Íslenski boltinn

„Mjög ljót meiðsli eftir slæma og ó­þarfa tæk­lingu“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nik Chamberlain segir skiljanlegt að lið Breiðabliks hafi verið í vægu áfalli eftir að hafa séð liðsfélaga sárkvalinn.
Nik Chamberlain segir skiljanlegt að lið Breiðabliks hafi verið í vægu áfalli eftir að hafa séð liðsfélaga sárkvalinn.

Breiðablik var yfir í hálfleik en tapaði 2-1 fyrir Stjörnunni eftir að hafa misst miðvörðinn Elínu Helenu Karlsdóttur út af vegna meiðsla.

Breiðablik var með yfirhöndina í fyrri hálfleik og leiddi með einu marki. Stjarnan hafði þá skapað sér fá færi og Elín Helena spilaði stóran þátt í því með sínum varnarleik.

Þegar hún vann boltann af gestunum úr Garðabæ í enn eitt skipti tók Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir til sinna ráða og tæklaði hana algjörlega að óþörfu.

Ingibjörg var ekki nálægt því að vinna boltann og Elín var alls ekki að búast við tæklingu á þessum tímapunkti. Elín féll því mjög harkalega til jarðar og handleggsbrotnaði.

Stjarnan sneri leiknum svo í seinni hálfleik og vann 2-1 sigur.

„Stelpurnar voru ólíkar sjálfum sér í kvöld, gerðu mörg mistök og vönduðu sig ekki þegar þær voru með boltann. Líklega voru þær í svolitlu áfalli eftir að hafa misst Elínu út af, þetta voru mjög ljót meiðsli eftir slæma og óþarfa tæklingu. Því miður fór þetta þannig“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, eftir leik.

Sjúkrabíll sótti Elínu og fór með hana á spítala.vísir / pawel

Höfðu meiðsli Elínar mikil áhrif á liðið í seinni hálfleik?

„Ég held það. Stelpurnar voru skelkaðar og maður sá að hugurinn var annars staðar en á vellinum, þó þær hafi reynt að einbeita sér að leiknum. Skiljanlega.

Vonandi jafnar hún sig fljótt, þó hún verði frá það sem eftir er af þessu tímabili. Við munum hrista hópinn saman og sjá til þess að við klárum þetta tímabil almennilega fyrir hana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×