Sport

Ís­björninn segir að hann myndi klára Jake Paul í þremur lotum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Kristinsson er klár í slaginn fyrir bardagann í Finnlandi.
Kolbeinn Kristinsson er klár í slaginn fyrir bardagann í Finnlandi. Vísir/Sigurjón

Íslenski atvinnumaðurinn í hnefaleikum, Kolbeinn Kristinsson, er á lokametrunum í undirbúningi sínum fyrir næsta bardaga sem fram fer í Finnlandi í lok mánaðarins. Stefán Árni Pálsson fór að hitta hann á æfingu fyrir bardagann.

Kolbeinn mætir Pedro Martinez frá Venesúela, 29. nóvember. Þetta verður annar bardagi Kolbeins á árinu. Í þeim fyrsta tryggði hann sér WBF heimsmeistarabelti í þungavigtarflokki með sigri á Mike Lehnis.

Kolbeinn, sem kallar sig Ice Bear eða Ísbjörninn, er enn ósigraður á sínum ferli en hann hefur unnið átján bardaga í röð. Hann ætlar sér að bæta við þeim nítjánda gegn Martinez sem hefur unnið fjórtán bardaga en tapað fjórum sinnum á atvinnumannaferli sínum.

Það hefur samt gengið erfiðlega fyrir Kolbein að fá bardaga upp á síðkastið, en menn virðast tregir til að mæta Íslendingnum í hnefaleikahringnum. Ætli góður árangur hans upp á síðkastið spili ekki þar inn í?

Pedro er tíundi andstæðingurinn sem Kolbeinn fór í almennilegar viðræður við um bardaga.

Í vandræðum að finna andstæðing

„Einn af okkar allra bestu hnefaleikaköppum er að fara í hringinn eftir nokkra daga. Hann er á leið til Finnlands en hefur verið í vandræðum með að fá alvöru andstæðing og spurning hvernig þessi verður,“ sagði Stefán Árni.

„Hann er svona hreyfanlegur boxari, slunginn og grjótharður. Ég býst bara við hörkubardaga,“ sagði Kolbeinn.

Það hefur verið smá vesen fyrir Kolbein að fá bardaga. „Jú, það hefur verið heilmikið bras,“ sagði Kolbeinn en af hverju er það?

Meiri áhætta að berjast við hann

„Þetta er svona ‚risk/reward' dæmi hjá andstæðingunum. Það er oft meiri áhætta fyrir þá að berjast við mig og tapa heldur en þeir græða á því að vinna mig. Þannig að ég er kominn á svona erfiðan stað,“ sagði Kolbeinn sem ætlar að reyna komast að í Bretlandi sem gæti opnað fyrir hann dyr.

„Þú ert ekkert að fara að tapa viljandi til að reyna að fá betri bardaga,“ spurði Stefán.

„Nei en ég myndi örugglega fá fleiri tilboð ef ég tapa, en það er ekkert planið,“ sagði Kolbeinn.

Ekki á hans ‚leveli' í boxi

Stefán spurði hann líka út í stórar fréttir í hnefaleikaheiminum sem eru að Anthony Joshua sé að fara að berjast við Jake Paul. „Mig langaði svona að spyrja þig, hvernig heldurðu að þér myndi ganga með Jake Paul,“ spurði Stefán.

„Ég myndi stoppa hann í minna en þremur lotum. Alveg klárlega. Hann kann alveg að boxa. Hann er alveg búinn að vera í stífum æfingabúðum með alvöru þjálfara. Það eru ‚levels' í boxi og hann er ekki á mínu,“ sagði Kolbeinn.

Myndi hann þá standa sig betur en Jake Paul í þessum bardaga?

„Joshua er einn af draumaandstæðingunum. Ég væri til í að berjast við Joshua á morgun,“ sagði Kolbeinn og hann stefnir á toppinn.

„Ég vil bara berjast við alla. Ég er tilbúinn að berjast við hvern sem er,“ sagði Kolbeinn en það má sjá viðtalið við hann hér fyrir ofan.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×