Innlent

Gylfi: Við gerðum mistök

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Forysta Alþýðusamband Íslands gerði mistök sem rýrðu ímynd sambandsins og stöðu sína gagnvart félagsmönnum þegar ASÍ setti ríkisstjórn Geirs H. Haarde ekki stólinn fyrir dyrnar í byrjun desember. Þetta kom fram í setningarræðu Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, þegar aukaársfundur sambandsins hófst í dag.

Gylfi sagði að þegar í ljós hafi komið að aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru veikburða og handahófskenndar og þeir sem báru ábyrgð á hruninu voru ekki látnir axla hana hafi ASÍ krafist þess að gerðar yrðu umfangsmiklar breytingar innan ríkisstjórnar, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits til þess að freista þess að ríkisstjórnin næði sátt við þjóðina. Engu af þessu hafi verið hrint í framkvæmd og reiðin hafi magnast í samfélaginu.

„Eftir á að hyggja viðurkenni ég að við gerðum ákveðin mistök í þessu ferli, sem rýrðu ímynd okkar og stöðu gagnvart félagsmönnum og trúlega hefðum við átt að setja ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar í byrjun desember í stað þess að bíða fram yfir áramót,“ sagði Gylfi.



Biðji þjóðina afsökunar




Gylfi sagði að forsenda sáttar almennings og áhrifamanna í viðskipta- og atvinnulífi sé tvíþætt. „Annars vegar að stjórnvöld taki á trúverðugan og réttlátan hátt á þeim sem báru ábyrgð á hruni bankakerfisins en öll aðferðafræði við rannsókn á aðdraganda hrunsins til þessa hefur verið í skötulíki," sagði Gylfi og bætti við að þeir sem beri ábyrgðina verði að biðja þjóðina afsökunar á því að hafa komið henni í þessa stöðu.

„Við hljótum að kalla þessa aðila til ábyrgðar og spyrja hvort þeir ætlist virkilega til þess að endurreisn atvinnulífsins eigi sér stað á sama siðspillta grunni og áður?"

Gylfi sagði að Alþýðusambandið væri ekki til viðræðu um slíkt og ætlast væri til þess að endurreisnin verði byggð á traustum siðferðislegum og samfélagslegum gildum.

Norræn samfélög fyrirmyndin

Gylfi sagði reynsluna sýna að norræn samfélög sem byggi á velferðarhugsjón verkalýðshreyfingarinnar hafi skapað íbúum sínum mesta almenna velferð og lífsgæði meðal þjóða heims.

„Það er engin vafi að norrænu velferðarsamfélögin eru meðal þeirra samfélaga sem eru best búin undir framtíðina og ég er sannfærður um að þau munu fyrr og betur ráða við afleiðingar þessarar alheimskreppu. Samfélög sem byggja á öflugu og virku velferðarkerfi, góðri menntun fyrir alla, jöfnuði, jafnrétti kynjanna og traustum réttindum launafólks er einmitt sá grunnur sem byggja þarf á til að takast á við þann mikla vanda sem fylgir afleiðingum fjármálakreppunnar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×