Innlent

Forseti Grikklands kominn til landsins

Karolos Papoulias og eiginkona hans, May Papoulia, lentu í nepjunni á Reykjavíkurflugvelli á sjötta tímanum í dag.
Karolos Papoulias og eiginkona hans, May Papoulia, lentu í nepjunni á Reykjavíkurflugvelli á sjötta tímanum í dag. MYND/NFS

Forseti Grikklands kom í opinbera heimsókn til Íslands í dag. Hann mun ekki munda veiðistöng í heimsókn sinni líkt og fyrrverandi Bandaríkjaforseti, en er þó afreksmaður þegar kemur að annars konar stöng.

Karolos Papoulias og eiginkona hans, May Papoulia, lentu í nepjunni á Reykjavíkurflugvelli á sjötta tímanum í dag. Heimsóknin hefst hins vegar ekki að nafninu til fyrr en í fyrramálið með hátíðlegri móttökuathöfn á Bessastöðum þar sem Papoulias mun ræða við forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, og munu forsetarnar svo ræða við fréttamenn að loknum fundi sínum.

Frá Bessastöðum halda grísku forsetahjónin í Þjóðminjasafnið en þau munu svo snæða hádegisverð í Höfða í boði Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra þar sem Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður mun flytja erindi um sóknarfæri í evrópsku viðskiptalífi.

Eftir hádegi er för forsetahjónanna svo heitið til Suðurnesja þar sem þau munu meðal annars kynna sér saltfisksverkun og Hitaveitu Suðurnesja. Annað kvöld sitja þau svo hátíðarkvöldverð á Bessastöðum í boði íslensku forsetahjónanna.

Papoulias er 77 ára að aldri og er lögfræðingur að mennt. Hann átti meðal annars sæti á gríska þinginu í 27 ár og var utanríkisráðherra Grikklands í tvígang, fyrst frá 1985 til 1990 og svo frá ´93 til ´96. Hann var svo kjörinn forseti landsins með miklum yfirburðum árið 2004.

Ekki fer mörgum sögum af laxveiðiáhuga forsetans líkt og í tilviki George Bush eldri, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem kom hingað til lands í gær. Hins vegar má geta þess að Papoulias hefur getið sér gott orð fyrir færni sína með annars konar stöng því hann er fyrrverandi Grikklandsmeistari í stangarstökki.

Heimsókn Grikklandsforseta lýkur á föstudagskvöld með kvöldverði í boði sendiherra Grikklands á Íslandi. Forsetinn fer svo af landi brott á laugardagsmorgun.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×