Fleiri fréttir

Ung sænsk kona fær Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Sænski rithöfundurinn Sara Stridsberg hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár. Sara, sem er 33 ára, fær verðlaunin fyrir skáldsöguna Draumadeildina, sem var gefin út í fyrra. Soffía Auður Birgisdóttir, formaður dómnefndar bókmenntaverðlaunanna tilkynnti niðurstöðuna í Norræna húsinu í morgun.

Engin niðurstaða komin í auðlindamálið

Forystumenn stjórnarflokkanna hittust í morgun til að ræða nýtt stjórnarskrárákvæði um auðlindir, sem stjórnarsáttmálinn gerir kröfu um. Engin niðurstaða er komin í málið. Geir H Haarde forsætisráðherra segir stjórnarsamstarfið ekki í neinni hættu. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir þó "á mörkunum" að niðurstaða fáist fyrir kosningar.

Tekinn fyrir ölvunarakstur á flutningabíl

Ökumaður flutningabíls með fjörutíu feta gám á tengivagni var í hópi þeirr fjórtán manna sem teknir voru fyrir ölvunarakstur eða akstur undir áhrifum lyfja á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Maðurinn var gripinn í gær í Mosfellsbæ.

Al-Kaída hótar að myrða Harry

Hryðjuverkasamtökin Al-Kaída hafa hótað því að ræna Harry bretaprins, þegar hann verður sendur til Íraks, í maí næstkomandi, að sögn breska blaðsins The Sun. Blaðið segir að hótunin hafi komið fram á vefsíðu sem róttækir múslimar halda úti. "Múslimar í Írak munu drepa Harry prins, megi Allah gefa honum það sem hann á skilið," segir meðal annars á vefsíðunni.

84 kærðir fyrir hraðakstur á einni viku

84 voru kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í vikunni sem leið. Segir á vef lögreglunnar að af þessum 84 hafi sjö ökumenn ekið of hratt á Hellisheiði á laugardag þar sem snjókrapi var á veginum og aðstæður með þeim hætti að slíkur hraðakstur var mikil ógn við aðra vegfarendur og stofnaði þeim í mikla hættu.

Reyna að finna Ungdomshuset nýjan stað

Styrktarsjóður Ungdomshuset hefur fjárráð til að kaupa nýtt hús fyrir þá starfsemi sem fram hefur farið á Jagtvej 69, í húsinu sem nú á samkvæmt heimildum Politiken að rífa. Þetta segir Knud Foldschack lögmaður styrktarsjóðsins. Lögmaðurinn áréttar hins vegar í samtali við Politiken að ungmennin sjálf hafi fyrirgert rétti sínum til að koma að þeirri ákvörðun hvar skuli kaupa nýtt hús, það sé sjóðsins og stjórnmálamanna að ákveða það. Hann segir að sjóðurinn sé hins vegar tilbúinn að láta unga fólkinu eftir að reka starfsemina eftir sem áður.

Stórt vopnabúr í Kaliforníu

Slökkviliðsmenn í Kaliforníu í Bandaríkjunum komu niður á milljón skothylki í göngum á einkalóð fyrir helgi. Eldur brenndi hluta þaks af húsinu fyrir ofan og var slökkvilið kallað til. Einhver skotfæri sprungu meðan eldur logaði í húsinu og hitnaði í göngunum. Þar voru, auk skotfæranna, rúm 30 kíló af svörtu byssupúðri, fjölmargar skammbyssur, haglabyssur og árásarrifflar.

Betra að róa menn niður en handtaka þá

Lögregla ætti ekki að beita menn, sem ganga berserksgang og eru með óráði, valdi heldur reyna að róa þá. Þetta segir danski réttarmeinafræðingurinn Peter Leth í samtali við fréttaskýringaþáttinn Kompás sem er á dagskrá í kvöld. Þar er fjallað um andlát Jóns Helgasonar, í höndum lögreglu, í lok nóvember á síðasta ári.

Siv á að segja af sér

Heilbrigðisráðherra á að segja af sér, að mati Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, vegna hótana ráðherrans um stjórnarslit ef sjálfstæðismenn samþykki ekki að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Hann efast um að sjálfstæðismenn verði við þessari kröfu framsóknarmanna. Heilbrigðisráðherra neitar að tjá sig um yfirlýsingar Sigurðar Kára.

Tollkvótar hækka matarverð

Ákvörðun stjórnvalda, um að bjóða upp innflutningskvóta á kjöti og ostum, stuðlar að hærra vöruverði og er andstæð markmiðum ríkisstjórnarinnar um að lækka matarverð. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Dæmi eru um að framleiðendur hafi keypt kvóta til að hindra innflutning og halda verðinu uppi.

Uppörvandi fyrir hægri grænt framboð

Gallup-könnun, á fylgi við nýtt framboð umhverfisverndarsinna, sýnir að það hefur hljómgrunn meðal þjóðarinnar, segir Ómar Ragnarsson sem verður á lista flokksins í Reykjavík ásamt Margréti Sverrisdóttur og Jakobi Frímanni Magnússyni. Listinn býður fram í öllum kjördæmum fyrir kosningarnar í vor.

Hellir Íslandsmeistari skákfélaga

Taflfélagið Hellir tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í skák eftir spennandi keppni í Rimaskóla. Hellir sigraði Taflfélag Vestmannaeyja öruggt, 6-2 í úrslitaviðureign. Hellir hlaut 47 vinninga af 56 mögulegum og tapaði sveitin einungis einni skák í allri keppninni sem er nýtt met. Eyjamenn urðu í öðru sæti með 42,5 vinninga og Taflfélag Reykjavíkur í 3. sæti með 35 vinninga. Þetta er fjórði titill Hellis, sem nú er orðið næstsigursælast íslenskra taflfélaga, einungis TR hefur unnið oftar.

Alvarlegt bílslys við Hvolsvöll

Alvarlegt bílslys varð rétt vestan við Hvolsvöll nú síðdegis þegar fólksbíll og sjúkrabíll rákust saman. Ökumaður fólksbílsins slasaðist illa í árekstrinum og er á leið til Reykjavíkur með sjúkrabíl. Lögregla sagði líklegt að þyrla Landhelgisgæslunnar mundi fljúga á móti sjúkrabílnum til að flytja manninn á slysadeild.

Ákvarðanir um gæslu teknar af utanríkisráðuneyti

Ákvarðanir um umfang öryggisgæslu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, þ.m.t. fjöldi öryggisvarða eru teknar af utanríkisráðuneytinu, samkvæmt yfirlýsingu sem dómsmálaráðuneytið hefur sent Stöð 2.

Morðingi í leyfi drap aftur

Norskur karlmaður, Quang Minh Pham hefur verið handtekinn grunaður um að hafa myrt 31 árs gamlan mann sem saknað hafði verið í viku en fannst í skottinu á bíl Pham í gær. Pham, sem er 34 ára var dæmdur fyrir manndráp fyrir átta árum en var í leyfi frá fangelsinu þar sem hann afplánar 21 árs dóm. Verdens Gang í Noregi greinir frá þessu.

Arababandalagið vill skýr svör

Arababandalagið vill að Bandaríkjamenn gefi afsvar með það hversu lengi þeir ætla að hafa herafla í Írak. Aðalritari bandarlagsins Amr Moussa segir þetta helsta baráttumál bandalagsins sem nú fundar í Kaíró.

Eldur við Heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi

Lögregla og slökkvilið hafa verið kölluð að Heilsugæslustöðinni á Seltjarnarnesi þar sem logar í ruslageymslu. Að sögn lögreglu er eldurinn afmarkaður og lítil hætta á að hann breiðist út.

Enn nóg pláss í fangelsum

Fangelsismálastjóri Kaupmannahafnar óttast ekki plássleysi í fangelsum, jafnvel þó svo að til frekari átaka komi á Norðurbrú. Hann segir að enn sé pláss fyrir fleiri. Af þeim rúmlega 600 sem samtals hafa verið handteknir undanfarna sólarhringa sitja 218 enn í gæsluvarðhaldi.

Skutu átta óbreytta borgara til bana

Bandarískir hermenn skutu átta óbreytta borgara til bana og særðu meira en 30 til viðbótar fyrir utan Jalalabad í austurhluta Afganistan í dag. Þetta segir lögregla í Afganistan. Hermennirnir hófu skothríð eftir að sjálfsmorðssprengjumaður gerði á þá árás. Sprengjumaðurinn var sá eini sem lést í sprengingunni en ekki er ljóst hvort hermenn hafi slasast í henni. Ekki hafa enn borist fréttir af því af hverju hermennirnir hófu skothríð á borgarana.

Friður á Fílabeinsströndinni

Laurent Gbagbo forseti Fílabeinsstrandarinnar og Guillaume Soro foringi skæruliðasveita í landinu skrifuðu í dag undir friðarsamkomulag sem bindur enda á borgarastríð sem staðið hefur í fimm ár í landinu. Samningurinn er árangur mánaðrlangra viðræðna sem fram hafa farið í nágrannalandinu Burkina Faso með stuðningi Sameinuðu þjóðanna.

Allt á floti í Aðalstræti

Vatn flæddi yfir allt í húsinu við Aðalstræti 9 í dag. Kallað var á slökkvilið þegar um 15 sentímetra vatnslag hafði flætt yfir gólf á neðri hæðum hússins. Ekki er hægt að segja til um það hversu miklar skemmdir hafa hlotist en slökkvilið vinnur nú að því að dæla vatninu út. Í húsinu eru meðal annars sólbaðsstofa, lögmannsskrifstofur og skrifstofur Frjálslynda flokksins.

Þingkosningar í Eistlandi

Búist er við að sitjandi ríkisstjórn mið- og hægriflokkar í Eistlandi haldi velli í þingkosningum í landinu í dag. Kosningarnar eru þær elleftu frá því landið fékk sjálfstæði árið 1991. Kjörstaðir voru opnaðir klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma og verður lokað klukkan sex. Búist er við að úrslit liggi fyrir klukkan tíu í kvöld.

Mengun eykst í Straumsvík við stækkun

Mengun frá álveri Alcan í Straumsvík eykst við stækkun þess. Þetta staðhæfir Stefán Georgsson verkfræðingur í grein sem hann skrifar í dag á vefsíðuna www.solistraumi.org. Varfærnislegt mat Stefáns er að losun flúoríðs rúmlega tvöfaldist, losun svifryks og gróðurhúsalofttegunda eykst enn meira. Þá segir Stefán mat sitt vera að 460 þúsund tonna álver eigi ekki heima í Straumsvík.

Landbúnaður skiptir þjóðina máli

95% þjóðarinnar segja skipta máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar og rúm 60% þjóðarinnar eru tilbúin að greiða hærra verð fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem Capacent-Gallup gerði fyrir Bændasamtökin.

Risabarn fæddist í Kína

Kínversk kona ól á föstudag barn sem er það þyngsta sem komið hefur í heiminn í þessu fjölmennasta landi heims síðan 1949. Drengurinn sem enn hefur ekki fengið nafn fæddist 6,25 kíló eða 25 merkur. Móður og barni heilsast vel. Móðirin er strætóbílstjóri og gamall íþróttamaður og er engin smásmíð sjálf, hún vegur 120 kíló.

Sigurður Kári vill að Siv segi af sér

Sigurður Kári Kristjánsson segir að Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra eigi að segja af sér, hvort sem hún hafi meint eða ekki ummæli um að það varðaði stjórnarslitum ef Sjálfstæðismenn samþykktu ekki auðlindaákvæði í stjórnarskrá. „Mín skoðun er sú að í öllum alvöru ríkjum að ráðherra sem fer fram með þessum hætti að honum er nú varla sætt“, sagði Sigurður.

Vel fylgst með tunglmyrkva

Tunglmyrkva varð vart víða um heim í gærkvöldi og nótt. Stjörnufræðingar og -skoðarar fylgdust áhugasamir með þegar tunglið dökknaði, roðnaði og varð síðan gráleitt og appelsínugult. Þetta var í fyrsta sinn síðan í lok október 2004 sem tunglmyrkvi sást frá Reykjavík.

Gamla varnarsvæðið þrískipt

Þrír aðilar fara með forræði á gamla varnarsvæðinu en í Utanríkisráðuneytinu og Dómsmálaráðuneytinu virðast menn ekki vera með það á hreinu hvaða hlutar svæðisins eru á forræði hvers. Svæðinu var skipt í þrjú svæði þegar íslensk stjórnvöld tóku við því af varnarliðinu.

Uppboð á tollkvótum hækkar matarverð

Ákvörðun stjórnvalda um uppboð á innflutningskvótum á kjöti og ostum stuðlar að hærra vöruverði og er andstæð markmiðum ríkisstjórnarinnar um að lækka matarverð. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Samtökin vildu að tollkvótum yrði úthlutað án uppboðs.

Ungdomshuset verður jafnað við jörðu

Danska blaðið Politiken fullyrðir að Ungdomshuset verði jafnað við jörðu á tveimur dögum. Trúarsöfnuðurinn Faderhuset sem á húsið hefur boðað blaðamannafund í fyrramálið þar sem þeir ætla að greina frá ákvörðun sinni um framtíð hússins.

Enn allt með kyrrum kjörum í Kaupmannahöfn

Enn er allt með kyrrum kjörum á Norðurbrú í Kaupmannahöfn og svo virðist sem ekki muni koma til álíka átaka og undanfarna tvo daga. Mótmælendur komu sínum skilaboðum á framfæri með yfirveguðum hætti í dag en mótmælagöngu lauk í Norrebroparken undir kvöld án þess að til ryskinga kæmi. Lögregla hefur þó enn hámarksviðbúnað, skyldi sverfa til stáls.

Týndir ferðamenn komnir í leitirnar

Hópur ferðamanna sem hefur verið týndur síðan á fimmtudag í Eþíópíu er kominn í leitirnar. Hópurinn hafði samband við ferðaskrifstofu sína nú í kvöld. Búist er við því að hópurinn komi til höfuðborgarinnar Addis Ababa á morgun. Ekki er vitað enn hvað fólkið hefur verið að bardúsa en óttast var að uppreisnarmenn frá Erítreu hefðu rænt þeim.

Barn brenndist í heitum potti

Lögregla var kölluð niður í Fossvog um áttaleytið í kvöld en þar hafði barn dottið ofan í heitan pott sem var allt of heitur. Barnið hlaut annars stigs bruna og var flutt á slysadeild. Rétt er að brýna fyrir fólki að umgangast heita potta af varúð og koma fyrir hitastillum til að slysagildrur af þessu tagi myndist síður.

Friðsamleg mótmæli í dag

Mótmæli hafa farið friðsamlega fram í Kaupmannahöfn í dag eftir hörð átök lögreglu og mótmælenda síðustu nótt. Deilt er um rýmingu æskulýðsstöðvar á Norðurbrú. Lögregla óttast að þar verði frekari átök í nótt. Íslenskur ljósmyndari segir mótmælendur hafa misst samúð hins venjulega Dana.

Saknaðargrátur í X-Factor

Tilfinningarnar báru marga ofurliði þegar Alan þurfti að taka pokann sinn í hæfileikakeppninni X-factor í gær. Það kom í hlut Ellýar að skera úr um hvort dúettinn Hara eða Alan lykju keppni og eftir langan umhugsunarfrest var það Alan sem fékk reisupassann. Hann var í hópi Einars Bárðarsonar sem á nú eftir tvo keppendur. Einar var ekki sáttur við að þurfa að sjá á bak Alani og gat ekki haldið aftur af tárum sínum. Halla Vilhjálmsdóttir, kynnir keppninnar, var einnig beygð þegar í ljós kom að Alan væri dottinn úr leik og því ljóst að Alan hefur tengst samstarfsfólki sínu sterkum böndum og verði sárt saknað.

Guðbergur og Álfrún heiðruð

Cervantes-stofan var opnuð formlega í dag í hátíðarsal Háskóla Íslands. Við það tækifæri voru doktor Álfrún Gunnlaugsdóttir, prófessor, og Guðbergur Bergsson, rithöfundur, heiðruð af spænska ríkinu; hún fyrir kennslu á spænskum og suður-amerískum bókmenntum og hann fyrir þýðingar. Það var Doktor Enrique Bernardez, prófessor við Complitense háskólann í Madríd, sem sæmdi þau heiðursorðu spænskra yfirvalda.

Rök menntamálaráðherra ómarktæk

Ekkert mark er takandi á rökum menntamálaráðherra fyrir því að hunsa tilnefningar Blaðamannafélags Íslands í sérfræðinganefnd NJC. Þetta segir Arna Schram, formaður félagsins. Hún segir leitt að menntamálaráðherra hafi ákveðið að ljúka fimmtíu ára samstarfi við Blaðamannafélagið með þessum hætti.

Óljóst hver ber ábyrgð á uppsögnum

Utanríkisráðuneytið og Dómsmálaráðuneytið vísa hvort á annað vegna uppsagna tólf öryggisvarða á Keflavíkurflugvelli og segjast hvorugt bera ábyrgð. Öryggisverðirnir störfuðu hjá Sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli, sem áður heyrði undir Utanríkisráðuneytið, en heyrir nú undir Dómsmálaráðuneytið.

60 ályktanir Framsóknarmanna

Ísland verður áfram á grænu ljósi tækifæranna, sagði varaformaður Framsóknarflokksins í lok flokksþings nú síðdegis. Formaður flokksins segir fráleitt að heilbrigðisráðherra hafi verið með fjandsamlegar hótanir í gær þegar hún gaf í skyn að til stjórnarslita gæti komið vegna auðlindaákvæðis sem framsóknarmenn vilja fá í stjórnarskrá.

Ekki lengur snjóflóðahætta

Ekki er lengur snjóflóðahætta í Hvalsnesskriðum fyrir austan. Þá er færð með ágætu móti víðast hvar. Á Suðurlandi og Vesturlandi eru vegir víðast auðir þótt lítilsháttar hálka sé á stöku stað. Á vestfjörðum eru hálkublettir víða en hálka á Steingrímsfjarðarheiði og ófært um Eyrarfjall. Á Norðvesturlandi er aðalleiðir auðar en á Norðausturlandi er víða hálka og snjóþekja.

Bush heimsótti hvirfilbyljasvæði

George Bush Bandaríkjaforseti heimsótti í dag þau svæði sem verst urðu úti í hvirfilbyljum í fyrrinótt. Hann lofar þeim ríkjum sem verst urðu úti alríkisaðstoð. Bush kom meðal annars við í borginni Enterprise í Alabama þar sem fimm létust og tugir slösuðust þegar þak rifnaði af skólahúsi í hvirfilbyl.

Fimm breskum ferðamönnum rænt í Eþíópíu

Leit stendur yfir á fimm breskum sendiráðsstarfsmönnum sem saknað hefur verið síðan á fimmtudag þegar þeim var rænt í Eþíópíu um 800 km norðaustur af höfuðborginni Addis Ababa. Liðsmenn eþíópísku lögreglunnar og hersins vinna nú að því í samráði við breska sendinefnd að finna fólkið. Uppreisnarmönnum frá Erítreu er kennt um mannránið.

Mótmælin hafa verið friðsamleg í dag

Mótmæli í Kaupmannahöfn hafa gengið friðsamlega fyrir sig í dag. Um 2000 mótmælendur gengu fylktu liði frá Ráðhústorgi upp á Norðurbrú og sungu stuðningssöngva við Ungdomshuset.

Sjá næstu 50 fréttir