Enski boltinn

Eiður Smári er eins og Eric Cantona

Whitlow telur Eið smellpassa inn í lið Manchester United
Whitlow telur Eið smellpassa inn í lið Manchester United AFP

Mike Whitlow, fyrrum samherji Eiðs Smára Guðjohnsen hjá Bolton, segir að það yrði frábært ef Manchester United gæti klófest Eið frá Barcelona og líkir landsliðsfyrirliðanum við Eric Cantona og Dennis Bergkamp.

Eiður hefur mikið verið orðaður við England eftir að Barcelona keypti Thierry Henry og Whitlow telur að Manchester United gæti orðið hið fullkomna lið fyrir hann. Hann segir Eið geta gert svipaða hluti fyrir United og Dennis Bergkamp gerði fyrir Arsenal á sínum tíma.

"Það tók Eið hálft ár að finna sig þegar hann kom til Bolton en eftir það var hann líka óstöðvandi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hann myndi slá rækilega í gegn bæði með liðinu og hjá stuðningsmönnunum. Hann hefur náð árangri hvar sem hann hefur komið og það að hann skuli hafa spilað með Barcelona bætir hann aðeins sem knattspyrnumann," sagði Whitlow í samtali við Manchester Evening News.

"Eiður býr yfir sjaldgæfum hæfileikum því hann er sterkur í spili og býr til aragrúa færa fyrir samherja sína auk þess að skora mörk. Sumir segja að hann skori ekki nógu mörg mörk, en það er erfitt að gera öllum til geðs og ég er viss um að Bergkamp var gagnrýndur fyrir að skora ekki nógu mörg mörk hjá Arsenal. En hversu óeigingjarn var hann - og hve mörg mörk lagði hann upp fyrir félaga sína? Svona var Eric Cantona líka og ég trúi að Eiður sé svona leikmaður. Það myndi ekki ergja Alex Ferguson þó Eiður skoraði ekki 20 mörk á tímabili, því hann fengi allt aðra góða hluti frá honum," sagði Whitlow




Fleiri fréttir

Sjá meira


×