Fleiri fréttir

30 óku of hratt

Þrjátíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Lögregla segir þetta allmikið, ekki síst í ljósi þess að akstursskilyrði voru ekki góð en flestir ökumenn hægja á sér þegar færðin versnar. Þá voru sömuleiðis fjölmargir árekstrar tilkynntir til lögreglu.

Fjögur fíkniefnamál í gær

Fjögur fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Þar af voru þrjú í Reykjavík og eitt í Hafnarfirði. Fimm karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri voru handteknir vegna málanna.

Flaggað á Vestfjörðum vegna úrskurðar umhverfisráðherra

Bæjarstjóri Vesturbyggðar hefur ákveðið að flaggað skuli á öllum opinberum byggingum sveitarfélagsins, bæði á Patreksfirði og Bíldudal, í dag vegna þeirrar ákvörðunar umhverfisráðherra í morgun að leyfa nýtt stæði Vestfjarðavegar um Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð.

Karlmenn í meirihluta í spurningaprófi

Karlmenn voru í áberandi meirihluta meðal þeirra 296 sem spreyttu sig á inntökuprófi í spurningaþáttinn Meistarann klukkan tvö í dag. Prófin voru haldin í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og á Ísafirði. Á prófinu voru 50 spurningar, misþungar, og ráða úrslit því hverjir fá að freista gæfunnar í sjónvarpsþættinum Meistaranum.

DV þá og DV nú

"Jú, það er rétt að forsíðan minnir óneitanlega á forsíðuna í apríl 2004. En að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um málið,“ segir Mikael Torfason, aðalritstjóri tímaritaútgáfunnar Birtíngs, undrandi þegar Fréttablaðið náði tali af honum.

Óljóst hver á að njóta hækkunarinnar

Niðurgreiðslur til dagforeldra jukust um ríflega 85 milljónir króna um áramótin. Bæði dagforeldrar og foreldrar virðast ráðvilltir um hver eigi að njóta aukinnar niðurgreiðslunnar.

Öfgalaus útifundur við Urriðafoss

Útifundur verður haldinn við Urriðafoss í Þjórsá klukkan þrjú í dag þar sem náttúruverndarsinnar og heimamenn sem vilja vernda svæðið ræða fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir. Bjarni Harðarson, blaðamaður, skipuleggur fundinn til þess að fá fram öfgalausa umræðu um umhverfismál, að því er segir á heimasíðu hans.

Ef Kaupþing gerir upp í evrum verður peningamálastefnan bitlaus

Ef stærsti banki landsins fer að gera upp í evrum þá verður peningamálastefnan hér á landi bitlaus. Þetta er mat fyrrverandi forstöðumanns Hagfræðistofnunar HÍ og bankastjóra sem segir það hagsmuni fjármálageirans að Íslendingar taki upp evruna.

Umhverfisráðherra heimilar Vestfjarðaveg

Umhverfisráðherra hefur heimilað að Vestfjarðavegur verði lagður yfir Gufufjörð og Djúpafjörð á sunnanverðum Vestfjörðum og út með Þorskafirði. Þar með snýr ráðherra við niðurstöðu Skipulagsstofnunar, sem hafnaði framkvæmdinni vegna mikilla umhverfisáhrifa.

Rétttrúnaðarjól í dag

Rússneska rétttrúnaðarkirkjan fagnar í dag jólum víða um heim, meðal annars á Íslandi. Jólaguðsþjónusta rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi verður haldin í Friðrikskapellu á Valsvellinum í kvöld klukkan 23:00. Messan tekur um tvo og hálfan tíma og á morgun verður jólaball fyrir börnin.

Viltu verða meistari?

Þeim sem gekk vel í spurningaspilum við fjölskylduna um jólin býðst nú tækifæri til að setja markið enn hærra. Inntökupróf fyrir spurningaþáttinn Meistarann verður haldið í Hagaskóla í Vesturbænum klukkan 14:00. Spurningarnar eru 50 talsins og þungir kaflar inn á milli, að sögn Loga Bergmanns Eiðssonar, umsjónarmanns þáttarins.

47 umferðaróhöpp það sem af er degi

47 umferðaróhöpp hafa átt sér stað það sem af er degi á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan segir ástæðuna í flestum tilfellum vera launhálku en mjög hált var í morgun á fáförnum götum. Tíu innbrot hafa einnig verið tilkynnt lögreglunni í dag. Í einu tilviki voru fjórir þjófar handteknir en í hin eru enn í rannsókn.

Eftirliti með fjárútlátum ríkisins ábótavant

Eftirliti með framkvæmd fjárlaga er ábótavant og hvergi í stjórnkerfinu er til listi yfir þá sem fá framlög úr ríkissjóði. Ríkisendurskoðandi vill bæta úr þessu og fór í fyrradag bréflega fram á það, við öll ráðuneytin, að þau taki saman upplýsingar um hverjir fá hvað og í hvað peningarnir fara.

Olíuverðslækkanir ósennilegar

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur fallið um tíu prósent í þessari viku og hefur ekki verið lægra í hálft annað ár. Ólíklegt er að íslenskir neytendur njóti lækkunarinnar vegna óhagstæðrar gengisþróunar.

Evrópu-reglugerð ógnar Cheerios

Hugsanlegt er að vinsæla morgunkornið, Cheerios, verði bannað hér á landi ef reglugerð Evrópusambandsins, um takmarkanir á vítamínbættri matvöru, verður tekin inn í Evrópska efnahagssamninginn. Reglugerðin kom út rétt fyrir áramót og gæti haft áhrif á tugi vörutegunda hér á landi, meðal annars Cheerios sem er vítamínbætt og þykir bæði hollt og gott.

Sátu fyrir innbrotsþjófum

Tveir menn sátu fyrir innbrotsþjófum á heimili föður síns í morgun og leiddi fyrirsátið til handtöku þeirra. Þetta var þriðja ferð innbrotsþjófa í húsið, frá því um jólin, en þeir höfðu stillt upp þýfi í anddyrinu sem beið þess að vera sótt.

Nýr íslenskur risi á orkumarkaði

Nýr íslenskur orkurisi varð til í dag þegar þegar tveir af öflugustu fjárfestum og stærsta verkfræðistofa landsins stofnuðu alþjóðlegt fyrirtæki á sviði grænnar orkuframleiðslu. Fyrirtækið ætlar að ráðst í verkefni víðs vegar um heim og er áætlað að fjárfesta fyrir allt að sjötíu milljarða íslenskra króna.

Árið byrjar vel í Kauphöll Íslands

Úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands hefur hækkað um fimm prósent á þremur dögum, eða frá því hún opnaði fyrst eftir áramót á þriðjudag. Mestu munar um mikla hækkun á hlutabréfum í Kaupþingi.

Hugsanlegt að borgin kosti fleiri öryggismyndavélar

Formaður borgarráðs segir borgarstjórn vilja ræða hugmyndir nýs lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins um fleiri öryggismyndavélar og segir hugsanlegt að borgin leggi til fjármuni í verkið.

Ríflega 20 manns missa vinnuna

Eitt stærsta verktakafyritæki Vestfjarða, byggingarfyrirtækið Ágúst og Flosi, var úrskurðað gjaldþrota í dag. Um tuttugu starfsmennn missa við það vinnuna og óvíst er hvað verður um verkefni fyrirtækisins.

Innbrotsþjófur í neyð

Brotist var inn í söluskála Esso á Suðureyri aðfaranótt fimmtudags og var þjófurinn augljóslega í neyð því það eina sem hann hafði á brott voru 4 pakkar af Durex smokkum með ávaxtabragði. Eftirlitsmyndavél er á staðnum og náði hún að festa atburðinn á filmu. Þjófurinn reyndi svo lítillega að opna peningakassann á leið sinni út aftur, en þegar að það gekk ekki greiðlega fyrir sig, hvarf hann á braut.

Magni rokkstar skilinn

Magni rokkstjarna Ásgeirsson og eiginkona hans Eyrún Haraldsdóttir hafa slitið samvistum. Í yfirlýsingu frá þeim, sem birtist í DV í dag, segir að þau hafi fjarlægst hvort annað tilfinningalega, í kjölfar mikilla breytinga sem urðu á högum Magna á nýliðnu ári. Þau segjast munu vinna í sameiningu að uppeldi sonar síns, Marinós, og biðja um næði til þess að vinna úr erfiðum málum, án íþyngjandi áreitis.

Tæp 180 tonn af hvalaúrgangi urðuð á Mýrum

Um 179 tonn af hvalaúrgangi af þeim sem sjö langreyðum sem veiddust við landið í haust voru urðuð í Fíflholtum á Mýrum í haust að sögn Skessuhorns. Kjöt hvalanna var aðeins nýtt en það hefur ekki enn verið selt. Fram kemur á vef Skessuhorns að annað af hvalnum, sem áður fór í aðra vinnslu eins og til bræðslu, hafi verið urðað.

Vill endurskoða lög um Þróunarsamvinnustofnun

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að lög um Þróunarsamvinnustofnun Íslands verði endurskoðuð og kannað verði hvort þörf sé á breyttu skipulagi þróunarsamvinnu Íslands.

Dæmd fyrir fíkniefnasmygl í pósti og vörslu fíkniefna

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í eins og hálfs árs fangelsi og konu í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla inn bæði amfetamíni og kókaíni til landsins með póstsendingum og ýmis önnur brot.

FL Group og Glitnir í tugmiljarðafjárfestingar í grænni orku

FL Group, Glitnir og verkfræðistofan VGK-Hönnun hafa stofnað fjárfestingarfélagið Geysir Green Energy sem hefur það að markmiði að fjárfesta í verkefnum tengdum sjálfbærri orkuframleiðslu víðs vegar um heim. FL Group verður leiðandi hluthafi félagsins og stefnt er að því að félagið geti ráðist í fjárfestingar að upphæð 70 milljarðar króna.

Byggingarfyrirtæki á Ísafirði úrskurðað gjaldþrota

Byggingafyrirtækið Ágúst og Flosi ehf. á Ísafirði hefur verið úrskurðað gjaldþrota að beiðni Lífeyrissjóðs Vestfirðinga. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Vestfjarða í morgun. Þetta kemur fram á vef Bæjarins besta.

Segir myndavélaeftirlit hafa sannað gildi sitt

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir myndskeiðið sem sýnt var í fjölmiðlum í vikunni af hrottalegri líkamsárás þriggja pilta á tvo aðra pilta í Garðarstræti á nýársnótt sanna gildi myndavélaeftirlits. Foreldrar piltanna hafi komið þeim í hendur lögreglu sama kvöld og myndirnar hafi verið birtar í fjölmiðlum.

Tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir fíkniefnasmygl

Litháískur ríkisborgari á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að reyna að smygla fíkniefnum til landsins í fyrra. Hann var gripinn við komu Norrænu til Seyðisfjarðar þann 31. ágúst eftir að tollverðir höfðu fundið nærri tvö og hálft kíló af amfetamíni í BMW-bifreið sem hann var skráður ökumaður fyrir.

Spáir óbreyttri vísitölu neysluverðs í janúar

Greiningardeild Glitnis spáir því að vísitala neysluverðs á milli desember og janúar verði óbreytt og að verðbólga muni þannig lækka úr sjö prósentum í desember í 6,6 prósent í janúar.

Fjórföld hækkun á yfirflugsgjaldi fyrirhuguð

Gjöld Flugstoða vegna flugs á íslensku flugstjórnarsvæði gætu hækkað ef gjald vegna fjarskiptaþjónustu verður fjórfaldað, en ákvörðun um það verður tekin fljótlega. Flugumferðarstjórn er hins vegar komin í eðlilegt horf á ný eftir óvissutíma síðustu daga og vikur. Í lok dagsins í gær höfðu allir flugumferðarstjórarnir 58 sem ekki höfðu ráðið sig til Flugstoða í byrjun árs, skrifað undir starfssamning við hið nýja opinbera hlutafélag.

Stærsti vaxtarsamningur sinnar tegundar

Í gær var undirritaður samningur á Egilsstöðum til uppbyggingar og þróunarstarfs á Austulandi. Um er að ræða 190 milljónir á þremur árum sem veittar verða til uppbyggingar á ýmsum sviðum á Austurlandi. Samningurinn er sá stærsti sinnar tegundar hér á landi. Það var Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra sem undirritaði vaxtarsamninginn á Hótel Héraði á Egilsstöðum ásamt fulltrúum samningsaðila.

Aldrei fleiri byggingar rifnar í Reykjavík

Aldrei hafa fleiri byggingar verið rifnar í Reykjavík á einu ári en í fyrra eða 51 talsins. Þetta kemur fram á vef umhverfissviðs Reykjavíkurborgar. Þar kemur einnig fram að árið 2005 hafi einnig verið metár en þá voru 47 byggingar rifnar.

Skoða að láta Wilson Muuga standa áfram

Hugsanlegt er að eigandi og tryggingafélag Wilson Muuga, sem strandaði við Hvalsnes fyrir jól, óski eftir því við umhverfisyfirvöld að skipið fái að standa áfram þar sem það mengi ekki lengur. Það yrði þá aðeins aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Bæjarstjóri með um milljón í laun

Laun Ragnheiðar Hergeirsdóttur sem er nýr bæjarstjóri í Árborg verða rúmlega ein milljón og fimmtíu þúsund krónur á mánuði samkvæmt heimildum Sunnlenska fréttablaðsins.

Jólatré sótt heim

Íbúum Reykjavíkurborgar sem þurfa að losa sig við jólatré eftir þrettándann er boðið upp á að láta sækja þau heim til sín dagana 8. til 12. janúar.

Ný stjórn Fjármálaeftirlitsins tók við um áramót

Viðskiptaráðherra hefur skipað nýja stjórn Fjármálaeftirlitsins til næstu fjögurra ára. Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að í aðalstjórn sitji Lárus Finnbogason, löggiltur endurskoðandi, sem er formaður stjórnar, Sigríður Thorlacius, lögfræðingur, varaformaður stjórnar, og Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri.

Fjórar þrettándabrennur á höfuðborgarsvæðinu

Fjórar þrettándabrennur verða á höfuðborgarsvæðinu á morgun en þrettándinn markar lok jólanna. Líkt og á gamlárskvöld verður brenna á Ægissíðu í Reykjavík og hefst hún kl. 16.40. Auk þess verður brenna á Valhúsahúsahæð á Seltjarnarnesi klukkan 18.

Vegabréfsumsóknir lama ræðisskrifstofuna

Rúmenska ræðisskrifstofan í Chisinau, höfuðborg Moldavíu, hefur ekki undan að fara yfir umsóknir um vegabréfsáritanir til handa Möldövum. Við inngönguna í Evrópusambandið þurfti Rúmenía að setja nýjar reglur um áritanir þannig að nágrannarnir Moldavar komast nú ekki fyrirhafnarlaust á milli.

Ekið á gangandi vegfarendur

Ekið var á mann og son hans fæddan 2005 við Garðatorg í Garðabæ um sjö-leytið í kvöld. Báðir voru fluttir á slysadeild en meiðsl þeirra voru ekki alvarleg. Þá var ekið á gangandi vegfaranda á Nýbýlavegi um níu í kvöld og er ekki vitað um meiðsl hans að svo stöddu. Varðstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir talsvert hafa verið um minniháttar umferðaróhöpp í dag.

Löng bið í Keflavík

Farþegar sem áttu að leggja af stað til Lundúna með flugvél British Airways upp úr hádegi bíða enn á Keflavíkurflugvelli. Að sögn tveggja stúlkna sem bíða á flugvellinum voru farþegarnir komnir út í vél upp úr hádegi þegar flugmaður sagði þeim að loftþrýstingssprungur væru í framrúðu vélarinnar og bíða þyrfti varahluta. Ekki náðist í British Airways.

Sjá næstu 50 fréttir