Innlent

Ríflega 20 manns missa vinnuna

Eitt stærsta verktakafyritæki Vestfjarða, byggingarfyrirtækið Ágúst og Flosi, var úrskurðað gjaldþrota í dag. Um tuttugu starfsmennn missa við það vinnuna og óvíst er hvað verður um verkefni fyrirtækisins.

Héraðsdómur Vestfjarða kvað upp gjaldþrotaúrskurðinn í dag að beiðni Lífeyrissjóðs Vestfirðinga vegna þess að fyrirtækið hafði látið hjá líða að greiða lífeyrissjóðsgjöld. Lögreglan á Ísafirði fór í kjölfarið og innsiglaði fyrirtækið eins og lög gera ráð fyrir.

Öllum starfsmönnum fyrirtækisins var jafnframt sagt upp en þeir eru á bilinu 20-25 að sögn Pétur Sigurðssonar, formann Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Hafa nokkrir þeirra haft samband við verkalýðsfélagið í dag til þess að spyrjast fyrir um hvað sé fram undan. Pétur segir gjaldþrotið skipta miklu fyrir byggðarlagið en að þó ættu menn að geta fundið vinnu á svæðinu.

Sigmundur Guðmundsson, héraðsdómslögmaður á Akureyri og skiptastjóri þrotabúsins, sagðist nú seinni partinn vera nýkominn til Ísafjarðar og að hann ætti eftir að kynna sér málið nánar. Hann reiknaði þó með að kanna á næstu dögum hvaða eignir fyrirtækið ætti og hvaða verk væru í vinnslu.

Eftir því sem fram kemur á vef Bæjarins besta voru stærstu verkefni fyrirtækisins nýbygging við Hafnarstræti á Ísafirði og bygging skemmu fyrir útgerðarfyrirtæki í Bolungarvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×