Fleiri fréttir

Talibanar hóta frekari árásum

Talíbanar hóta frekari árásum á hermenn en kanadamaður og tveir Afganir féllu í sjálfsmorðstilræði í Suður-Afganistan í gær. Þá særðust 13 manns til viðbótar en alls hafa 25 sjálfsmorðssprengjuárásir verið gerðar í landinu á síðustu fjórum mánuðum. Kanadamaðurinn sem lést var starfsmaður endurreisnarsveitar alþjóðlegur friðargæslunnar í Afganistan. Alls hafa því níu Kanadamenn fallið í landinu frá árinu 2002.

Mikið snjóað í Pakistan

Mikið hefur snjóað í Pakistan yfir helgina og gert þeim tug þúsundum sem búa upp til fjalla enn erfiðara fyrir. Talið er að yfir þrjár milljónir manna séu heimilislausir eftir jarðskjálftann þar í landi sem varð í október á síðasta ári. Áframhaldandi snjókomu er spáð næstu daga og óttast yfirvöld að hundruð manna muni farast vegna mikilla vetrarkulda. Talið er að um 90 þúsund manns hafi farist í jarðskjálftanum og segja Sameinuðu þjóðirnar ekki ólíklegt að jafn margir ef ekki fleiri farist í kuldunum á næstu vikum og mánuðum.

Heimsmarkaðsverð á olíu mun hækka

Heimsmarkaðsverð á olíu mum hækka ef Íranir verða beittir refsiaðgerðum vegna kjarnorkuáætlana þeirra. Þetta sagði efnahagsmálaráðherra landsins í gær og sagði jafnframt verðhækkanir verða töluvert hærri en ráðamenn á vesturlöndum geri sér grein fyrir. Þá sagði forseti Írans það algjörlega rangt að kjarnorkuáætlun þjóðarinnar miðaði að því að smíða vopn því Íranar hefðu ekkert við kjarnorkuvopn að gera. Ákveðið verður í þessari viku hvort deilunni verði vísað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Vilja komast að uppruna sólkerfisins

Hylki könnunargeimfars sem skotið var á loft fyrir sjö árum lenti í eyðimörk í Utah í Bandaríkjunum í gær, hlaðið geimryki. Vísindamenn vonast til þess að komast að uppruna sólkerfisins með því að rannsaka rykið sem safnað var saman í hylkið. Könnunarflaugin fór um það bil 4,7 miljarða kílómetra á ferð sinni um geiminn en þetta er í fyrsta sinn síðan árið 1972 sem þeim tekst að safna saman föstu efni utan úr geimnum og senda það til jarðar.

Ellen Johnson-Sirleaf sver í dag embætti forseta

Ellen Johnson-Sirleaf sver í dag embættiseið sem forseti Líberíu, en hún er fyrst afrískra kvenna til að gegna leiðtogahlutverki í landi sínu. Búist við fjölmörgum háttsettum gestum frá öðrum Afríkuríkjum og ríkjum víða um heim á embættistökuna í höfuðborginni Monróvíu en mikill viðbúnaður er vegna hennar. Sirleaf hefur sagt það markmið sitt að endurvekja von í landinu, en innviðir samfélagsins í Líberíu eru molum eftir áralanga borgarastyrjöld.

Finnar þurfa að kjósa aftur

Aftur þarf að kjósa í forsetakosningunum í Finnlandi þar sem Tarja Halonen, forseti landsins, fékk ekki yfir helming atkvæða í kosningunum í gær eins og hún þurfti. En hún fékk aðeins 46 prósent atkvæða. Sauli Ninistö, fyrrverandi fjármálaráðherra Finnlands og frambjóðandi Hægriflokksins, hlaut 24% og Matti Vanhanen, forsætisráðherra og frambjóðandi Miðflokksins fékk 18,6%. Kosið verður því á milli þeirra Halonens og Ninistös eftir hálfan mánuð en þá þykir víst að Halonen sigri.

Kona næsti forseti Chile

Michelle Bachelet, fyrrum varnarmálaráðherra Chile var í gær kjörin forseti landsins, fyrst kvenna. Bachelet fékk rúmlega 53 prósent atkvæða á meðan mótframbjóðandi hennar, kaupsýslumaðurinn Sebastian Pinera fékk tæplega 47 prósent atkvæða. Þetta er í fjórða skiptið sem forsetakosningar fara fram í Chile frá því landið varð lýðveldi árið 1990 eftir 17 ára herforingjastjórn. Málefni frambjóðenda voru svipuð. Bæði hétu þau því að draga úr glæpum í landinu sem og að fjölga atvinnutækifærum en atvinnuleysi hefur farið vaxandi í Chile undanfarin ár.

Mikill erill á slysadeild

Íbúar Suðvestur hornsins virðast vera komnir úr allri þjálfun á skíðum og snjóbrettum því mikill erill var á slysadeild Landsspítalans í gær við að hlynna að skíða- og snjóbrettafólki sem lent hafði í slæmum byltum. Engin reyndist þó alvarlega slasaður og stúlkan, sem þyrla Landhelgilsgæslunnar sótti upp í Bláfjöll í gær, reynidst líka minna slösuð en óttast var í fyrstu. Sama á við um vélsleðamanninn, sem þyrlan sótti í sömu ferð upp í Landmannalaugar.

Nítjan manns hafa greinst með fuglaflensu í Tyrklandi

Fimm ára drengur greindist með H5N1 afbrigði fuglaflensunnar í Tyrklandi um helgina. Er það nítjánda manneskjan þar í landi sem greinist með afbrigðið. Systir drengsins lést í gær en var ekki sögð með veiruna í sér. Hún hafði þó komist í snertingu við smitaða fugla líkt og bróðir hennar og segja sérfræðingar mjög líklegt að hún hafi verið ranglega greind.

Sjö létust í bruna í Vladívostok

Að minnsta kosti sjö létust og átján særðust þegar eldur kom upp í skrifstofuhúsnæði í Vladívostok á Kyrrahafsströnd Rússalands í morgun.

Geimryk jafngamalt sólinni

Hylki sem inniheldur geimryk jafngamalt sólinni lenti heilu og höldnu í eyðimörkinni í Utah í morgun. Vísindamenn vonast til að geimrykið gamla geti varpað ljósi á uppruna sólkerfisins.

Grunur um fuglaflensusmit í Istanbúl

Tvö börn voru lögð inn á sjúkrahús í Istanbúl, stærstu borg Tyrklands, í dag en óttast er að þau séu smituð af fuglaflensu. Enn á eftir að skera úr um hvort um er að ræða veiru af H5N1-stofni.

Forsetakosningar í Finnlandi og Chile

Finnar og Chilemenn ganga að kjörborðinu í dag og kjósa sér forseta. Útlit er fyrir að konur beri sigur úr býtum í báðum löndunum

Aðaldómari í máli Saddams Husseins segir af sér

Aðaldómari við réttarhöldin yfir Saddam Hussein hefur látið af embætti. Ástæðan er talin sú gagnrýni sem hann hefur hlotið fyrir að leyfa einræðisherranum fyrrverandi að hleypa dómhaldi upp æ ofan í æ.

Kalt bað í Tokyo

Það er víðar kalt en á Íslandi þessa dagana en sumir láta hins vegar kuldabola ekkert á sig fá. Þannig létu tvær tylftir Japana sig ekki muna um að bregða sér í bað í þriggja gráðu kaldri laug við sjintó-hof í Tokyo í dag.

Fimm námamenn létust í sprengingu

Fimm rúmenskir námamenn fórust og tveir slösuðust þegar sprenging varð í kolanámu í vesturhluta landsins. Tveggja er enn saknað.

Gaus fimm sinnum

Eldfjallið Augustine í Alaska gaus að minnsta kosti fimm sinnum í gær. Aflýsa varð flugi og loka skólum vegna gossins og voru um 16.000 íbúar í nágrenni fjallsins varaðir við öskufalli.

Svín með græn líffæri

Vísindamenn við ríkisháskóla í Taívan hafa náð að rækta græn svín, sem glóa í myrkri. Þótt fyrst og fremst séu það trýnið og klaufirnar sem eru græn að lit, er kannski enn sérstakara að öll líffærin í svínunum eru græn.

Dómari í máli Saddams hættir

Dómstjórinn í réttarhöldunum yfir Saddam Hussein hyggst láta af embætti sínu og mun greina frá ákvörðun sinni þess efnis næst þegar réttað verður í málinu, 24. janúar.

Svíakóngur í umdeildum viðskiptum

Karl Gústaf Svíakóngur lætur sér ekki nægja að ríkja yfir þegnum sínum. Hann er líka umfangsmikill kaupsýslumaður og það þykir vera á gráu svæði.

Byrjaði með því að nokkrar töskur hrundu

Farangur hrundi úr rútum á ferð í veg fyrir innganginn að Jamarat-brúnni í Sádi-Arabíu í gær. Nokkrir pílagrímar duttu og ekki þurfti að spyrja að leikslokum. Svona var atburðarásin þegar vel á fjórða hundrað manns fórst á Hajj-hátíðinni nærri hinni heilögu borg Mekka í gær.

Íranar æfir vegna viðbragða vesturlanda

Íranar eru æfir vegna áætlana um að vísa kjarnorkuáætlun þeirra fyrir Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna. Stjórnvöld í landinu hóta að hætta öllu samstarfi við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina. Íslendingur sem er yfirmaður þar segir þetta slæm tíðindi, sem þýði að ekki verði hægt að fylgjast með þróun mála í Íran.

Bush neitaði að loka Guantanamo

George Bush Bandaríkjaforseti hafnaði í dag tillögu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, um að fangabúðunum í Guantanamo yrði lokað.

Minntust átaka við Sovétmenn

Litháar minntust þess í dag að fimmtán ár eru frá umsátrinu um sjónvarpsturninn í Vilníus. Fjórtán manns létust í átökum við sovéska hermenn en þrátt fyrir það er sú stund talin marka endalok sovéskra yfirráða í landinu.

Herforingi rekinn vegna yfirlýsinga hans

Spænskur herforingi var rekinn úr starfi í dag eftir að hann sagði að herinn gæti látið til sín taka í innanríkismálum ef Katalóníuhérað fengi aukna sjálfsstjórn.

Herþyrla skotin niður í Írak

Uppreisnarmenn í Írak skutu niður bandaríska herþyrlu nærri Mosul í norðurhluta landsins í dag. Tveir voru í áhöfn hennar og eru báðir taldir af. Þetta er önnur bandaríska herþyrlan sem er skotin niður á viku, tólf fórust með þyrlu sem var skotin niður síðasta laugardag.

Vara við að láta öryggisráðið úrskurða

Það gæti gert illt verra að vísa deilunni vegna kjarnorkuáætlunar Írana til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sagði sendiherra Kína hjá Sameinuðu þjóðunum rétt í þessu. Hann sagðist óttast að slík aðgerð gerði deiluna flóknari og herti deilandi fylkingar í afstöðu sinni.

Óttast mikið mannfall vegna fuglaflensu

Óttast er að þúsundir manna látist vegna fuglaflensunnar sem vísindamenn segja ekki spurningu hvort heldur hvenær verði að faraldri. Þjóðir heimsins verða að vera betur undirbúnar þegar og ef fuglaflensan verður að faraldri að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Hóta að slíta öllu samstarfi

Íranar hafa hótað að hætta samstarfi sínu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina, verði þeir kvaddir fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna vegna kjarnorkuáætlunar sinnar. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna vill fresta refsiaðgerðum en utanríkisráðherrar Evrópusambandsins segja enga aðra leið í stöðunni.

Ritstjórn norska blaðsins Magazinet berast morðhótanir

Ritstjórn og blaðamönnum norska dagblaðsins Magazinet hafa borist morðhótanir með tölvupósti hvaðanæva úr heiminum eftir að það birti teikningar af Múhameð spámanni í vikunni. Þessar sömu myndir birtust í danska Jótlandspóstinum á nýliðnu hausti og fengu starfsmenn þar einnig morðhótanir í framhaldinu.

350 pílagrímar létust í Mekka

Að minnsta kosti 350 íslamskir pílagrímar létust og um 300 eru taldir hafa slasast þegar þeir hrösuðu um farangur annarra pílagríma og tróðust undir er þeir voru á leið að steinsúlu til að kasta í hana steinum í gær.

Sjálfsmorðsárás í Jenín

Palestínskur sjálfsmorðssprengjumaður sprengdi sjálfan sig í loft upp nærri ísraelskum hermönnum þegar þeir voru í handtökuaðgerðunum í bænum Jenín í gær. Sprengjumaðurinn sprengdi sig þegar hermenn ætluðu að handtaka hann sem og aðra palestínumenn sem voru inni í húsi í borginni en þá hljóp hann út og sprengdi sig sem fyrr segir. Talið er að enginn hermaður hafi særst í sprengjuárásinni.

Vill alþjóðlegt bann við vopnavæðingu í geimnum

Paul Martin, forsætisráðherra Kanada og leiðtogi Frjálslynda flokksins vill alþjóðlegt bann við vopnavæðingu í geimnum. Stjórnvöld í Bandaríkjunum er sögð ósátt við afstöðu Frjálslynda flokksins, sem hefur neitað að verða aðili að geimvarnaráætlun Bandaríkjanna.

Olmert ræðir við Bush um stjórnmálaástandið í Ísrael

Ehud Olmert, sitjandi forsætisráðherra Ísraels, ræddi í gær við George Bush, forseta Bandaríkjanna, í síma um ástand Sharons, undirbúning að kosningum til þings Palestínumanna, sem haldnar verða í lok janúar, og stjórnmálaástandið í Ísrael en kosningar þar í landi fara fram í lok mars.

Íranar hafa samþykkt að hefja samningarviðræður

Íranar hafa samþykkt að ganga að samningaborðinu með Bretum, Frökkum og Þjóðverjum um kjarnorkuáætlun landsins. Þetta sagði Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í gær.

Sjá næstu 50 fréttir