Erlent

Svíakóngur í umdeildum viðskiptum

Karl Gústaf Svíakóngur lætur sér ekki nægja að ríkja yfir þegnum sínum. Hann er líka umfangsmikill kaupsýslumaður og það þykir vera á gráu svæði.

Svíakóngur og sænska hirðin fá sem svarar tæpum milljarði íslenskra króna á ári af almannafé; hvorki almenningur né Ríkisendurskoðandi getur kannað hvernig hann ráðstafar helmingnum af því. En kóngurinn er athafnamaður jafnhliða opinberri skyldum sínum. Nýlega seldi hann 17. aldar fasteign á besta stað í Stokkhólmi sjálfum sér, það er að segja eigin hlutafélagi, með tapi. Svo seldi hann hlutafélagið, en þannig slapp hann við að borga skatt af viðskiptunum.

"Þetta er ekkert annað en skattahagræðing," segir Po Bogren, formaður sænsku Leigjendasamtakanna. "Sé fasteignin seld beint verður að greiða fjármagnstekjuskatt en sé selt gegnum dótturfélag á þennan hátt fær maður gróðann af hlutabréfasölunni en ekki húseigninni og það er skattfrjálst."

En hirðin segir að kóngurinn virði lögin.

"Við tölum ekki um skattahagræðinu," segir Ingemar Eliason ríkismarskálkur. "Einkaviðskipti konungsins eru innan ramma laga og reglna."

Kóngurinn stundar fasteignaviðskipti og húsaleigu, rekur búgarð, ræktar hesta og kýr og fleira og fleira. En það getur verið erfitt að greina á milli þess að vera athafnamaður og kóngur. "Hvað opinberar skyldur varðar ber að hafa hliðsjón af lögunum og þar segir að konungurinn eigi ekki að reka atvinnustarfsemi," segir Eliason. "Því er mikilvægt að það séu skörp skil milli opinberra skyldna hansm, og fjármála þeim tengdum, og einkafjárhagsmuna hans."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×