Innlent

Kærir Bush fyrir stríðsglæpi

Elías Davíðsson hefur kært George Bush eldri fyrir glæpi gegn mannkyni.
Elías Davíðsson hefur kært George Bush eldri fyrir glæpi gegn mannkyni. MYND/VALLI

George Bush eldri hefur verið kærður til íslenskra yfirvalda fyrir glæpi gegn mannkyni og árásarstríð.

Á heimasíðunni aldeilis.net birtist kæran í heild sinni. Hún er gefin út af hópi áhugafólks um mannréttindi og réttlæti. Höfundur kærunnar er Elías Davíðsson og skrifar hann undir fyrir hönd kærenda. Kæran var afhent ríkislögreglustjóra á mánudaginn.

Bush er kærður fyrir margvíslega alþjóðaglæpi og þess er krafist að hann verði kyrrsettur hér á landi á meðan aðild hans að glæpunum er rannsökuð. Bush er sagður hafa gerst sekur um brot gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingi, brot gegn almennum borgurum, árásarstríð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Glæpina hafi hann framið þegar hann fyrirskipaði innrásina í Panama 1989 þar sem skipt var um stjórnvöld og í Persaflóastríðinu.



Kæran er ítarlega rökstudd og er þar tekið fram að glæpir Bush séu alþjóðlegir glæpir. Þannig sé skylda hvers ríkis að rétta yfir einstaklingum sem gerast sekir um slíka glæpi eða framselja þá einhverjum sem vill gera það.

Frekari fylgiskjöl hafa verið send ríkislögreglustjóra en hópurinn býst þó hvorki við mjög skjótum eða góðum viðbrögðum.

Elías Davíðsson er nokkurs konar sjálfmenntaður sérfræðingur í alþjóðarétti. Greinar hans hafa birst í erlendum lagatímaritum og hann beðinn um að halda fyrirlestra á ráðstefnum víða um heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×