Lífið samstarf

Útreiðartúrinn leiðir les­endur inn í flókið net fjöl­skyldu, vin­áttu og leyndar­mála

Forlagið
„Sagan segir frá fjölskyldum sem eiga á hættu að sundrast eða gera það í raun,“ segir Ragna Sigurðardóttir um nýjustu skáldsögu sína Útreiðartúrinn.
„Sagan segir frá fjölskyldum sem eiga á hættu að sundrast eða gera það í raun,“ segir Ragna Sigurðardóttir um nýjustu skáldsögu sína Útreiðartúrinn. Mynd/Gassi.

Nýjasta skáldsaga Rögnu Sigurðardóttur ber nafnið Útreiðartúrinn og er áhrifarík samtímasaga með djúpar rætur í fortíðinni. Þetta er saga af flóknu feðgasambandi og af vináttu sem ekki er öll þar sem hún er séð; ljúfsárt og heillandi ferðalag um gamlar og nýjar slóðir.

„Sagan segir frá fjölskyldum sem eiga á hættu að sundrast eða gera það í raun,“ útskýrir Ragna þegar hún er spurð hvaðan hugmyndin af bókinni kemur. „Í forgrunni eru feðgarnir Sævar og Pétur en í gegnum alla söguna reynir Sævar allt hvað hann getur að halda fjölskyldu sinni saman. Þetta er söguefnið og hvaðan það nákvæmlega kom er erfitt að segja, en spurningin sem leitaði á mig var þessi: Hvað gerir maður þegar einhver sem er mjög náinn manni sýnir á sér nýjar og kannski óvelkomnar hliðar? Hvaða áhrif hefur það? Hversu langt er hægt að ganga í því að koma í veg fyrir að fjölskyldubönd rofni?“

Samhliða því að hún vildi skrifa um þetta efni var hún einnig með sögupersónur í huga: Guðnýju, litunarkonu norður í landi, en litunarkona er sú sem litar ullarband með jurtalitum. „Í sögunni kynnist hún manni að sunnan og heldur með honum á Álftanes þar sem framtíðin bíður þeirra, en hlutirnir fara ekki eins og hún hafði séð fyrir sér. Ég sá líka fyrir mér mann að byggja hús á áttunda áratugnum, þegar fólk var mikið í að byggja svolítið sjálft, naglhreinsa og svona um helgar. Þessi maður, Bergur, fórnaði miklu til þess að halda fjölskyldu sinni allri saman undir einu þaki en enginn hafði beðið hann um það og hann fékk litlar þakkir fyrir.“

Efst í huga hennar voru svo þeir feðgar Sævar og Pétur. „Ég vissi að eitthvað var að hjá þeim en vissi ekki hvað. Ég vissi ekki heldur hvernig sögur þessa fólks tengdust, ekki fyrr en ég sá feðgana fyrir mér, á gangi hérna úti á Jörfaveginum á Álftanesi. Þeir birtust mér, eins og sögupersónur gera. Þá vissi ég að þetta fólk átti Álftanesið sameiginlegt og sagan rauk svolítið af stað við það. Síðan þegar ég fór að skrifa sögurnar sá ég hvernig kynni Sævars í samtímanum við sögur fortíðar höfðu áhrif á samband hans við Pétur, son sinn.“

Sjálf þekkir Ragna sögusviðið Álftanes vel enda búið þar í 25 ár. „Ég er nálægt sjónum og svolítið út úr aðalhverfinu og nýt þess að hafa ósnerta móa, Kasthústjörnina og mikið fuglalíf hér allt í kring. Álftanesið er alveg sérstakur staður og á þeim tíma sem ég hef búið hér er mér farið að þykja mjög vænt um það. Eins og ég skrifa um í bókinni birtir yfir þegar keyrt er út úr Gálgahrauninu og út á nesið þar sem sjórinn er beggja vegna, tilfinningin að vera komin út úr borginni er sterk.“

„Álftanesið er alveg sérstakur staður og á þeim tíma sem ég hef búið hér er mér farið að þykja mjög vænt um það," segir Ragna en sögusvið bókarinnar eru einmitt heimaslóðir hennar á Álftanesi.

Þú hefur sent frá þér m.a. prósastykki, ljóðabækur skáldsögur. Megum við búast við álíka fjölbreytni frá þér næstu árin?

„Þegar ég var að byrja að skrifa var ég alls ekki viss um að ég vildi verða rithöfundur. Ég lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskólanum þar sem ég var í nýlistadeild og fór síðan í framhaldsnám til Hollands. Í þessum skólum lærði ég fyrst og fremst að skapa og þetta var mjög góður tími. Ég byrjaði þá að vinna textaverk í myndlistinni sem ég setti fram á ýmsa vegu og gaf sjálf út tvær bækur með stuttum prósaljóðum.“

Hún fann fljótt að hún vildi vinna með texta og þá var nærtækara að skrifa bækur en að brasa áfram með texta í myndlistarrými þótt hún hafi líka unnið nokkur slík verk. „Fyrsta skáldsaga mín, Borg, var brotakennd í formi og þótti tilraunakennd. Í kjölfar hennar hef ég skrifað átta skáldsögur og eitt sagnasafn, með löngum smásögum; Vetrargulrætur. Ég held að þegar ég skrifaði Borg hafi ég að einhverju leyti fengið útrás fyrir tilraunir með texta í ólíku formi og eftir það kallaði það meira á mig að vinna með persónusköpun og lengri, samfelldan texta. Það er þó þannig að hver bók kallar á sitt form og sína byggingu sem er órjúfanlegur hluti af verkinu. Nú er ég að skrifa nýja bók og hún þarf að finna sinn farveg en hún er líka skáldsaga og gerist hér á Álftanesi eins og Útreiðartúrinn.“

Hvað ertu helst að lesa þessa dagana og hvaða nýju bókum ertu spenntust fyrir?

„Síðustu ár hef ég hrifist af nokkrum höfundum umfram aðra. Ég get nefnt til dæmis Elizabeth Strout sem skrifaði meðal annars bókina Olive Kitteridge en eftir henni hefur verið gerð sjónvarpssería. Hún er dásamlegur höfundur. Persónusköpun tveggja afrískra höfunda hefur höfðað mikið til mín, þeirra Chimamanda Ngozi Adichie og Abdulrazak Gurnah en hann fékk Nóbelsverðlaunin fyrir fáeinum árum og tvær af bókum hans, Paradís og Malarhjarta hafa verið þýddar á íslensku.

Í þessu flóði eru svo eins og alltaf spennandi bækur. Ég hlakka til að lesa Sólmánuð, þriðju bók Kristínar Ómarsdóttur í Móðurástarbókaröð hennar. Eins bók Nínu Ólafsdóttur Þú sem ert á jörðu. Ég er líka forvitin að lesa ljóðabók Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur, Lífið er undantekning en bók hennar Sólrún snerti mig mjög. Mig langar í raun að lesa flestar þeirra skáldsagna og ljóðabóka sem eru að koma út, við eigum svo fjölbreytta og flotta höfunda. Að lokum langar mig að nefna bók Hildar Hákonardóttur um birkitréð, hún er á óskalistanum hjá mér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.