Innlent

Fimm hafa látist það sem af er desember

Rúmlega tvítugur maður lét lífið í bílveltu á Álftanesvegi í nótt. Þrjátíu hafa látist í umferðinni það sem af er árinu, þar af fimm í desember.

Slysið varð á fyrsta tímanum í nótt en maðurinn sem er á tuttugasta og fjórða aldursári var einn í bílnum. Hann var á leið út á Álftanes þegar bíll hans fór út af við Selskarð, á Álftanesvegi, og valt. Maðurinn var látinn þegar lögreglan kom á staðinn. Tildrög slyssins eru óljós.

Umferðin hefur tekið sinn toll á árinu. Þrjátíu hafa látið lífið í tuttugu og sjö banaslysum en alls létust nítján á síðasta ári. Horfa þarf aftur til ársins 2000 til að finna álíka tölur en það ár létust 32 í umferðinni.

Fimm banaslys hafa orðið það sem af er desembermánuði. Fimm ára stúlka og karlmaður á þrítugsaldri létu lífið í banaslysi á Suðurlandsvegi 2. desember. Rúmlega tvítugur karlmaður lést á Stykkishólmsvegi fyrir um viku og karlmaður á þrítugsaldri á Vesturlandsvegi um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×