Erlent

Japanar þróa frjókornavélmenni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hópur frjókornavélmenna bíður eftir að hefja störf.
Hópur frjókornavélmenna bíður eftir að hefja störf.

Það er japanska veðurstofan sem stendur á bak við þessa nýstárlegu uppfinningu og hefur þegar hleypt 500 eintökum af stokkunum. Frjókornavélmennið er kúlulaga fyrirbæri sem mælir magn frjókorna í andrúmsloftinu og varar ofnæmissjúklinga við reynist magnið yfir ákveðnum mörkum.

Einn af hverjum fimm Japönum þjáist af frjókornaofnæmi og sedrustrén í Tókýó reynast ofnæmissjúklingunum erfiður ljár í þúfu þegar þau taka að blómstra. Nýju vélmennin munu ekki eingöngu þjóna eigendum sínum heldur senda þau upplýsingar um frjókornamagn þess svæðis, sem þau eru staðsett á, til veðurstofunnar sem svo birtir upplýsingarnar á Netinu ofnæmissjúkum til viðvörunar.

Naoko Taki hjá veðurstofunni segir vélmennin munu vera miklar hjálparhellur þar sem engin leið sé fyrir fólk að sjá hvort frjókorn séu á sveimi eða hve mikið af þeim. Þetta muni því hjálpa fólki við að taka ákvarðanir um hvort það eigi að taka ofnæmislyf eða jafnvel nota grímu þann daginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×