Innlent

Umhverfisráðherra heimilar Vestfjarðaveg

Umhverfisráðherra hefur heimilað að Vestfjarðavegur verði lagður yfir Gufufjörð og Djúpafjörð á sunnanverðum Vestfjörðum og út með Þorskafirði. Þar með snýr ráðherra við niðurstöðu Skipulagsstofnunar, sem hafnaði framkvæmdinni vegna mikilla umhverfisáhrifa.

Vegagerðin var meðal þeirra sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar en það mun vera einsdæmi að hún kæri. Sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur, sem og sýslumaður Barðastrandarsýslu, kærðu sömuleiðis og vildu að vegarlagning yrði leyfð yfir firðina og út með Þorskafirði. Meginrök þessara aðila voru þau að vegna umferðaröryggis og vetrarfærðar þyrfti að losna við tvo varasama vegarkafla, yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls.

Meginrök þeirra sem lögðust gegn vegarstæðinu voru einkum þau að vernda þyrfti mesta birkiskóglendi Vestfjarða í utanverðum Þorskafirði en einnig lýstu menn áhyggjum af arnarvarpi. Landeigendur sem leiddu andstöðu gegn veginum, fengu náttúruverndarsamtök í lið með sér og tók Skipulagsstofnun undir þau sjónarmið að of mikil umhverfisáhrif myndu fylgja vegarlagningunni umdeildu. Ráðherra ákvað hins vegar í morgun að samþykkja vegarstæðið með skilyrðum.

Úrskurð umhverfisráðherra má lesa í heild sinni hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×