Fleiri fréttir

Bilun í Cantat sæstreng

Bilun kom upp í Cantat sæstreng Símans um kl. 23:30 í gærkvöld og hefur bilunin áhrif á netsamband til útlanda þar sem bandbreid minnkar. Ekki er vitað hvað veldur sambandsleysinu en unnið er að því að komast að hvað veldur. Bilunin hefur óveruleg áhrif á talsímaumferð.

Óku á vegg

Tvær stúlkur 16 og 17 ára gamlar, voru handteknar í Grindavík í nótt grunaðar um að hafa tekið bifreið ófrjálsri hendi og ekið henni á steinhleðsluvegg við skemmtistaðinn Festi. Þær sluppu án teljandi meiðsla en bifreiðin er mikið skemmd sem og veggurinn. Stúlkurnar gistu fangageymslur lögreglu í Keflavík í nótt.

Vesturveldin styðja Abbas

Sú ákvörðun Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, að boða til kosninga á heimastjórnarsvæðunum hefur almennt mælst vel fyrir á Vesturlöndum. Abbas boðaði til kosninga í gær eftir stigvaxandi átök liðsmanna Fatah og Hamas. Leiðtogar Hamas segja ákvörðun forsetans jafngilda valdaráni.

Átök í Kaupmannahöfn

Til óeirða kom í Kaupmannahöfn í nótt þegar mótmælaganga ungmenna fór úr böndunum. Undanfarna daga hafa ungmennin mótmælt á friðsamlegan hátt þeirri ákvörðun Eystri-Landsrétts að hópi húsatökumanna bæri að rýma hús sem kristið trúfélag hafði keypt fyrir nokkrum árum. Í gærkvöld kom hins vegar til óláta í miðborginni. Nokkrir liggja sárir og 300 manns voru færðir í fangageymslur.

Fékk á sig steypuklump

Kínverskur verkamaður slasaðist á Kárahnúkum í gær, þegar hann fékk á sig steypuklump í göngum þar sem nýbúið var að steypusprauta. Maðurinn var fluttur á slysadeild í gær og er enn haldið þar til eftirlits. Samkvæmt vakthafandi lækni er hann ekki alvarlega slasaður, og verður líklega útskrifaður seinna í dag.

Dansað í kringum jólatré með froskalappir

Eitt sérstæðasta jólaball landsins var haldið í dag en þar var synt en ekki gengið í kringum jólatréð. Sportkafarafélag Íslands stóð fyrir þessu jólaballi í gjánni Silfru á Þingvöllum og að sjálfsögðu mættu jólasveinarnir á svæðið með froskalappir á fótum og súrefniskúta á baki.

Reykjanesvirkjun formlega vígð

Reykjanesvirkjun var formlega vígð síðdegis í gær en hún markar tímamót í sögu Hitaveitu Suðurnesja, sem margfaldar rafmagnsframleiðslu sína með þessari framkvæmd. Reykjanesvirkjun kostaði yfir 13 milljarða í byggingu en nær öll raforkuframleiðslan fer til Norðuráls í Hvalfirði.

Jákvæðar viðræður um Hatton Rockall

Í gær fóru fram í Kaupmannahöfn viðræður Íslands, Bretlands, Írlands og Danmerkur, fyrir hönd Færeyja, um Hatton Rockall-málið, en öll þessi ríki gera tilkall til landgrunnsréttinda utan 200 sjómílna á svæðinu.

Fimm hafa látist það sem af er desember

Rúmlega tvítugur maður lét lífið í bílveltu á Álftanesvegi í nótt. Þrjátíu hafa látist í umferðinni það sem af er árinu, þar af fimm í desember.

Ákvörðun Abbas kölluð valdarán

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur boðað til þing- og forsetakosninga í þeirri von að þar með verði endi bundinn á valdabaráttu stríðandi fylkinga á heimastjórnarsvæðunum. Leiðtogar Hamas eru æfir yfir ákvörðuninni og kalla hana valdarán.

Ástarbréf íslenskra kvenna á safn

Ástarbréf íslenskra kvenna til eina skipverja franska rannsóknarskipsins Pourquois-pas sem komst lífs af þegar skipið strandaði út af Reykjanesi árið 1936, verða að öllum líkindum afhent Íslendingum með vorinu. Frændi skipverjans, sem nú er látinn, er staddur hér á landi. Olivier Le Bihan er mikilsvirtur safnstjóri í Frakklandi, en hann stjórnar fagurlistasafninu í Bordeaux.

Rændu hálsfesti af drukknandi konu

Dómstóll á Srí Lanka hefur dæmt tvo menn til dauða fyrir að valda dauða konu þegar flóðbylgjan mikla skall á eynni annan dag jóla 2004. Myndbandsupptaka sýnir þegar þeir slíta af henni hálsfesti og skilja svo eftir í vatnsflaumnum.

Sleppt eftir vist í Guantanamo fangabúðunum

Sjö Afganar komu til heimalands síns í dag eftir nokkurra ára vist í Guantanamo fangabúðunum á Kúbu. Á fréttamannafundi í dag lýstu þeir yfir sakleysi sínu og reiði gagnvart bandarískum stjórnvöldum.

Vonast til að yfirlýsing Abbas lægi öldur

Stjórnvöld í Bandaríkjunum vonast til þess að yfirlýsing Mahmoud Abbas forseta Palestínu, um boða fljótlega til kosninga, lægi öldu ofbeldis sem ríkt hefur á svæði og stuðli að friði.

Bjó yfir leynilegum upplýsingum

Alexander Litvinenko, fyrrverandi njósnari hjá KGB, var myrtur vegna leynilegra upplýsinga sem hann hafði komist yfir um valdamikla stjórnendur í Rússlandi.

Styrkja byggingu nýs íþróttahúss á Höfn

Útgerðarfyrirtækið Skinney-Þinganess ætlar að styrkja byggingu nýs knattspyrnuhúss á Höfn í Hornafirði með að minnsta kosti 60 milljóna króna framlagi. Þetta er í tilefni að því að fyrirtækið fagnar nú 60 ára afmæli sínu.

Háhraðatengingar á sunnanverðu Snæfellsnesi

Í dag ganga þrjú sveitarfélög á Vesturlandi frá samningi við Hringiðuna um háhraðatengingar á sunnanverðu Snæfellsnesi. Sveitarfélögin eru Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur og Snæfellsbær.

Messa hjá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni

Í morgun var messa rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar haldin í Dómkirkjunni. Þetta er önnur messan frá stofnun deildarinnar á íslandi, en tilefnið var að fagna degi Sánkti Nikulásar.

Opið í Bláfjöllum

Opið er á skíðasvæðinu í Bláfjöllum í dag. Svæðið opnaði klukkan eitt og verður opið til klukkan fjögur. Stólalyftan Gosi í Suðurgili er í gangi og einnig kaðallyftan Patti broddgöltur við Bláfjallaskála.

Bónus gagnrýnir verðkönnun ASÍ á bókum

Bónus gagnrýnir framkvæmd verðkönnunar á bókum sem gerð var í vikunni og neituðu Alþýðusambandinu að kanna verðlag í matvöruverslunum sínum. Þetta var gert þrátt fyrir yfirlýsingar forsvarsmanna Bónuss að þeir hefðu ekkert út á matvöruverðskannanir ASÍ að setja.

Blair róaði Erdogan

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna ákváðu á fundi sínum í gær að gera hlé á aðildarviðræðum við Tyrkland en ítrekuðu þó að dyr sambandsins myndu áfram standa nýjum ríkjum opnar. Tony Blair forsætisráðherra Bretlands reyndi í morgun að sefa tyrkneska ráðamenn en þeir eru afar vonsviknir yfir ákvörðuninni.

Abbas boðar kosningar

Mahmoud Abbas forseti Palestínu sagði í ræðu nú í morgun að Hamas-samtökin bæru ábyrgð á róstunum sem nú ríkja á heimastjórnarsvæðunum. Hann hótaði að leysa ríkisstjórnina frá völdum og lét að því liggja að þing- og forsetakosningar væru á næsta leiti.

Lítt gefnir fyrir sopann

Þingmenn á norska stórþinginu eru reglusamir í meira lagi, ef marka má frétt dagblaðsins Aftenposten. Þar kemur fram að á síðasta ári hafi ölsala í mötuneyti þinghússins verið svo lítil að hún jafngildi því að hver þingmaður hafi drukkið sem svarar fjórum matskeiðum af bjór á árinu.

Rúmlega tvítugur maður lét lífið í bílveltu á Álftanesvegi

Rúmlega tvítugur maður lét lífið í bílveltu á Álftanesvegi í nótt. Slysið varð á fyrsta tímanum í nótt en maðurinn var einn í bílnum. Hann var á leið út á Álftanes þegar bíll hans fór út af við Selskarð og valt. Maðurinn var látinn þegar lögreglan kom á staðinn. Tildrög slysins eru óljós. Þrjátíu hafa látið lífið í umferðinni á árinu en alls létust nítján í umferðinni á síðasta ári.

Sek þar til sakleysi sannast

Kona í Vestamannaeyjum fékk tæplega fjögur þúsund króna stöðumælasekt, fyrir að leggja bíl sínum ólöglega í Reykjavík í síðasta mánuði. Það þykir svo sem ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að bæði konan, og bíllinn hennar, voru í Vestmannaeyjum umræddan dag. Hún fékk þau svör hjá Bílastæðasjóði að hún yrði að borga sektina eða sanna fjarveru sína úr höfuðborginni og myndi úrskurðarnefnd þá taka ákvörðun um niðurfellingu sektarinnar.

Aftökum í Flórída frestað

Jeb Bush, ríkisstjóri í Flórída og bróðir George Bush Bandaríkjaforseta, hefur fyrirskipað að öllum aftökum í ríkinu verði frestað um óákveðinn tíma. Ástæðan er misheppnuð aftaka með eitursprautu á Angel Nievez Diaz fyrr í vikunni en hún tók rúman hálftíma í stað fimmtán mínútna.

Hermönnum verði fjölgað

Breska ríkisútvarpið hefur eftir ónafngreindum embættismanni í Washington að á næsta ári muni líklegast George Bush Bandaríkjaforseti fjölga hermönnum í Írak til að reyna til þrautar að koma böndum á ofbeldið í landinu.

Bréfin frá Bandaríkjunum biðu í 7 ár

Rússneskir bréfberar hafa hafist handa við að bera út fjögur og hálft tonn af bréfum og pökkum sem voru send frá Bandaríkjunum árið 1999. Ríkisrekin póstþjónustan í Rússlandi segir bið bréfanna ekki sína sök heldur skellir skuldinni á hafnaryfirvöld í Finnlandi, þar sem gámurinn með póstinum "gleymdist" í 7 ár.

Hetjutenórinn ber við lágum blóðsykri

Roberto Alagna, tenórinn frægi sem hljóp af sviðinu á La Scala óperunni í miðri aríu þegar áhorfendur bauluðu á hann, ber því við að hann þjáist af lágum blóðsykri og hafi því ekki getað klárað atriðið eða sýninguna. Hann ætlar að kæra óperuna fyrir að hafa rekið sig úr sýningunni.

Ólga um nýjan ráðherra í Danmörku

Sama dag og Carina Christensen er skipuð í embætti neytendaráðherra í Danmörku í stað Lars Barfoeds, sem sagði af sér á miðvikudaginn, er búið að ata hana auri í dönsku blöðunum. Vinnueftirlitið hefur gert athugasemdir við húsgagnaverksmiðju sem hún rekur og samkeppnisaðili hefur stefnt fyrirtækinu fyrir iðnstuld.

Bin Laden kampavín í glösin um áramótin

Perúskir bruggarar hafa skipt út andliti jólavínsins á flöskunum: í staðinn fyrir að jólasveinninn brosi framan í fólk er álíka skeggjaður karl en ekki jafn góðlegur kominn í staðinn. Og nafnið hans stendur líka á flöskunum: Bin Laden Kampavín! Yfirvöld hafa hins vegar hellt niður kössum af Osama-drykknum og segja hann óhæfan til manneldis.

Stjórn VG styður Álfheiði

Stjórn VG styður yfirlýsingu Álfheiðar Ingadóttur, fulltrúa flokksins í stjórn Landsvirkjunar, fyrr í dag. Álfheiður gekk af síðasta fundi núverandi stjórnar Landsvirkjunar í dag til að mótmæla því að raforkuverðið til Alcan sé ekki gefið upp. Í yfirlýsingu frá VG segir að slíkt standist ekki kröfur um opna og lýðræðislega stjórnsýslu.

Gerviskinnið var ekta í Macy's

Dýraverndunarsamtök ásaka stórverslunina Macy's í New York um að selja úlpu með þvottabjarnarskinni á hettunni með því að merkja hana á vefsíðu sinni á þann veg að loðkraginn væri gerviskinn. Samtökin sögðust hafa keypt slíka úlpu og séð þá að á miða í henni stæði "ekta þvottabjarnarskinn".

Þrír myrtir í skotárás á Jamaíka

Byssumenn drápu þrjá menn og særðu tvo til viðbótar nærri nokkrum fínustu hótelum við Montego-flóa á Jamaíka í dag, sama dag og ferðamannavertíðin byrjar þar fyrir alvöru. Byssumennirnir, sem klæddir voru í einkennisbúninga lögreglu, skutu á fólk sem stóð á gangstétt úr bíl á ferð. Árásin tengjast bardögum götugengja.

Unnustan stal senunni

Vilhjálmur Bretaprins útskrifaðist í dag úr Sandhurst-herskólanum á Englandi. Unnusta hans, Kate Middleton, vakti mikla athygli við athöfnina.

"Talíbanalög" bönnuð í Pakistan

Hæstiréttur í Pakistan bannaði í dag lög sem höfðu verið sett í norðvesturhluta landsins, þar sem samsteypa bókstafstrúaðra múslima ráða ríkjum. Með frumvarpinu átti að lögfesta íslamskt siðferði í héraðinu. Dómstóllinn bannaði fylkisstjóranum að skrifa undir lögin, en þau ganga einnig gegn hófsemisstefnu Musharrafs forseta.

Hávaxinn bjargar höfrungum

Hávaxnasti maður í heimi, Bao Xishun, gerði sér lítið fyrir í gær og bjargaði lífi tveggja höfrunga í dýragarði í Kína.

Prodi slapp með skrekkinn

Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, kom óvinsælu fjárlagafrumvarpi fyrir komandi ár í gegnum ítalska þingið í kvöld. Ef þingmenn hefðu fellt frumvarpið hefði Prodi þurft að segja af sér. Ítalska ríkisstjórnin stefnir á að herða sultaról og koma skuldum ríkisins á réttan kjöl á næsta ári. Það verður erfitt verkefni, enda alltaf óvinsælt að taka sparnaðarákvarðanir.

Samkomulag framlengt

Rannveig Rist, forstjóri Alcan, og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu í dag samkomulag sem framlengir fram á mitt næsta ár viljayfirlýsingu fyrirtækjanna um gerð raforkusamnings til stækkunar álversins í Straumsvík.

Flugumferð gæti lamast við Ísland

Allt stefnir í að flug lamist hér á landi og á milli landa um áramót, en flugumferðarstjórar undirrituðu ekki samninga við Flugstoð sem tekur við íslenska flugstjórnarsvæðinu um áramótin. Útlitið er afar slæmt, segir formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, en deilt hefur verið um lífeyrismál.

Dyrum ESB hallað

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna ákváðu á fundi sínum í morgun að gera hlé á aðildarviðræðum við Tyrkland en ítrekuðu þó að dyr sambandsins myndu áfram standa nýjum ríkjum opnar.

Athugasemd gerð við innihald vefsíðu

Verkfræðinemi, sem birti ítarlegan leiðarvísi á íslensku um sprengjugerð og kveikibúnað á háskólavefsíðu sinni, skrifaði leiðbeiningarnar ekki sjálfur heldur fann þær við heimildaöflun á vefnum. Forseti verkfræðideildar hafði samband við nemann í dag og gerði athugasemd við innihald síðunnar.

Sjá næstu 50 fréttir