Lífið samstarf

„Geðrækt þarf ekki að vera flókin“

Geðhjálp
Í dag hefst árlegt geðræktarátak Geðhjálpar sem nefnist G-vítamín. Guðný Guðmundsdóttir er verkefnastjóri hjá Geðhjálp.
Í dag hefst árlegt geðræktarátak Geðhjálpar sem nefnist G-vítamín. Guðný Guðmundsdóttir er verkefnastjóri hjá Geðhjálp.

Geðhjálp stendur árlega fyrir geðræktarátakinu G-vítamín sem er ætlað að styrkja geðheilsu landsmanna en um leið að fyrirbyggja bresti og verja okkur í mótbyr. Átakið hefst alltaf í upphafi þorra, á bóndadeginum en með daglegri inntöku G-vítamíns myndum við sterkara ónæmi, því þessi einföldu ráð eru verndandi þættir geðheilsu.

„Skammdegið skellur oft þungt á mörgum landsmönnum í janúar,“ segir Guðný Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Geðhjálp. „Árlegt svar okkar hjá Geðhjálp er G-vítamín sem er byggt á Geðorðunum 10 og 14 Lífsorðum Héðins Unnsteinssonar og Þórdísar Rúnarsdóttur. Markmiðið eins og fyrri ár er að setja geðrækt á oddinn og árétta mikilvægi hennar hvern dag. Átakið stendur yfir í 30 daga og hefst í dag bóndadag. Fyrsta G-vítamín átaksins er Hugsum jákvætt, það er léttara sem er gott dæmi um hvað litlu hlutirnir í lífinu geta skipt miklu máli.“

Við höfum ólíkar þarfir

Guðný segir mikilvægt að koma því á framfæri að við séum öll ólík og það sem virkar fyrir einn virkar ekki endilega fyrir einhvern annan. „Ég rækta mína geðheilsu með því að lesa, fara í stuttan göngutúr eða sund, þá aðallega til þess að sitja í heitu pottunum og slaka á. Mér finnst gott að hvílast með því að setjast niður í kyrrð og hugleiða. Öðrum finnst til dæmis afslappandi að elda, þó að ég sé ekki ein af þeim. Ég þurfti að læra að gera ekki endilega það sem aðrir segja að sé gott fyrir mann, heldur að finna út úr því hvað hentar mér. Sumum hentar að gera eitthvað með öðru fólki, til dæmis að hitta vini eða fjölskyldu, fara á tónleika eða aðra viðburði.“

Í ár býðst öllum að ná sér í skjáhvílu með hvetjandi skilaboðum til að minna sig á það sem máli skiptir. Skjáhvíluna ásamt leiðbeiningum um hvernig megi hlaða henni niður er að finna á gvitamin.is. „Á hverjum degi átaksins munum við birta daglega góð ráð á gvitamin.is, Facebook og Instagram en einnig er hægt að skrá sig og fá ráðlagðan G-vítamín skammt í tölvupósti þátttakendum að kostnaðarlausu.“

Ekki setja of mikla pressu

Sjálfri finnst Guðnýju þessi tími árs vera krefjandi. „Það er áskorun að takast á við myrkrið og kuldann, en þá er einmitt mikilvægt að hugsa vel um geðheilsuna. Það er líka gott að hafa það í huga að setja ekki of mikla pressu á sig. Síðastliðna daga hef ég fundið hjá mér þörf fyrir að skríða undir teppi til þess að hlýja mér, með heitt te mér við hlið. Geðrækt þarf ekki að vera flókin.“

Það má heldur ekki gleyma því að náttúran liggur í dvala á þessum tíma árs. „Það er ekki skrýtið þó að við mannfólkið finnum hjá okkur tilhneigingu til þess líka. Það þarf ekki alltaf að afreka eitthvað stórkostlegt hverja stund.“

Hver sem er getur upplifað vanlíðan

Geðheilsuvandi fer ekki í manngreinarálit og hver sem er getur upplifað vanlíðan á einhverjum tímapunkti ævinnar. Geðrænn vandi er jafnframt algengasta orsök þess að fólk fái endurhæfingar- og örorkulífeyri. Reikna megi með að fjórða hver manneskja muni ganga í gegnum það krefjandi tímabil á ævinni að viðkomandi leiti sér aðstoðar og fái greiningu.

„Ég hvet því sem flesta landsmenn til að taka þátt í átakinu með okkur. G-vítamín er til þess gert að minna okkur á að við erum öll með geð og þurfum öll að hlúa að því, sérstaklega í skammdeginu. Það er gott að byrja á því að leyfa sér að vera nákvæmlega þar sem maður er.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.