Fleiri fréttir

Leitað að eiganda dóps

Lögreglan í Keflavík leitar að eiganda að 170 grömmum af hassi, sem hún fann falin undir steini úti í móa fyrir ofan Bolafót í Njarðvík, aðfararnótt þriðjudags. Hassið fanst vegna ábendingar um grunsamlegar mannaferðir á svæðinu. Lögregla telur víst að efnið hafi verið ætlað til sölu . Miðað við smásöluverð á götunni nemur andvirði hassins yfir fjögur hundruð þúsundum króna.

Queen Elísabet II í Reykjavík

Hið sögufræga skemmtiferðaskip Queen Elísabet- önnur, lagðist að Skarfabakka við Sundahöfn í Reykjavík, í blíðskaparveðri í morgun. Hún er lengsta skip sem hefur viðkomu hér í sumar, eða rétt tæpir 300 metrar að lengd. Hún hefur komið hingað áður en ekki getað lagst við bryggju, þar sem engin bryggja hefur verið nógu löng þartil Skarfabakki var tekin í notkun í vor.

Drukkinn ökumaður

Lögreglumenn úr Keflavík trúðu ekki sínum eigin augum þegar kvarðinn í öndunarsýnatæki þeirra rauk upp úr öllu valdi þegar ökumaður, grunaður um ölvun, var að blása í það, undir kvöld í gær. Var því þegar farið með manninn á heilsugæslustöð til að taka úr honum blóðsýni.

Ekkert lát á árásum Ísraelshers

Ekkert lát virðist vera á árásum Ísraelshers á Gaza svæðinu en hernum hefur verið fyrirskipað að herða á aðgerðum sínum til að tryggja lausn hermanns þeirra sem er í haldi Palenstínumanna og koma í veg fyrir árasir á ísraelskt landsvæði. Sameinuðu þjóðirnar hafa sakað Ísrael um að hafa brjóta grundvallarreglur alþjóðlegra mannréttinda gegn óbreyttum borgurum.

Hjálmur bjargar

Lögreglumenn telja víst að reiðhjólahjálmur hafi komið í veg fyrir að níu ára stúlka slasaðist alvarlega, þegar hún hjólaði utan í bíl á Selfossi undir kvöld og féll í götuna. Hún hruflaðist hér og þar við fallið, en hlaut enga höfuðáverka. Þá varð henni líka til happs á bíllinn var á lítilli ferð.

Ristruflanir hjá þriðjungi karlmanna

Yfir þriðjungur íslenskra karlmanna á aldrinum 45 til 75 ára hafa fundið fyrir ristruflunum. Niðurstöður fyrstu almennu könnunarinnar á ristruflunum hér á landi voru birtar á dögunum.

Endurtalningar krafist í Mexíkó

Stuðningsmenn hins vinstrisinnaða Andres Manuel Lopez Obrador krefjast endurtalningar í Mexíkósku forsetakosningunum sem fram fóru síðustu helgi. Hinn hægrisinnaði Felipe Calderon, sem samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum er sigurvegari kosninganna, er ekki tilbúinn að fallast á þær kröfur og hefur lýst yfir sigri þrátt fyri ásakanir um mistalningu á atkvæðum. Flokkur Obradors heldur því fram að ekki hafi öll atkvæði verið talin og allt að þrjár milljónir atkvæða vantað í talningu. Nú stendur yfir endurtalning 35% atkvæða og er meirihluti þeirra talin tilheyra flokki Obradors. Calderon sem er úr flokki fráfarandi forseta Vicente Fox, segist tilbúinn til að stofna stjórn með andstæðingi sínum Obrador ef til þess kemur.

Frystitogari strandaði við Neskaupstað

Frystitogarinn Björgvin EA lenti á sand-grynningum við innsiglinguna í Neskaupstað í morgun, þegar skipið var að koma úr veiðiferð. Gott veður var á staðnum og losnaði skipið strax og togarinn Barði togaði í það. Að sögn skipstjórans á Björgvin var engin hætta á ferðum, engar skemmdir urðu á skipinu og tafði þetta förina um aðeins hálftíma. Dýpkunarskip hefur verið að færa til efni í innsiglingunni að undanförnu og hefur rennan inn í höfnina að líkindum eitthvað breyst.

Bush kærður til íslenskra yfirvalda fyrir stríðsglæpi

George Bush eldri hefur verið kærður til íslenskra yfirvalda fyrir glæpi gegn mannkyni og árásarstríð. Á heimasíðunni aldeilis.net birtist kæran í heild sinni. Hún er gefin út af hópi áhugafólks um mannréttindi og réttlæti. Kæran var afhent ríkislögreglustjóra á mánudaginn.

Hlupu hálfnakin gegn nautahlaupi

Dýraverndunarsinnar hlupu fáklæddir og sumir jafnvel natkir um götur Pamplona á Spáni í dag til að mótmæla árlegu nautahlaupi sem verður þar í borg á föstudaginn. Aðstandendur mótmælanna telja að um það bil þúsund manns hafi tekið þátt í hlaupinu í dag en yfrvöld draga þá talningu i efa.

Forsætisráðherra Íraks krefst ítarlegrar rannsóknar á morðum

Forsætisráðherra Íraks krefst þess að morð bandarískra hermanna á ungri konu og fjölskyldu hennar verði rannsakað ítarlega. Fyrrverandi hermaður hefur verið ákærður fyrir morðin og að hafa nauðgað ungu konunni. Talið er að allt að fjórir hermenn til viðbótar hafi átt þátt í ódæðunum.

Forseti Grikklands kominn til landsins

Forseti Grikklands kom í opinbera heimsókn til Íslands í dag. Hann mun ekki munda veiðistöng í heimsókn sinni líkt og fyrrverandi Bandaríkjaforseti, en er þó afreksmaður þegar kemur að annars konar stöng.

Lopez Obrador með naumt forskot

Andres Manuel Lopez Obrador, forsetaframbjóðandi vinstrimanna í Mexíkó, hefur naumt forskot á Felipe Calderon, frambjóðanda hægrimanna, eftir að búið er að telja helming atkvæða í kosningum sem fóru fram í landinu um síðustu helgi.

Mannskæð sprenging í rútu í Úkraínu

Átta létu lífið og tveir særðust þegar sprenging varð í kyrrstæðri rútu í Vestur-Úkraínu í dag. Tvö börn eru meðal látinna. Bílstjórinn var að laga vél rútunnar þegar sprengingin varð og mun ekki hafa farið eftir öryggisreglum.

Sendifulltrúi SÞ gagnrýnir Ísraelsmenn

Ísraelsher hefur verið fyrirskipað að herða á aðgerðum sínum á Gaza-svæðinu til að tryggja lausn hermanns þeirra sem er í haldi Palestínumanna og koma í veg fyrir árásir á ísraelskt landsvæði. Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna gagnrýndi Ísraela harðlega á fundi Mannréttindanefndar samtakanna í Genf í dag.

Skapa verður þjóðarsátt um lækkun matvælaverðs

Ögmundur Jónasson, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, segir að skapa verði þjóðarsátt um lækkun matvælaverðs á Íslandi. Ekki dugi að ná samkomulagi um verð á innlendum matvælum, heldur verði líka að grípa til aðgerða til að lækka verð á innfluttum matvælum.

Eldflaugatilraunirnar fordæmdar

Einhugur ríkir á alþjóðavettvangi um að fordæma tilraunir Norður-Kóreumanna með langdrægar eldflaugar. Undanfarinn sólarhring hefur sjö tilraunaflaugum verið skotið frá Norður-Kóreu og hafa þær allar hafnað í sjónum.

Hátæknisjúkrahúsi og Sundabraut frestað?

Fjöldi þingmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er hlynntur því að byggingu hátæknisjúkrahúss og lagningu Sundabrautar verði slegið á frest. Formaður Samfylkingarinnar segir flokkinn tilbúinn til að slást í lið með ríkisstjórninni, vilji hún verja andvirði Símans í að viðhalda stöðugleikanum.

Fleiri íhuga uppsagnir

Háskólamenntaðir starfsmenn hjá Styrktarfélagi vangefinna íhuga uppsagnir náist ekki viðunandi samningar á milli forsvarsmanna svæðisskrifstofu málefna fatlaðra og samninganefndar BHM.

Myndir af Unni Birnu á stefnumótasíðu

Andlit Unnar Birnu Vilhjálmsdóttur er notað á rússneskri stefnumótasíðu á internetinu, þar sem hún er sögð frá Úkraínu í leit að eiginmanni.

Kakan verður ekki stækkuð

Ríkisstjórnin tekur þátt í að fella niður skuldir fátækustu landa heims við Alþjóðaframfarastofnunina. Framlag Íslands er þó ekki viðbót heldur verður það á kostnað annarrar þróunarsamvinnu.

Grétar Már ráðuneytisstjóri

Grétar Már Sigurðsson skrifstofustjóri á viðskiptaskrifstofu tekur við stöðu ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu 21. júlí. Grétar Már tekur við af Gunnari Snorra Gunnarssyni, sem verið hefur ráðuneytisstjóri undanfarin fjögur ár. Gunnar Snorri flyst í haust til starfa erlendis fyrir utanríkisþjónustuna.

Kærir Bush fyrir stríðsglæpi

George Bush eldri hefur verið kærður til íslenskra yfirvalda fyrir glæpi gegn mannkyni og árásarstríð. Á heimasíðunni aldeilis.net birtist kæran í heild sinni. Hún er gefin út af hópi áhugafólks um mannréttindi og réttlæti. Höfundur kærunnar er Elías Davíðsson og skrifar hann undir fyrir hönd kærenda. Kæran var afhent ríkislögreglustjóra á mánudaginn. Bush er kærður fyrir margvíslega alþjóðaglæpi og þess er krafist að hann verði kyrrsettur hér á landi á meðan aðild hans að glæpunum er rannsökuð. Bush er sagður hafa gerst sekur um brot gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingi, brot gegn almennum borgurum, árásarstríð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Glæpina hafi hann framið þegar hann fyrirskipaði innrásina í Panama 1989 þar sem skipt var um stjórnvöld og í Persaflóastríðinu. Kæran er ítarlega rökstudd og er þar tekið fram að glæpir Bush séu alþjóðlegir glæpir. Þannig sé skylda hvers ríkis að rétta yfir einstaklingum sem gerast sekir um slíka glæpi eða framselja þá einhverjum sem vill gera það. Frekari fylgiskjöl hafa verið send ríkislögreglustjóra en hópurinn býst þó hvorki við mjög skjótum eða góðum viðbrögðum. Elías Davíðsson er nokkurs konar sjálfmenntaður sérfræðingur í alþjóðarétti. Greinar hans hafa birst í erlendum lagatímaritum og hann beðinn um að halda fyrirlestra á ráðstefnum víða um heim.

Undanþága á hámarksgjaldi

Samkeppniseftirlitið hefur veitt bæði leigubifreiðastöðinni Hreyfli og BSR í Reykjavík, undanþágu til að setja hámarksgjald fyrir akstur með bílum þeirra. Samkeppniseftirlitið hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki í verkahring þess að samþykkja hámarkstaxta fyrir leigubifreiðar. Leigubílstjórar óttuðust margir að þetta myndi leiða til öngþveitis, þegar einstakir bílstjórar færu að setja upp verð fyrir þjónustu sína. Undanþágan er háð þeim skilyrðum að hagsmunafélag bílstjóra hjá leigubifreiðastöðvunum samþykki hámarksgjaldið. Þá verði verðskráin birt með áberandi hætti í leigubifreiðunum.

Skapa verður þjóðarsátt um matvælaverð

Ögmundur Jónasson, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, segir að skapa verði þjóðarsátt um lækkun matvælaverðs á Íslandi. Ekki dugi að ná saman um verð á innlendum matvælum, heldur verði líka að grípa til aðgerða til að lækka verð á innfluttum matvörum.

Von á fleiri aðgerðum

Rúmlega þrjátíu starfsmenn hafa sagt upp störfum hjá Svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra til að mótmæla hægagangi í kjaraviðræðum við ríkið. Sarfsmenn Styrktarfélags vangefinna hyggja einnig á aðgerðir.

Verslunareigendur óánægðir með ábyrgðartíma

Verslunareigendur eru verulega óánægðir með nýleg lög um breyttan ábyrgðartíma söluvöru. Á fundi í morgun kom fram að þeim þyki lögin ganga of langt. Þeir segja starfsfólk sett í afar erfiða stöðu þegar óánægðir viðskiptavinir krefjast endurborgunnar og vitna í lögin. Hin svo kallaða fimm ára kvörtunarregla á aðeins við um vörur sem ætlaður er langur endingartími. Einnig á ábyrgðin aðeins við ef um framleiðslugalla á vörunni er að ræða. Samtök verslunar og þjónustu boðuðu til fundar í morgun, þar sem farið var yfir áhrif laganna, en þau hafa verið í gildi í þrjú ár. Ekki eru allir á eitt sáttir við áhrif laganna. Ingvi I Ingason verslunareigandi Rafha segir lögin einfaldlega ekki ganga upp. Verslunareigendur telja að þeir beri skaða af lögunum. Þeir fái ekki sömu ábyrgð hjá erlendum framleiðendum og þeir þurfi að veita hér. Venjulegur ábyrgðartími sé eitt ár. Ólöf Embla Einarsdóttir, lögfræðingur iðnaðar-og viðskiptaráðuneytisins bendir hins vegar á að tilgangur laganna sé að styrkja stöðu neytenda og tryggja að þeir geti sótt bætur vegna gallaðrar vöru. Samtök verslunar og þjónustu hafa áhyggjur af þróun mála. Sérstaklega í ljósi þess að neytendur virðis oft ekki gera sér grein fyrir að ábyrgðin verði aeins virk ef um gallaða vöru sé að ræða. Verslunarmenn segja þennan miskilning koma æ meira í ljós í viðskiptum. Iðnaðar-og viðskiptaráðuneytið hefur skipað sérstaka úrskurðarnefnd sem ætlað er að skera úr álitamálum en óhætt er að reikna með mörgum slíkum þar sem kaupendur og seljendur eru sjaldnast sammála.

Tveir í áfram gæsluvarðhaldi vegna skotárásar

Tveir voru í dag úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 29. næsta mánaðar í tengslum við rannsókn á skotárás í Hafnarfirði í júní. Einum manni var sleppt úr haldi. Skotárásin átti sér stað þann 21. júní síðastliðinn en þá var tveimur skotum hleypt af inn í íbúðarhús en þrír voru innandyra.

Landsbankinn að taka um 29 milljarða króna lán

Landsbanki Íslands er að vinna að töku þriggja ára sambankaláns en upphæð lánsins er 300 milljón evrur eða um 29 milljarðar íslenskra króna. Í tilkynningu frá bankanum segir að eftirspurn eftir þáttöku í láninu hafi verið mikil strax á fyrstu stigum. Gert er ráð fyrir að lántöku ljúki fyrir lok júnímánaðar.

Actavis markaðssetur ný lyf í Bandaríkjunum

Actavis hefur sett á markað fimm ný samheitalyf í Bandaríkjunum. Lyfin munu styðja vel við vöxt félagsins á markaðnum. Bandaríkjamarkaður er í dag stærsti lyfjamarkaður heims og samsvarar sala þar um helming af allri neyslu lyfja í heiminum.

Blaðastríð í Danaveldi

Blaðastríð er í uppsiglingu í Danmörku. Skandinavíudeild 365 miðla ætlar að hefja dreifingu á dönsku Fréttablaði í ágúst. Eitt stærsta útgáfufélag Danmerkur ætlar að setja á fót fríblað til höfuðs blaði 365. Nýr breskur eigandi Orkla Media segist tilbúinn í blaðastríð á danska fríblaðamarkaðnum.

Óánægðir með ábyrgðartímann

Stjórnendur verslana eru óánægðir með ný lög sem kveða á um að í sumum tilvikum sé ábyrgðartími vegna framleiðslugalla vöru fimm ár þrátt fyrir að almennt gildi tveggja ára ábyrgðartími. Þetta kom fram á fundi Samtaka verslunar og þjónustu og að mati samtakanna mun þessi breytti ábyrgðartími valda verðhækkunum þar sem ábyrgðartími seljanda verður lengri en framleiðanda. Lögin voru kynnt á fundinum og kærunefnd sem úrskurðar í málinu.

Fjögurra mánaða fangelsi fyrir ítrekuð afbrot

Karlmaður á fertugsaldri var gær dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ítrekuð brot. Þau sem hann var ákærður fyrir voru fjársvik, varsla stolins varnings, umferðarlagabrot, þjófnaðir og fíkniefnabrot. Honum var einnig gert að greiða rúmlega 800 000 krónur í skaðabætur. Brotinn játaði maðurinn og var það virt honum til refsilækkunar. Hann á að baki langan sakaferil, allt frá árinu 1988, en frá því ári hefur hann hlotið 9 refsidóma fyrir ýmis afbrot. Síðast hlaut hann dóm 8. febrúar á þessu ári en þá var hann dæmdur til að sæta 14 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot.

Hægt að skoða gögn óháð stað og stund

Og Vodafone hefur hafið sölu á Nokia farsímum sem búa yfir BlackBerry lausn (BlackBerry Connect) sem gerir farsímanotendum mögulegt að fá tölvupóst, dagbókina, tengiliðalista og aðrar upplýsingar beint í símtækið. Um er að ræða lausn sem virkar fyrir ákveðnar gerðir Nokia farsíma og farsíma með Microsoft stýrikerfi.

Fíkniefnafundur á Dalvík

Lögreglan á Akureyri sleppti í gær tveimur mönnum sem handteknir voru á Dalvík í fyrrakvöld, eftir að 25 grömm af hassi fundust í neytendaumbúðum í bíl þeirra. Við húsleit heima hjá öðrum þeirra fundust 25 grömm til viðbótar og eitthvað af hvítu efni, sem talið er vera afetamín eða kókaín. Mennirnir , sem báðir hafa áður gerst brotlegir við fíkniefnalöggjöfina, voru yfirheyrðir ítarlega áður en þeim var sleppt, en rannsókn málsins verður fram haldið.-

Gistinóttum fjölgar um allt land

Gistinóttum á hótelum í maí síðastliðnum fjölgaði um 17 prósnet miðað við sama mánuð í fyrra, eða um 15 þúsund. Þær urðu nú rúmlega 102 þúsund. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum, en hlutfallslega mest á Austurlandi. Fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu, þar sem lang mesta framboðið er, nam tuttugu og einu prósenti, eða tæpum þrettán þúsundum, sem er bróðuparturinn af allri fjölguninni. Alla fjölgunina og gott betur má rekja til útlendinga, því gistinóttum íslendinga fækkaði um tvö og hálft prósent.

Dansað á götum Ítalíu

Tugþúsundir Ítala þustu út á götur Rómarborgar í gær og fögnuðu sigri Ítala á Þjóðverjum í undanúrslitum HM í knattspyrnu. Leikurinn, sem var æsispennandi, fór í framlengingu og þegar allt útlit var fyrir að úrslit réðust í vítaspyrnukeppni skoruðu Ítalar tvö mörk á lokamínútu framlengarinnar. Stemmningin á Ítalíu var gríðarleg. Þokulúðrar voru þeyttir, kveikt var á blysum og dansað um götur borgarinnar. Í Þýskalandi leyndu vonbrigðin sér ekki þegar ljóst var að lið þjóðverja spilar ekki til úrslita á HM að þessu sinni en miklar vonir voru bundnar við að Þýskaland yrði heimsmeistarar á heimavelli sínum.

Sprengt í Kabúl

Þrjár sprengjur sprungu í Kabúl höfuðborg Afganistan í morgun með þeim afleiðingum að einn lést og 47 særðust alvarlega. Fyrri sprengjunni hafði verið komið fyrir í innkaupakerru og sprakk þegar rúta, full af opinberum starfsmönnum ók framhjá. Seinni sprengjan sprakk nærri herrútu í miðri borginni en henni hafði verið komið fyrir í ruslatunnu en þeirri þriðju var einnig beint gegn hermönnum. Ekki er vitað hverjir stóðu að tilræðunum en hart hefur verið sótt að talibönum í suðurhluta landsins og því er talið að þeir eigi hlut að máli.

Komst á loft

Brot af einangrunarfroðu féllu af eldsneytistanki Discovery geimferjunnar nokkrum mínútum eftir að hún fór á loft í gærkvöldi. Að sögn talsmanns bandarísku geimferðarstofnunarinnar, NASA eru brotin ekki talið það stór að þau geti valdið skemmdum á geimferjunni. Geimskotið í gær er það fyrsta á þessu ári og aðeins annað skot frá því Columbia-geimflaugin fórst fyrir þremur árum með sjö innanborðs. Fresta þurfti skoti Discovery tvívegis um helgina vegna veðurs og í raun var óvíst hvort hægt yrði að skjóta geimflauginni á loft í gær þegar sprunga fannst í einangrun á ytri eldsneytisgeymi geimflaugarinnar.

Varnarliðið hundsar allar launahækkanir

Varnarliðið hefur hundsað allar launahækkanir sem nokkrir verkamenn og vélamenn á Keflavíkurflugvelli áttu að fá frá síðustu áramótum, samkvæmt ákvörðun kaupskrárnefndar varnarsvæða. Að sögn Kristjáns Gunnarssonar hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis er þetta áþekk staða og upp kom fyrir um tveimur árum þegar félagið þurfti að höfða mál á hendur utanríkisráðuneytinu fyrir umþaðbil 30 einstaklinga, sem ekki fengu laun samkvæmt ákvörðun nefndarinnar.

Fordæma eldflaugaskot Norður Kóreumanna

Ríkisstjórn Suður Kóreu hefur fordæmt tilraunaskot Norður Kóreumanna í gærkvöldi og mun koma saman til neyðarfundar í dag vegna málsins. Norður kóreamenn skutu sex eldflaugum í gærkvöld í tilraunaskyni, þar af er talið að ein hafi verið langdræg flaug. Að sögn Bandarískra embættismanna bilaði hún hins vegar en flaugar af þessari gerð eru taldar geta náð til Alaska. Hinar flaugarnar, sem skotið var á loft, enduðu í Japanshafi en Japanir eru ósáttir við tilraunir norður kóreumanna og sagði Shinso Abe, forseti japanska þingsins að þær ógnuðu friði og stöðugleika á svæðinu. Líklegt þykir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna komi saman til neyðarfundar vegna málsins en John Bolton, sendifulltrúi Bandaríkjanna hjá Öryggisráðinu segist nú ráðfæra sig við fulltrúa þeirra ríkja sem eiga sæti í ráðinu og að ekkert hefði verið ákveðið um það hvort boðað yrði til fundar.

Sjá næstu 50 fréttir