Erlent

Þingmaður fullviss um að Bandaríkjamenn hafi rekið leyniflug í Evrópu

Svissneski þingmaðurinn Dick Marty sem stýrir rannsókn Evrópuráðsins.
Svissneski þingmaðurinn Dick Marty sem stýrir rannsókn Evrópuráðsins. MYND/AP

Dick Marty, svissneski þingmaðurinn sem stýrir rannsókn Evrópuráðsins á því hvort bandarísk stjórnvöld hafi rekið leynifangelsi í álfunni og stundað umfangsmikla fangaflutninga þeim tengdum, kveðst fullviss um að ásakanirnar eigi við rök að styðjast.

Marty mun síðar í mánuðinum greina Evrópuráðinu frá bráðabirgðaniðurstöðum sínum en á blaðamannafundi í heimalandi sínu í gær sagði hann allt benda til að bandaríska leyniþjónustan CIA hafi rekið leynifangelsi í Evrópu.

Hann viðurkenndi þó að enn ætti hann eftir að finna óyggjandi sannanir fyrir því en til þess er ennþá nægur tími. Marty bætti því við að útilokað væri að starfsemi leynifangelsa hefði getað farið fram án vitneskju stjórnvalda í þeim ríkjum sem í hlut eiga og því væri það hræsni af þeirra hálfu að þvo hendur sínar algerlega af áburðinum.

Marty vildi ekki nefna nein ríki í þessu samhengi, en sagði hins vegar ósanngjarnt að benda sérstaklega á Rúmeníu og Pólland eins og gert hefur verið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×