Erlent

Forsetakosningar í Finnlandi og Chile

Tarja Halonen, Finnlandsforseti, og Vigdís Finnbogadóttir á jafnréttisráðstefnu.
Tarja Halonen, Finnlandsforseti, og Vigdís Finnbogadóttir á jafnréttisráðstefnu. MYND/Pjetur Sigurðsson

Finnar og Chilemenn ganga að kjörborðinu í dag og kjósa sér forseta. Útlit er fyrir að konur beri sigur úr býtum í báðum löndunum.

Tarja Halonen, forseti Finnlands, er sögð næsta örugg um að ná endurkjöri, aðeins er spurning um hvort hún fái hreinan meirihluta eða hvort kjósa þarf aftur á milli hennar eða íhaldsmannsins Sauli Niinisto sem kemur næstur henni í skoðanakönnunum.

Í Chile er staðan aftur á móti mun tvísýnni en þar etja þau Michelle Bachelet, fyrrverandi varnarmálaráðherra, og auðkýfingurinn Sebastian Pinera kappi. Bachelet fékk 46 prósent atkvæða í fyrri umferðinni en Pinera fjórðung en nýjustu skoðanakannanir benda til að bilið á milli þeirra sé farið að minnka svo um munar.

Harka hefur færst í kosningabaráttuna undanfarna daga og saka frambjóðendur hvor annan um bellibrögð og undirróður af ýmsu tagi. Fari svo að Bachelet sigri telja stjórnmálaskýrendur að stjórnmál landsins færist heldur til vinstri, en þannig hefur raunar þróunin verið í Suður-Ameríku síðustu misserin eins og sjá má á kjöri Evo Morales í Bólivíu á dögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×