabio Capello hjá Real Madrid. Capello var rekinn frá Real í dag og því hefur verið haldið fram lengi að Schuster taki við af honum. Hann er hinsvegar samningsbundinn Getafe út næstu leiktíð.

Valdimar Þórsson í Fram

Framarar hafa fengið góðan liðsstyrk fyrir átökin í DHL-deild karla næsta vetur. Á blaðamannafundi nú klukkan 16 tilkynnti handknattleiksdeild félagsins að hún hefði gert tveggja ára samning við Valdimar Þórsson, fyrrum leikmann HK. Valdimar hefur verið einn af betri leikmönnum Íslandsmótsins undanfarin ár og skoraði 162 mörk í 21 leik fyrir HK í vetur.

Forráðamenn Wimbledon sjá rautt

Wimbledon mótið í tennis er frekar íhaldsöm keppni og það sannaðist í dag þegar franska stúlkan Tatiana Golovin þurfti miklar málalengingar við dómara til að fá að klæðast rauðum nærfötum á mótinu. Keppendur eru beðnir að klæðast aðeins hvítu á mótinu og fór það fyrir brjóstið á mótshöldurum að sjá Tatiönu flagga rauðum nærbuxum undir annars hvítum klæðnaði sínum.

Makaay farinn til Feyenoord

Framherjinn Roy Makaay er farinn frá Bayern Munchen í Þýskalandi og hefur skrifað undir þriggja ára samning við Feyenoord í heimalandi sínu. Bayern keypti Makaay fyrir metfé, 18,75 milljónir evra, árið 2003. Hann var ekki inni í framtíðarplönum þýska félagsins fyrir næstu leiktíð og snýr nú aftur til félagsins sem hann lék með í heimalandinu fyrir áratug.

Coleman tekinn við Sociedad

Chris Coleman, fyrrum knattspyrnustjóri Fulham í ensku úrvalsdeildinni var í dag ráðinn þjálfari Real Sociedad í spænsku 2. deildinni. Sociedad féll úr 1. deildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins á dögunum og vildi forsetinn að sögn reyna að fá mann með nýjar hugmyndir til að taka við liðinu.

Federer í þriðju umferð

Tenniskappinn Roger Federer var ekki nema 11 mínútur að tryggja sér sæti í þriðju umferð Wimbledon mótsins í tennis í dag þegar hann spilaði afganginn af leik sínum við Argentínumanninn Martin del Potro. Leiknum var frestað í gær vegna rigningar en Federer vann sinn 50. leik á grasi með 6-2, 7-5 og 6-1 sigri.

Valsmenn mæta liði frá Litháen

Í morgun var dregið í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Íslandsmeistarar Vals í karlaflokki mæta litháísku meisturunum Panevezys Viking Malt og byrja á útivelli 1. eða 2. semptember. Síðari leikurinn er hér heima viku síðar.

Stefán á leið til Bröndby?

Ekstra blaðið í Danmörku heldur því fram í dag að Bröndby sé við það að ganga frá kaupum á landsliðsmanninum Stefáni Gíslasyni frá Lyn í Noregi. Kaupverðið er sagt vera um 100 milljónir króna og ef af viðskiptunum verður - yrði Stefán dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Kópavogsliðin mætast í bikarnum

Í hádeginu var dregið í 16-liða úrslit Visa bikarsins í knattspyrnu. Nokkrir athyglisverðir leikir verða á dagskrá í umferðinni þar sem Kópavogsliðin Breiðablik og HK lentu saman og þá eigast við Reykjavíkurliðin KR og Valur. Bikarmeistarar Keflavíkur sækja Þrótt heim og FH mætir ÍBV í Eyjum.

Capello rekinn

Real Madrid rak í dag þjálfarann Fabio Capello frá störfum sem þjálfara þrátt fyrir að hann stýrði liðinu til Spánarmeistaratitilsins í fyrsta skipti í fjögur ár á dögunum. "Þetta var erfið ákvörðun en stjórnin var sammála um að Capello væri ekki rétti maðurinn til að leiða félagið inn í framtíðina," sagði Predrag Mijatovic yfirmaður knattspyrnumála.

Portland ætlar að velja Greg Oden

ESPN sjónvarpsstöðin greinir frá því í dag að hún hafi heimildir fyrir því að Portland Trailblazers ætli að nota fyrsta valrétt sinn í nýliðavali NBA í nótt til að velja miðherjann Greg Oden frá Ohio State háskólanum. Fastlega er reiknað með því að Seattle Supersonics muni þá taka Kevin Durant frá Texas með öðrum valrétti sínum.

Ljungberg vill vera áfram hjá Arsenal

Sænski landsliðsmaðurinn Freddie Ljungberg ætlar ekki að fara frá Arsenal að sögn umboðsmanns leikmannsins. Ljungberg er þrítugur og hefur vakið áhuga liða víða á Englandi en hann átti við meiðsli að stríða síðasta vetur. "Freddie er samningsbundinn Arsenal til 2009 og hefur ekki áhuga á að fara frá félaginu," sagði umboðsmaðurinn.

Trezeguet neitaði United og Liverpool

Franski markaskorarinn David Trezeguet hjá Juventus framlengdi samning sinn við ítalska félagið til ársins 2011 á dögunum en hann hefur nú gefið upp að hann hafi neitað tilboðum bæði Manchester United og Liverpool á Englandi og Barcelona á Spáni.

Framtíð Capello ræðst í dag

Útvarpsstöð Marca á Spáni greindi frá því í gærkvöld að Fabio Capello yrði ekki þjálfari Real Madrid áfram, en sagt er að framtíð hans ráðist á stjórnarfundi félagsins í dag. Marca segir fundinn aðeins formsatriði til að reka Capello sem á tvö ár eftir af samningi sínum við félagið. Capello landaði meistaratitli í hús á dögunum, en spurningamerki hafa verið sett við leikaðferðir hans sem þykja ekki hæfa sóknarhefð félagsins.

Tottenham nálægt samkomulagi um Darren Bent

Breska sjónvarpið greinir frá því í morgun að nú styttist í að Tottenham muni landa framherjanum Darren Bent frá Charlton. Kaupverðið er sagt um 15 milljónir punda fyrir hinn 23 ára gamla landsliðsmann og sagt er að félögin hafi komist að málamiðlun um kaupverðið í gær. Charlton vildi fá 17 milljónir punda fyrir leikmanninn. Liverpool hefur einnig verið orðað við Bent en hefur beint sjónum sínum að Fernando Torres.

Mexíkó lagði Brasilíu

Óvænt úrslit urðu í B-riðli Copa America í nótt þegar Mexíkóar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Brasilíumenn 2-0 í síðari leik kvöldsins. Nery Castillo kom Mexíkó á bragðið með fallegu marki eftir 24 mínútur og Ramón Morales skoraði síðara markið beint úr aukaspyrnu fimm mínútum síðar. Þá vann Chile dramatískan sigur á Ekvador 3-2 eftir að lenda tvisvar undir í leiknum.

Capello sagður á förum frá Real

Spænska blaðið Marca fullyrðir í dag að þjálfari Spánarmeistara Real Madrid, Ítalinn Fabio Capello, hafi verið rekinn úr starfi. Hermt er að Pedja Mijatovic, íþróttamálastjóri félagsins, hafi þegar tjáð aðstoðarmanni Capellos að krafta hans sé ekki lengur óskað en Capello er nú í fríi í Kína.

Capello rekinn frá Real Madrid?

Stjórn Real Madrid hefur rekið knattspyrnustjórann Fabio Capello úr starfi ef marka má frétt Marca nú um miðnættið. Liðið vann titilinn undir stjórn Capello á dögunum en ekki er talið að samstarf hans við stjórina hafi verið sérlega gott. Ef þessar fréttir verða staðfestar yrði það ekki í fyrsta skipti sem Real rekur þjálfara sem náð hefur ágætum árangri með liðið.

Fram yfir í hálfleik

Framarar hafa yfir 1-0 gegn KR þegar flautað hefur verið til hálfleiks í lokaleik 8. umferðar Landsbankadeildar karla. Það var Hjálmar Þórarinsson sem skoraði mark Fram með góðu skoti eftir 24 mínútna leik. KR-ingar sitja á botni deildarinnar með aðeins eitt stig en Fram í sætinu þar fyrir ofan með fimm stig.

Fram nær forystu gegn KR

Framarar hafa náð 1-0 forystu gegn KR eftir 24 mínútna leik í viðureign liðanna á KR-velli. Það var Hjálmar Þórarinsson sem skoraði mark Fram með bylmingsskoti. Stefán Logi Magnússon ver mark KR í kvöld í stað Kristjáns Finnbogasonar sem situr á varamannabekknum.

Valsmenn sigruðu FH 4 - 1

Íslandsmeistarar FH töpuðu fyrsta leik sínum á tímabilinu í kvöld þegar Valsmenn unnu þá með fjórum mörkum gegn einu. Guðmundur Benediktsson skoraði tvö mörk í leiknum og Helgi Sigurðsson setti eitt. Þá varð varnarmaður FH fyrir því óláni að skora sjálfsmark. FH náði að klóra í bakkan í seinni hálfleik þegar Matthías Vilhelmsson skoraði. Það varð hins vegar eina mark Íslandsmeistaranna í kvöld.

Keflvíkingar sigruðu á heimavelli

Keflvíkingar fóru með sigur af hólmi á heimavelli í Landsbankadeildinni þegar þeir lögðu Fylkismenn með einu marki gegn engu í kvöld. Það var Færeyingurinn Símun Samúelsson sem tryggði heimamönnum sigurinn.

Garbajosa í hópi Spánverja

Framherjinn Jorge Garbajosa hjá Toronto Raptors hefur verið kallaður inn í 15 manna hóp Pepu Hernandez landsliðsþjálfara Spánverja sem eru nú að undirbúa sig fyrir EM í körfubolta sem fram fer í Madrid í september.

Fótboltinn vinsælli en íshokkí

Mikið hefur verið rætt um uppganginn í knattspyrnunni í Bandaríkjunum í kjölfar þess að David Beckham ákvað að ganga í raðir LA Galaxy. Á sama tíma virðist íshokkí vera á hraðri leið í landinu ef tekið er mið af áhorfi á úrslitaleikinn í Stanley Cup.

Makaay vildi ekki fara til Bremen

Nú er ljóst að hollenski framherjinn Roy Makaay mun fara frá Bayern Munchen eftir að félagið festi kaup á Miroslav Klose frá Bremen. Makaay fellur fyrir vikið aftar í goggunarröðinni hjá liðinu og segir talsmaður Bayern honum frjálst að fara - þó aðeins fyrir rétt verð.

Þrír titlar í viðbót í skylmingunum

Íslenska skylmingalandsliðið bætti í dag þremur titlum í sarpinn á Norðurlandamótinu. Ragnar Ingi Sigurðsson FH varð í dag Norðurlandameistari í opnum flokki í skylmingum með höggsverði. Þorbjörg Ágústsdóttir SFR varð Norðurlandameistari í kvennaflokki fyrr í dag. Þar með hafa íslensku stúlkurnar náð öllum Norðurlandameistaratitlum í kvennaflokkum á mótinu. Sindri Snær Freysson hampaði Norðurlandameistaratitli í barnaflokki 13 ára og yngri.

Chelsea að bjóða í Malouda?

Franskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Chelsea hafi gert 12 milljón punda kauptilboð í vængmanninn Florent Malouda hjá Lyon. Malouda hefur lengi verið orðaður við Chelsea og vitað er að Jose Mourinho hefur lengi haft augastað á hinum 27 ára gamla landsliðsmanni Frakka.

1350 þúsund söfnuðust í Stjörnugolfi Sýnar

Stjörnugolf Sýnar var haldið í fjórða sinn 20. júní sl. og fór mótið fram á Korpúlfsstaðavelli. Metþátttaka var í mótinu og söfnuðust 1.350 þúsund krónur, sem renna til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Þetta er einnig hæsta upphæð sem hefur safnast í Stjörnugolfi frá upphafi.

James ætlar að spila með landsliðinu

Körfuboltastjarnan LeBron James hjá Cleveland Cavaliers hefur nú tilkynnt að hann ætli að gefa kost á sér í að spila með bandaríska landsliðinu í komandi verkefnum, en hann hafði áður sagt að aðeins helmingslíkur væru á því að hann tæki þátt.

FIFA slakar á hæðartakmörkunum

Alþjóða knattspyrnusambandið tilkynnti í dag að slakað yrði á reglum sem það hafði áður sett um hámarkshæð sparkvalla yfir sjávarmáli. Knattspyrnusamband Suður-Ameríku brást illa við þegar FIFA tilkynnti vellir í yfir 2500 metra hæð yrðu dæmdir ólöglegir.

Amsterdam-mótið verður á Sýn

Sjónvarpsstöðin Sýn verður með beinar útsendingar frá Amsterdam-mótinu í knattspyrnu í sumar en það hefst 2. ágúst. Á mótinu keppa Arsenal, SS Lazio, Ajax Amsterdam og Atletico Madrid og er þetta fín upphitun fyrir enska boltann sem fer í loftið síðar í mánuðinum.

Eiður Smári er eins og Eric Cantona

Mike Whitlow, fyrrum samherji Eiðs Smára Guðjohnsen hjá Bolton, segir að það yrði frábært ef Manchester United gæti klófest Eið frá Barcelona og líkir landsliðsfyrirliðanum við Eric Cantona og Dennis Bergkamp.

Sjá næstu 50 fréttir