Fleiri fréttir

Jöklar á Íslandi hopa sem aldrei fyrr

Jöklar á Íslandi hopa sem aldrei fyrr og hefur þróunin í þá átt verið sérstaklega ör á undanförnum áratug. Sem dæmi má nefna að á þeim tíma hefur Vatnajökull rýrnað um þrjú prósent og Langjökull um átta prósent.

Aflaverðmæti um 80 milljarðar í fyrra

Aflaverðmæti íslenskra skipa var fimm prósentum meira í fyrra en árið 2006 samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Alls nam aflaverðmætið 80 milljörðum í fyrra en var rúmir 76 milljarðar árið á undan.

67 milljarða króna afgangur hjá hinu opinbera

Tekjuafkoma hins opinbera reyndist jákvæð um 67 milljarða króna í fyrra samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Þetta svarar til rúmlega fimm prósenta af landsframleiðslu og tæplega ellefu prósenta af tekjum hins opinbera. Til samanburðar var tekjuafkoman jákvæð um 6,3 prósent af landsframleiðslu árið 2006 og tæp fimm prósent árið 2005.

Loðnuvertíðinni að ljúka

Síðustu loðnuskipin eru farin í land, fyrir utan eitt, sem liggur austan við Vestmannaeyjar á meðan verið er að frysta um borð, síðustu loðnuna sem fékkst við Eyjar í gær.

Ekki ólíklegt að Sjálfstæðisflokkur klofnaði vegna ESB

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir ekki ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi klofna ef kæmi til umræðu um aðild að Evrópusambandinu. Málið gangi þvert á alla flokka og þjóðin myndi skiptast í fylkingar. Þetta sagði ráðherra í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson í Mannamáli í kvöld. Björn segir gallann á umræðunni um ESB vera þann að vegvísi vanti eins og notast sé við þegar leysa eigi alþjóðadeilur.

Grunur um íkveikju í fjölbýlishúsi í Breiðholtinu

Grunur leikur að kveikt hafi verið í íbúð í fjölbýlishúsi í Breiðholti í morgun þar sem hátt í tvö hundruð manns búa. Engum varð meint af en íbúar í húsinu hafa farið fram á að íbúðin verði seld þar sem óregla sé á leigjendum þar.

Stúlkan frá Bitrufirði ekki alvarlega slösuð

Átta ára gömul stúlka sem flutt var á með þyrlu á slysadeild Landspítalans í Fossvogi frá Bitrufirði eftir slys í dag reyndist ekki alvarlega slösuð. Stúlkan og maður skullu saman þar sem þau voru að renna sér á plastpokum. Manninn sakaði ekki en grunur lék á áverkum á hálsi, höfði og brjóstkassa stúlkunnar samkvæmt upplýsingum sjúkraflutningamanna á Hólmavík.

Ný flugstöð útilokar samgöngumiðstöð

Unnt er að hefja smíði samgöngumiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli innan fárra mánaða. Hún er hins vegar úr myndinni ef ráðist verður í smíði flugstöðvar við gömlu Flugfélagsafgreiðsluna, að mati stjórnarformanns Flugstoða, sem segir menn verða að velja þar á milli.

Fermingarbörnin vonast eftir tölvum

Að muna trúarjátninguna var mesta áhyggjuefni hjá fermingarbörnum í Háteigskirkju í dag og flest vonuðust þau eftir tölvum í fermingargjöf.

Aflaverðmæti upp á 250 milljónir króna

Frystitogarinn Venus kom til hafnar í Reykajvík í dag með afla að verðmæti 250 milljónum króna. Hásetahluturinn einn nemur tveimur og hálfri milljón króna.

Engin vörubretti þrátt fyrir fjárstyrk

Enn hafa engin vörubretti verið framleidd í Mývatnssveit. Hratt gengur á opinbert fé sem fékkst til framleiðslunnar og lýsa heimamenn vonbrigðum.

Skoskir bændur hægðu á netsambandi frá landinu

Vorverk skoskra bænda orsökuðu bilun til á ljósleiðara sem olli töfum á netumferð til og frá landinu um FARICE-1 sæstrenginn frá Skotlandi. Í tilkynningu frá FARICE segir að girðingarvinna bændanna hafi orsakað bilunina.

Stúlka meiddist í Bláfjöllum

Níu ára gömul stúlka datt á skíðum í Bláfjöllum á öðrum tímanum í dag og meiddi sig á hálsi. Sjúkralið var kallað á vettvang. Meiðsl hennar eru ekki talin alvarleg að sögn Einars Bjarnasonar verkstjóra Skíðasvæðisins í Bláfjöllum. Hann segir að stúlkan hafi verið með meðvitund og getað hreyft útlimi. Hún væri í lagi að öðru leiti en því að hún fyndi fyrir höfuðverk. Ávallt væri þó sent eftir sjúkraliði í tilfellum sem þessum.

Greiðlega gekk að slökkva eld á Eiðistorgi

Allt tiltækt lið Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út á öðrum tímanum í dag vegna elds á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi. Eldur logaði í þaki og þurfti að rífa það frá til að komast að eldinum. Greiðlega gekk að slökkva hann en ekki er á þessari stundu ljóst með tjón.

Ekið á bifhjólamann á Miklubraut

Tveir menn voru fluttir á slysadeild eftir að bifreið ók á bifhjól á Miklubraut til móts við Réttarholtsveg á öðrum tímanum í dag. Hluta Miklubrautar var lokað vegna slyssins á meðan lögregla og sjúkralið unnu á staðnum. Mennirnir eru ekki alvarlega slasaðir samkvæmt heimildum vakthafandi læknis á slysadeild.

Maðurinn kominn í leitirnar

Maðurinn sem Lögreglan á Akranesi lýsti eftir fyrr í morgun er kominn í leitirnar. Maðurinn Hafsteinn Erlendsson fannst á bíl sínum á Sandskeiði samkvæmt heimildum fréttastofu. Hann hafði ekið heiman frá sér eftir hádegi í gær en ekki sést síðan.

Viðgerð stendur yfir á ljósleiðara

Enn stendur yfir viðgerð á ljósleiðara fyrir sambönd FARICE í Skotlandi og er ekki búist við að viðgerð ljúki fyrr en síðdegis í dag. Bilunin hefur m.a. haft þau áhrif að öll netumferð frá Íslandi og Færeyjum er hægvirkari en ella.

Ráðuneyti getur ekki stöðvað framkvæmdir í Helguvík

Umhverfisráðuneytið getur ekki stöðvað byggingu fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Framkvæmdirnar geta hægt á stýrilækkunarferli Seðlabankans, en fjármálaráðherra segir þær nauðsynlega innspýtingu í efnahagslífið.

Lýst eftir manni frá Akranesi

Lögreglan á Akranesi lýsir eftir karlmanni á áttræðisaldri Hafsteini Erlendssyni. Hafsteinn ók heiman frá sér eftir hádegi í gær en hefur ekki sést síðan.

„Austurríki ekkert miðað við Bláfjöll um helgina“

Frábær mæting var á skíðasvæðið í Bláfjöllum í gær. Þá mættu milli sjö og níu þúsund manns; „Í algjörri bongóblíðu og færi eins og það gerist best,“ segir Einar Bjarnason verkstjóri. Þrátt fyrir fjöldann mynduðust ekki miklar biðraðir, mestur var biðtíminn um fimm mínútur í nýju stólalyftunni í Kóngsgili.

Eldsvoði í Hrafnhólum

Eldur kviknaði í íbúð á annarri hæð í átta hæða fjölbýlishúsi í Hrafnhólum í Breiðholti í morgun. Allt tiltækt lið Slökkviliðsins var kallað út rétt eftir klukkan tíu og hefur þegar slökkt eldinn í íbúðinni sem var mannlaus. Mikinn reyk lagði frá íbúðinni og reykinn lagði einnig inn í stigahúsið.

Ökumaður með 50 E-töflur innanklæða

Fimmtíu E-töflur fundust á karlmanni á lögreglustöðinni á Akranesi eftir að hann var stöðvaður við hefðbundið umferðareftirlit seinnipartinn á föstudag. Þá vaknaði grunur hjá lögreglumönnum um fíkniefni og var maðurinn fluttur á lögreglustöðina. Eftir yfirheyrslu var manninum síðan sleppt. Málið er í rannsókn.

Brotist inn í Lyfju og félagsmiðstöð á Skagaströnd

Miklar skemmdir voru unnar í Lyfju á Skagaströnd í nótt og mikið magn lyfja tekið þegar brotist var þangað inn. Lögreglu var gert viðvart eftir að viðvörunarkerfi apóteksins fór af stað. Samkvæmt heimildum Lögreglunnar á Blönduósi var brotist inn í apótekið bakdyramegin. Innbrotsþjófurinn fór í gegnum glugga inn á gang þar sem hann braut sér leið inn um bakdyr apóteksins.

Enn leitað að loðnu við Vestmannaeyjar

Fimm loðnuskip eru enn við loðnuleit við Vestmannaeyjar en ekkert hefur sést í morgun, að sögn Sturlu Þórðarsonar, skipstjóra á Berki NK. Veiðin í gær út af Eyjafjöllum var nánast engin og telur Sturla að loðnuveiðin sé búin að þessu sinni, svo fremi sem ekki komi vesturganga.

Tekinn á tvöföldum hámarkshraða

Karlmaður á fimmtugsaldri var tekinn á tvöföldum hámarkshraða í Borgarnesi í gærkvöldi þar sem hámarkshraði er 50 km. Maðurinn missir ekki prófið en fær 60 þúsund króna sekt og fjóra refsipunkta í ökuferilsskrá.

Fjögur líkamsárásarmál í Reykjavík

Nokkuð var um slagsmál í miðborginni í nótt og komu fjögur líkamsárásarmál til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ekki hefur þó verið kært vegna þeirra. Fangageymslur í Reykjavík voru yfirfullar svo notast þurfti við fangageymslur í Hafnarfirði líka. Þannig gistu 15 manns fangageymslur, langflestir vegna ölvunar eða óspekta.

Búið að rífa gömlu Nestis-bensínstöðina

Gamla Nestisbensínstöðin norðan megin við Ártúnsbrekkuna í Reykjavík hefur verið rifin. Stöðin hefur staðið þar í yfir hálfa öld. Þar á að reisa 500 fermetra bensínstöð með skyndibitastöðum og verður hún svipuð bensínstöðinni sem nú er hinu megin við götuna.

Eldur í tjaldi útigangsmanns í Laugardal

Nú fyrir stundu var tilkynnt um eld í tjaldi á tjaldstæðunum í Laugardal. Lögregla og Slökkvilið eru á leið á staðinn. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er um að ræða tjald útigangsmanns. Ekki er ljóst hversu eldurinn er mikill á þessari stundu.

Suðurstrandarvegur allur boðinn út

Margsvikið kosningaloforð um Suðurstrandarveg kann loks að verða efnt. Samgönguráðherra lofar nú að vegagerðin í heild verði öll komin í útboð fyrir mitt þetta ár.

Biðröð eftir notuðum hlutum

Starfsfólk Góða hirðisins sér engin merki þess að farið sé að kreppa að í þjóðfélaginu enda berst þangað á hverjum degi mikið af veglegum hlutum. Viðskiptavinirnir bíða í röðum þegar verslunin er opnuð í von um að finna eitthvað einstakt.

Stúlka féll sex metra úr rúllustiga

Fjögurra ára gömul stúlka slasaðist þegar hún féll um sex metra niður úr rúllustiga í nýrri verslun Rúmfatalagersins á Glerártorgi á Akureyri í dag. Stúlkan var í fylgd ættingja þegar slysið varð. Hún var flutt á slysadeild í sjúkrabíl. Ekki hafa fengist nánari upplýsingar um líðan stúlkunnar en hún féll niður á teppalagt gólf.

PFS greiðir almannatengslaráðgjöf Hrafnkels

Hrafnkell Gíslason forstjóri Póst- og fjarkskiptastofnunar leitaði til almannatengils til að fá ráðgjöf með hvernig hann ætti að höndla umræðu um eineltismál á stofnuninni. Samkvæmt heimildum Vísis leitaði hann til Gunnars Steins Pálssonar almannatengils til að fá ráðgjöf um hvernig hann ætti að snúa sér varðandi það fjaðrafok sem málið hefur vakið í fjölmiðlum.

Loðnuvertíðinni hugsanlega lokið

Loðnuvertíðinni í ár er hugsanlega lokið. Tíu skip hafa í allan dag leitað í örvæntingu að loðnu undan Eyjafjöllum og fundið sáralítið. Torfa sem fannst síðdegis í gær við Vestmannaeyjar gaf smá von og fengu tvö skip, Álfsey og Huginn, ágætis afla eða um 400 tonna köst og þrjú önnur skip fengu reiting þar í gærkvöldi. Þetta varð til þess að loðnuflotinn færði sig af Faxaflóa yfir að suðurströndinni.

Bilun í ljósleiðara hægir á netumferð

Hægst hefur verulega á allri netumferð til og frá Íslandi vegna bilunar í ljósleiðara í Skotlandi nú síðdegis. Afkastageta sæstrengs er því aðeins um þriðjungur af því sem venjulegt er. Í tilkynningu frá Farice segir að bilunar sé leitað og upplýst verði síðar hve langan tíma viðgerð muni taka.

Ólöglegt niðurhal kemur tón-og textahöfundum í uppnám

Ólöglegt niðurhal af netinu hefur sett tónlistargeirann í uppnám, að mati formanns Félags tónskálda og textahöfunda, sem telur brýnt að foreldrar brýni fyrir börnum sínum að slíkt sé stuldur, rétt eins og að stela úr verslunum.

Ráðherra hrakti stjórnendur spítalans úr starfi

Heilbrigðisráðherra hrakti lykilstjórnendur Landspítalans úr starfi til að koma einkavæðingaráformum sínum í framkvæmd. Þetta kemur fram í ályktun þingflokks vinstri grænna. Ráðherra hefur sýnt óeðlileg vinnubrögð og ljóta framkomu gagnvart virtum embættismanni að mati Valgerðar Sverrisdóttur.

Harður árekstur við Súðarvog

Harður árekstur varð nú réttt fyrir hádegi við Súðarvog og Sæbraut. Samkvæmt upplýsingum lögreglu voru lögreglubílar og sjúkralið send á vettvang. Óskað hefur veirð eftir aðstoð tækjabíls. Fólksbíll og jeppi lentu saman. Ökumaður fólksbílsins var fluttur á börum í sjúkrabíl og færður á slysadeild. Lögregla er á staðnum og yfirheyrir vitni.

Sjá næstu 50 fréttir