Erlent

Ekki víst hvort hægri hönd bin Ladens hafi fallið í loftárás í Pakistan

Ayman al-Zawahri, hægri hönd Osama bin Ladens.
Ayman al-Zawahri, hægri hönd Osama bin Ladens. MYND/AP

18 liggja í valnum eftir eldflaugaárás á þorp í Pakistan þar sem liðsmenn al-Qaida samtakanna voru sagðir hafast við. Íbúar þorpsins sverja af sér öll slík tengsl og segja konur og börn hafa farist í árásinni.

Fregnir af árásinni sem gerð var seint í gærkvöldi eru enn óljósar en svo virðist sem ómönnuð herþota hafi skotið eldflaugum að húsum í Damadola, litlu þorpi nærri afgönsku landamærunum. Þar var talið að háttsettir liðsmenn al-Kaída hryðjuverkanetsins hefðu aðsetur, þar á meðal Ayman al-Zawahri, egypski læknirinn sem er sagður hægri hönd Osama bin Laden.

Íbúar í þorpinu eru að vonum æfir yfir árásinni enda segjast þeir hvorki hafa tengsl við al-Kaída né talibana. Þeir segja að flestir hinna látnu séu konur og börn. Talið er að bandaríska leyniþjónustan CIA hafi staðið fyrir árásinni en það hefur þó ekki fengist staðfest. Í það minnsta sagði talsmaður Bandaríkjahers að engar aðgerðir stæðu yfir á hans vegum á þessum slóðum um þessar mundir.

Síðdegis fordæmdu svo pakistanskir ráðamenn árásina en þeir vildu þó ekki ganga svo langt að kenna Bandaríkjamönnum um hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×