Innlent

Árið byrjar vel í Kauphöll Íslands

Úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands hefur hækkað um fimm prósent á þremur dögum, eða frá því hún opnaði fyrst eftir áramót á þriðjudag. Mestu munar um mikla hækkun á hlutabréfum í Kaupþingi.

Árið byrjar nokkuð vel í Kauphöllinni eftir fremur lágstemmt ár í fyrra. Þau fyrirtæki sem hafa verið að hækka mest í verði eru í fjármálageiranum og þá Kaupþing mest sem hækkað hefur í verði um tíu prósent.

"Tvímælalaust ræður lang mestu síðustu tvo dagana að City Group sem er stærsta fjármálafyrirtæki heims, birti mjög ítarlegt verðmat á Kaupþingi banka upp á 70 síður og metur þar bankann á töluvert hærra gengi en hann er á í dag," segir Hafliði Helgason ritstjóri Markaðarins. Sú bjartsýni smiti á önnur félög á markaði.

"Það má eiginlega að Kaupþingi komist með þessu mati í Evrópukeppnina, ef maður grípur til fótboltalíkingar. Og þetta opnar þeim og öðrum fyrirtækjum möguleika og þau eiga hugsanlega auðveldara með að sækja sér hlutafé á erlenda markaði," segir Hafliði og spáir því að úrvalsvísitalan muni hækka í kring um 20 prósent á þessu ári, samanborið við 15,8 prósent á nýliðnu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×