Upp­gjörið: Breiða­blik - Víkingur 1-2 | Glæsi­mark hjá Tarik gerði skrá­veifu í Evrópudraum Blika

Hjörvar Ólafsson skrifar
Tarik Ibrahimagic skoraði sigurmark Víkgins í leiknum. 
Tarik Ibrahimagic skoraði sigurmark Víkgins í leiknum.  Vísir/Pawel

Víkingur bar sigur úr býtum, 2-1, þegar liðin áttust við í 26. og næstsíðustu umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Það var Tarik Ibrahimagic sem tryggði Víkingi sigurinn og stigin þrjú með stórglæsilegu marki.

Fyrri hálfleikurinn var hraður, vel spilaður og skemmtilegur þar sem bæði lið fengu fínar stöður til þess að skapa færi og marktækifæri.

Atli Þór Jónasson, sem leiddi framlínu Víkings í þessum leik, fékk tvö frábær færi í fyrri hálfleik. Í bæði skiptin var það Valdimar Þór Ingimundarson sem setti Atla Þór í gegn og í bæði skiptin varði Anton Ari Einarsson frábærlega frá framherjanum stóra og stæðilega.

Kristinn Jónsson var með áætlunarferðir upp vinstri vænginn í þessum leik og skapaði nokkrum sinnum hættur með fyrirgjöfum sínum. Þá fengu Blikar fjölmörg horn og Höskuldur Gunnlaugsson náði í nokkur skipti að skapa usla með spyrnum sínum úr horninu.

Kristinn Jónsson var sókndjarfur í vinstri bakverðinum hjá Blikum. Vísir/Pawel

Það var svo Viktor Karl Einarsson sem náði forystunni fyrir Breiðablik í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Viktor Karl skapaði sér skotfæri við vítateigslínuna og skoraði með hnitmiðuðu skoti í nærhornið.

Tempóið minnkaði aðeins í seinni hálfleik sem varð meiri refskák. Eftir eitt af fjölmörgum hornspyrnu Breiðabliks vann Víkingur boltann, Viktor Örlygur Andrason setti boltann í hlaupaleiðina fyrir Óskar Borgþórsson sem hljóp með boltann hálfan völlinn og kláraði færið af stakri prýði. 

Óskar Borgþórsson geystist upp hægri kantinn og jafnaði metin fyrir Víking. Vísir/Pawel

Það var svo Tarik Ibrahimagic sem skoraði sigurmark Víkings með snyrtilegu skoti af rúmlega 20 metra færi sem snérist upp í samskeytin fjær um það bil stundarfjórðungi fyrir leikslok. 

Þorleifur Úlfarsson kom svo inná sem varamaður tæplega hálftíma fyrir leikslok og hann kom inná af krafti. Þorleifur fékk tvö góð færi til þess að jafna metin en hann náði ekki að setja boltann í netmöskvana. 

Blikar eru tveimur stigum á eftir Stjörnunni en liðin eru í þriðja og fjórða sæti deildarinnar að berjast um sæti í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á næstu leiktíð. Breiðablik þarf nú að treysta á það að Fram taki stig af Stjörnunni þegar liðin leiða saman hesta sína á mánudagskvöldið kemur. 

Sölvi Geir Ottesen á hliðarlínunni í Kópavogi í kvöld. Vísir/Pawel

Sölvi Geir: Ánægður að það sé enn hungur í leikmönnum og stuðningsmönnum

„Ég er fyrst og fremsta bara virkilega ánægður með sigurinn. Það er gríðarlega kærkomið að ná loksins að landa sigi gegn Blikum í deildinni á Kópavogsvelli. Það gerðist síðast árið 2017 en þá var Viktor Bjarki á varamannabekknum. Það er gott að ná að grafa þessa grýlu,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, að leik loknum. 

„Við gáfumst ekkert upp þrátt fyrir að lenda undir og snérum þessu okkur í vil. Við héldum áfram að sækja á þá og uppskárum tvö mörk fyrir vinnusemi okkar og sóknarþunga. Það var mikill barningur og kannski lítið um fínt spil. Þetta var jafn leikur sem hefði getað endað með sigri á báða bóga, sem betur höfðum við vinninginn,“ sagði Sölvi Geir enn fremur. 

„Mig langar að nefna það líka og þakka fyrir þann frábæra stuðning sem við fengum í þessum leik. Margir myndu halda að leikmenn og stuðningsmenn væru saddir eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en það var ekki uppi á teningnum í þessum leik,“ sagði hann um Víkinga innan vallar og utan. 

„Við erum með leikmannhóp sem mætir á hverja æfingu með það mindset að bæta sig með hverju verkefni. Þegar þú nærð að þróa það þá smitar það út í leikina. Nú förum við í síðasta verkefni tímabilsins og klárum það með stæl,“ sagði Sölvi Geir. 

Halldór: Færum þeim jöfnuarmarkið á silfurfati

„Ég er að sjálfsögðu vonsvikinn með að tapa. Mér fannst mér við ekki eiga það skilið að tapa þessum leik. Frammistaðan hefði átt að skila jafntefli allavega og mögulega sigri. Niðurstaðan er vonbrigði en spilamennskan var flott úti á vellinum,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks. 

„Það eru gæði í þeirra liði sem gera gæfumuninn að þessu sinni. Það var lítið við markinu sem Tarik skoraði en ég er ósáttur með aðdragandann að jöfnunarmarkinu sem Óskar skoraði. Við komum þeim inn í leikinn þar sem við færum þeim mark á silfurfati eftir hornspyrnu hjá okkur,“ sagði Halldór þar að auki. 

„Það er ekki boðlegt fyrir lið í okkar gæðaflokki að fá á okkur svona auðveld mörk þar sem við fá á okkur skyndisókn eftir fast leikatriði sem við eigum. Við fengum á okkar svipað mark í Sviss og við þurfum að læra af þessu,“ sagði hann. 

„Niðurstaðan er vonbrigði en mér fannst frammistaðan klárlega nægilega góð til þess að ná í góð úrslit. Við erum mikið með boltann inn í vítateig andstæðingann og erum að skapa okkur góðar stöður trekk í trekk. Það er vissulega áhyggjuefni að við náum ekki að nýta færin okkar og það hefur svolítið verið sagan í síðustu leikjum okkar. Nú er Evrópusætið ekki ennþá í okkar höndum og við þurfum að treysta á hagstæð úrslit á mánudaginn,“ sagði Halldór um stöðu mála.

Halldór Árnason var ósáttur við aðdragandann að markinu sem Óskar Borgþórsson skoraði. Vísir/Pawel

Atvik leiksins

Markið sem Tarik Ibrahimagic skoraði gladdi augað en hann skoraði svipað mark á móti Val fyrr í sumar. Óskar Borgþórsson sýndi það svo og sannaði í jöfnunarmarkinu að hann er frár á fæti. Þræðingar Gylfa Þórs og Valdimars Þór í gegnum vörn Breiðabliks voru einnig augnayndi. 

Stjörnur og skúrkar

Anton Ari varði tvisvar sinnum vel frá Atla Þór og gat ekkert gert í mörkum Víkings. Anton Logi Lúðviksson var einkar góður í stöðu djúps miðjumanns og batt saman uppspili Breiðabliks. Höskuldur Gunnlaugsson var svo eins og Duracell kanína inni á miðjunni og út um allan völl. 

Kristinn Jónsson ógnaði með hlaupum sínum og fyrirgjöfum utan af vinstri vængnum. Þorleifur hleypti svo lífi í sóknarleik Breiðabliks með innkomu sinni. 

Valdimar Þór Ingimundarson var frábær bæði í því að skapa stöður inni á miðsvæðinu og hlaupa í þær holur sem mynduðust í vörn Blika og búa til færi í kjölfarið. Boltinn flæddi svo fallega í gegnum Gylfa Þór Sigurðsson eins og endranær.

Helgi Guðjónsson stóð sig vel bæði í varnarleik og sóknarleik í vinstri bakverðinum. Tarik Ibrahimagic skoraði markið sem skildi sem skildi liðin að. Óskar Borgþórsson var svo hættulegur á vinstri kantinum og gerði vel í markinu sem hann skoraði. 

Valdimar Þór Ingimundarson var í essinu sínu í kvöld. Vísir/Pawel

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Ragnar Þór Bender, Þórður Arnar Árnason og Gunnar Oddur Hafliðason, létu leikinn flæða vel og gripu svo vel inn í þegar þess þurfti. Þeir félagar fá átta í einkunn fyrir vel unninn störf. 

Viðar Helgason sá svo til þess að leikurinn færi fram eftir kúnstarinnar reglum sem eftirlitsmaður KSÍ.

Stemming og umgjörð

Það var góð stemming í þokunni og mistrinu í Kópavogi í kvöld. Yfirbragðið á leiknum var ítalskt og fljóðljósin stóðu fyrir sínu að þessu sinni. Stuðningsmannasveitir beggja liða voru í stuði. Eins og alltaf fengu blaðamenn dýrindis hamborgara og nóg að súpa á meðan á leiknum stóð. Ekkert upp á Blika að klaga að vanda. 

Stuðningsmenn Víkings fóru sáttir frá Kópavogsvelli í kvöld. Vísir/Pawel

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira