Körfubolti

Stólarnir léku sér að eldinum en fylgja Grinda­vík í undanúr­slit

Sindri Sverrisson skrifar
Tindastóll byrjar árið 2026 á tveimur afar sætum sigrum.
Tindastóll byrjar árið 2026 á tveimur afar sætum sigrum. Tindastóll/Davíð Már

Grindavík og Tindastóll bættust í kvöld í hóp með Keflavík og verða með í fjögurra liða úrslitavikunni í VÍS-bikar kvenna í körfubolta. Ármann og Hamar/Þór spila svo um fjórða og síðasta farmiðann annað kvöld.

Keflavík sló Hauka út í dag með öruggum sigri og Tindastóll virtist einnig ætla að slá KR út með öruggum hætti á Sauðárkróki en sá leikur varð þó æsispennandi í lokin. Grindavík vann svo 1. deildarlið Aþenu.

Tindastóll var sextán stigum yfir fyrir lokaleikhlutann gegn KR í kvöld, 61-45, og komst svo í 66-45. Þá tók við hreint ótrúlegur kafli hjá gestunum sem skoruðu næstu tuttugu stig í röð og náðu að minnka muninn í eitt stig, þegar enn voru rúmar tvær mínútur eftir.

Sauðkrækingar voru hins vegar sterkari á lokakaflanum og Marta Hermida tryggði þeim sigurinn með tveimur vítaskotum þegar fjórtán sekúndur voru eftir, 72-68.

Hermida skoraði alls 30 stig í leiknum og Madison Sutton var með 16 stig og 11 fráköst. Hjá KR var Jiselle Thomas stigahæst með 16 stig og Molly Kaiser skoraði 15.

Beeman og Isabella með tröllatvennu

Grindavík var fimm stigum undir gegn Aþenu eftir fyrsta leikhluta, 26-21, en náði svo forystunni og var 39-35 yfir í hálfleik. Enn var spenna í leiknum fyrir síðasta leikhlutann, þegar staðan var 64-53, en Grindvíkingar gerðu þar út um leikinn og komust mest 19 stigum yfir, 80-61, en unnu 80-69.

Abby Beeman skoraði 23 stig, tók 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar fyrir Grindavík og Isabella Ósk Sigurðardóttir skoraði 17 stig og tók 12 fráköst. Hjá Aþenu var Katarzyna Trzeciak stigahæst með 21 stig og 9 fráköst en Jada Smith kom næst með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×