Fleiri fréttir

1700 skráðir á landsfund Samfylkingarinnar

Um 1700 manns hafa skráð sig til þátttöku á landsfund Samfylkingarinnar sem fer fram um helgina í Smáranum, Kópavogi. Á fundinum verður kjörin ný forysta en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður flokksins, og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, sækjast ekki eftir endurkjöri.

Suðurlandsvegur verður að mestu 2+2 vegur

Kristján Möller, samgönguráðherra, og Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, kynntu í dag tillögur um tvöföldun Suðurlandsvegar. Meginhluti leiðarinnar á milli Reykjavíkur og Selfoss verður 2+2 vegur en kaflinn milli Litlu kaffistofunnar og Kambabrúnar verður 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum. Heildarkostnaður verkefnisins er rúmlega 16 milljarðar króna. Einum milljarði verður ráðstafað á þessu ári en fyrsti hluti verkefnisins verður boðinn út síðar á árinu.

Malbikunarmaður sló vinnufélaga með skóflu

Rúmlega fertugur malbikunarmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa slegið samstarfsmann sinn með skóflu í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut heilahristing. Fórnarlambið fer fram á tæpa milljón í skaðabætur. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Ráðherrar ræddu um makrílveiðar Íslendinga

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Helgu Pedersen, sjávarútvegsráðherra Noregs, ræddu saman í síma í dag um yfirlýsingar hennar í norskum fjölmiðlum um markílveiðar Íslendinga. Hún hefur hvatt til þess að íslenskt mjöl sem unnið er úr makríl verði ekki notað sem fóður í laxeldi í Noregi.

Framsókn gagnrýnir Gylfa Arnbjörnsson

Framsóknarflokkurinn gagnrýnir harðlega uppsögn Vigdísar Hauksdóttur lögfræðings hjá ASÍ en henni var gert að hætta hjá sambandinu í kjölfar þess að hún náði fyrsta sæti á lista flokksins í Reykjavík. Í tilkynningu frá flokknum segir að lýðræðið í landinu byggist fyrst og fremst á því að fyrirheitið sem felst í nafninu lýðræði sé virt og efnt með almennri þátttöku landsmanna í starfi stjórnmálaflokka, stefnumótun þeirra og framboðum.

Framboðsræða Snorra í Valhöll - myndband

Listamaðurinn Snorri Ásmundsson er í framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins, en nýr formaður verður kjörinn á landsþingi flokksins um komandi helgi. Á fundi í Valhöll hélt Snorri ræðu ásamt þeim Kristjáni Þór Júlíussyni og Bjarna Benediktssyni sem einnig eru í framboði. Í máli Snorra kom fram að hann væri krónískur óþekktarangi sem sennilega hefði getað farið þann veg sem venjulegir formenn fara ef hann hefði verið settur á Rítalín. Snorri segir stjórnmálin krabbameinsvaldandi og því sé þetta ekki öfundsvert starf.

Enn ein kannabisframleiðslan stöðvuð

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði umfangsmikla kannabisræktun í íbúðahúsi í Hafnarfirði í gær og í miðborginni á sunnudag. Samtals var lagt hald á 650 kannabisplöntur.

Ljósmæður ánægðar með Ögmund

Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands fagnar ákvörðun Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra, að halda fæðingaþjónustu óskertri á Suðurlandi og Suðurnesjum, enda vafasamt að skerðing þeirrar þjónustu hefði haft í för með sér raunverulegan sparnað.

Svanasöngur Geirs á þingi

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, bað um orðið í upphafi þingfundar á Alþingi í dag. Hann tilkynnti að þetta væri síðasti starfsdagur hans á þingi og að hann yrði fjarverandi í næstu viku af persónulegum ástæðum. Í framhaldinu fundaði Geir með fréttamönnum ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni flokksins.

Vilja jarðgöng undir Fjarðarheiði

Fjórir þingmenn í Norðausturkjördæmi vilja að Alþingi feli samgönguráðherra nú þegar undirbúning að gerð jarðganga undir Fjarðarheiði. Fram kemur í þingsályktunartillögu þingmannanna að þeir vilja að rannsóknum og undirbúningi verði lokið í tæka tíð til að hægt verði að hefja framkvæmdir í beinu framhaldi af Norðfjarðargöngum eða ekki síðar en sumarið 2011.

Kynna lista yfir mál sem þarf að ljúka fyrir þinglok

Listi yfir 22 mál sem stjórnarflokkarnir telja að brýnt sé að ljúka fyrir þinglok hefur verið kynntur fyrir formönnum stjórnmálaflokkanna og verður kynntur þingmönnum síðar í dag. Þetta kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Birgis Ármannssonar þingmanns sem vildi vita hvaða mál ætti að leggja áherslu á fyrir þinglok.

Meint nauðgun í Eyjum rannsökuð

Lögreglan í Vestmanneyjum hefur til rannsóknar kæru vegna meintrar nauðgunar sem sögð er að átt hafi sér stað aðfaranótt 22. mars. Fram kemur á fréttavefnum Eyjar.net að málsatvik liggi ekki ljós fyrir en skýrsla hefur verið tekin af meintum þolanda, sem er kona um fertugt, og meintum geranda, sem er karlmaður um þrítugt.

Pólitískar nornaveiðar innan ASÍ

Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins spurði félagsmálaráðherra út í mál Vigdísar Hauksdóttur samflokkssystur sinnar á Alþingi í dag. Vígdísi var ekki veitt launalaust leyfi sem hún sótti um þegar hún tók þátt í prófkjöri fyrir Framsóknarflokkinn. Siv benti á að Magnús Norðdal lögfræðingur hjá ASÍ hefði hinsvegar fengið launalaust leyfi þegar hann tók þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar. Siv sagði þetta lykta af pólitískum nornaveiðum og kallaði eftir upplýsingum frá félagsmálaráðherra um málið.

Bikiníbomba stal sundbol

Bikiníbomban Anna Nicole Grayson var ákærð fyrir fíkniefnamisferli, þjófnað og skemmdarvek í tuttugu og fjórum ákæruliðum á dögunum. Nú hafa þrír ákæruliðir bæst við. Meðal annars er Anna ákærð fyrir að hafa stolið vörum úr Bónus og sundbol úr versluninni Sportveri við Glerártorg á Akureyri. Hún er einnig ákærð fyrir fjársvik með því að hafa stolið þremur greiðslukortum úr fataskáp við Djassballetskóla Báru. Í framhaldi af því sveik ún út veitingar á veitingastaðnum Ruby Tuesday með umræddum greiðslukortum.

Ókeypis tannlækningar á Facebook: Þúsundir hafa skráð sig

Ríflega 8300 manns hafa nú skráð sig á Facebook síðu þar sem skorað er á stjórnvöld að gera tannlækningar barna undir 18 ára aldri ókeypis. Á síðunni er bent á að tannlæknakosntaður sé mörgum barnafjölskyldum þung byrði. Einnig er bent á að á hinum Norðurlöndunum sé tannlæknaþjónusta ókeypis fyrir þennan aldursflokk.

Auglýsingar í kringum barnaefni áfram á Stöð 2

Ari Edwald, forstjóri 365, gerir ráð fyrir að auglýsingar í kringum barnaefni á Stöð 2 verði haldið áfram í óbreyttri mynd. Hann segir að þrátt fyrir að miklu meira sjónvarpsefni fyrir börn sé sýnt á Stöð 2 hafi RÚV birt mun fleiri auglýsingar í kringum barnatímanna hjá sér.

Vantrauststillaga samþykkt naumlega

Þing Tékklands samþykkti í gærkvöldi vantrauststillögu á minnihlutastjórn mið- og hægriflokka í landinu. Evrópusambandið segir stjórnarkreppu í Tékklandi ekki áhyggjuefni þó Tékkar séu nú í forystu fyrir sambandið.

Skemmdir á heimili bankamanns

Skemmdarvargar unnu í morgun skemmdir á heimili og bifreið Freds Goodwin, fyrrverandi framkvæmdastjóra Royal Bank of Scotland. Bankinn er nú í gjörgæslu hjá breska ríkinu en tap á rekstri hans í fyrra var rúmlega tuttugu og fjórir milljarðar punda sem er met í breskri viðskiptasögu.

Síðasti þingfundur Geirs

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur þátt í sínum síðasta þingfundi í dag og lýkur þar með 22 ára ferli hans á þingi. Geir mun af því tilefni segja nokkur orð í upphafi þingfundar og mun að því búnu funda með blaðamönnum ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Þar hyggst hann einnig ræða um þingstörfin framundan.

Bankahrunið bjargaði íslenskum flugdólgi

Íslenskur flugdólgur sem hótaði að sprengja upp flugvél í Skotlandi á síðasta ári hefur komist undan lögsókn. Íslendingurinn sem er karlmaður um þrítugt átti að mæta fyrir rétt í Skotlandi vegna hótana sem hann hafði um að sprengja upp flugvél Iceland Express sem kom frá Barcelona í mars á síðasta ári, en millilenti í Glasgow. Málið var hinsvegar látið niður falla sökum fyrningarreglna.

Gylfi: Við gerðum mistök

Forysta Alþýðusamband Íslands gerði mistök sem rýrðu ímynd sambandsins og stöðu sína gagnvart félagsmönnum þegar ASÍ setti ríkisstjórn Geirs H. Haarde ekki stólinn fyrir dyrnar í byrjun desember. Þetta kom fram í setningarræðu Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, þegar aukaársfundur sambandsins hófst í dag.

Leikhúsgestum fækkar um 25 þúsund

Hagstofan hefur tekið saman tölur um fjölda leikhúsgesta á leikárinu 2007/2008 en samanlagður fjöldi gesta á leiksýningar leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga nam ríflega 414 þúsundum á síðasta leikári. Þetta samsvarar því að hver landsmaður hafi sótt leiksýningu 1,3 sinnum á leikárinu. Gestum fækkaði nokkuð frá fyrra leikári – leikárinu 2006/2007 – eða um tæplega 25 þúsund gesti, sem samsvarar fækkun gesta um 5,7 af hundraði. Á síðasta leikári voru settar upp á fjalirnar 231 uppfærsla. Sýningar voru 3.339 talsins.

Minntust flóttans mikla eftir 65 ár

Hópur breskra hermanna minntist þess í gær að 65 ár voru liðin frá flótta þeirra úr fangabúðum Þjóðverja í Póllandi.

Japanar þróa frjókornavélmenni

Það er japanska veðurstofan sem stendur á bak við þessa nýstárlegu uppfinningu og hefur þegar hleypt 500 eintökum af stokkunum. Frjókornavélmennið er kúlulaga fyrirbæri sem mælir magn frjókorna í andrúmsloftinu og varar ofnæmissjúklinga við reynist magnið yfir ákveðnum mörkum.

Kóróna Frelsisstyttunnar opnar á ný

Kóróna Frelsisstyttunnar í New York verður að öllum líkindum opnuð fyrir gestum á ný á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna í sumar, 4. júlí.

Obama kynnti fyrsta fjárlagafrumvarp sitt

Barack Obama Bandaríkjaforseti átti fullt í fangi með að svara spurningum blaðamanna um gríðarmikinn fjárlagahalla sem vofir yfir Bandaríkjunum en hann kynnti sitt fyrsta fjárlagafrumvarp á blaðamannafundi í gær.

Þrír í gæsluvarðhald í Kolding

Þrír menn hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald fyrir nokkrar sérstaklega hættulegar líkamsárásir í Kolding í Danmörku síðustu vikur. Mennirnir eru allir innflytjendur og félagar í glæpaklíku í Kolding.

Obama ræddi við áhöfn geimstöðvarinnar

Barack Obama Bandaríkjaforseti ræddi við geimfara, sem staddir eru í Alþjóðlegu geimstöðinni, gegnum síma í gær og sagði þeim meðal annars að hann væri stoltur af þeirri vinnu sem þar ætti sér stað. Hópur nemenda við barnaskóla í Washington var viðstaddur þegar símtalið átti sér stað í Hvíta húsinu.

Vilja frekari gögn um síld í Vestmannaeyjahöfn

Sjávarútvegsráðuneytið hefur óskað eftir því við Hafrannsóknastofnun að hún afli frekari gagna um ástandið í Vestmannaeyjahöfn í samstarfi við heimamenn og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

Handtekinn við innbrot í bílskúr

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann í annarlegu ástandi upp úr miðnætti, eftir að hann hafði reynt að brjótast inn í bílskúr í Kópavogi. Til hans sást og var lögreglu gert viðvart. Hann var ekki viðræðuhæfur og gistir því fangageymslur þar til víman rennur af honum.

Höfðu reynt innbrot í átta sumarbústaði

Tveimur útlendingum, sem lögreglan á Selfossi handtók í fyrrinótt á drekkhlöðnum bíl af þýfi, var sleppt að yfirheyrslum loknum í nótt. Þeir reyndu að brjótast inn í átta sumarbústaði í grennd við Flúðir, en í fjórum þeirra fóru þjófavarnakerfi í gang þannig að þeir lögðu á flótta.

Tveir sextán ára á rúntinum

Tveir sextán ára piltar voru stöðvaðir í umferðinni á Akureyri í nótt.Þeir voru að sjálfsögðu réttindalausir og höfðu tekið bílinn ófrjálsri hendi af heimili annars þeirra. Eftir föðurlega umvöndun á lögreglustöðinni var hringt í forledra þeirra og þeir beðnir um að sækja piltana.

Eldur í mannlausri íbúð á Akureyri

Engan sakaði þegar mikill eldur kom upp í mannlausri íbúð í fjölbýlishúsi við Keilusíðu á Akureyri um klukkan þrjú í nótt. Reykskynjari í stigagangi vakti íbúa, sem kölluðu á slökkvilið.

Kaupmannahafnarlögreglan fann 36 kíló af amfetamíni

Lögreglan í Kaupmannahöfn upplýsti í dag að hún hefði fundið ferðatöskur með tæpum 36 kílóum af amfetamíni á Aðaljárnbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn. Virði fíkniefnanna nemur um fimm milljónum danskra króna, eftir því danska ríkisútvarpið, DR, hefur eftir yfirmönnum úr fíkniefnadeild lögreglunnar.

Hefur ekki lækkað laun sín

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur ekki lækkað laun sín frá því að bankahrunið varð að veruleika í byrjun október.

Umferðartafir á Hverfisgötunni

Töluverðar umferðartafir eru á Hverfisgötunni vegna þess að þar sem gatan mætir Frakkastíg er bilaður strætisvagn og erfiðlega gengur að koma honum í burtu.

Aldraðir komast ekki í þjónustuíbúðir

Fyrir ári slógust iðulega nokkur hundruð manns um kaup á hverri þjónustuíbúð sem í boði var fyrir aldraða, -þá tegund íbúða sem fáir geta keypt í dag. Tregða á fasteignamarkaði veldur því að aldraðir sem vilja komast í þjónustuíbúðir losna ekki við eignir sem þeir þurfa að selja.

Verktakar bjóða undir kostnaðaráætlunum Vegagerðarinnar

Örvænting ríkir meðal verktaka sem gera nú allt að helmingi lægri tilboð í framkvæmdir fyrir Vegagerðina, en kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir. Þetta ætti að þýða að hægt verði að ráðast í gagngerar umbætur á vegakerfinu.

Framsókn ætlar að endurgreiða Íslandspósti

Framsóknarflokkurinn hefur ekki endurgreitt Íslandspósti 150 þúsund króna styrk sem flokkurinn fékk frá Íslandspósti árið 2007. Sigfús Ingi Sigfússon, framkvæmdastjóri flokksins segir hins vegar í samtali við fréttastofu að til standi að endurgreiða styrkinn.

Össur skipar Valgerði formann

Nýtt samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu tók til starfa í dag. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, skipaði Valgerði Sverrisdóttur, fyrrum utanríkisráðherra, formann ráðsins.

Sjá næstu 50 fréttir