Erlent

Drekinn beraði víg­tennurnar

Samúel Karl Ólason skrifar
StiklurFókl

Kínverjar héldu í morgun stærðarinnar hersýningu í Peking þar sem nýjustu hergögn ríkisins voru opinberuð og mörg þeirra í fyrsta sinn. Þar sýndu ráðamenn í Kína aukinn hernaðarmátt ríkisins.

Hátíðin var haldin í tilefni af því að áttatíu ár eru liðin frá endalokum seinni heimsstyrjaldarinnar í Kína en Xi Jinping, forseti Kína, var einnig að halda ráðstefnu SCO, sem sótt var af mörgum þjóðarleiðtogum, sem flestir voru frá Asíu.

Sýningunni var meðal annars ætlað að fylla almenning í Kína af stolti og sannfæra hann um að Kínverjar gætu staðið af sér allar árásir.

Herafli Kína hefur á undanförnum árum og jafnvel áratugum gengist umfangsmikla uppbyggingu og nútímavæðingu. Aukinn hernaðarmáttur Kínverja og aðrar aðgerðir þeirra eins og ólöglegt tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs hefur leitt til áhyggja meðal nágranna Kína og í Bandaríkjunum.

Þetta var fyrsta stóra hersýningin í Kína frá árinu 2019, þegar haldið var upp á sjötíu ára afmæli Alþýðulýðveldið Kína.

Á um níutíu mínútum sýndu Kínverjar nýja dróna, bæði fljúgandi og kafandi, ofurhljóðfráar eldflaugar, skotflaugar sem geta borið kjarnorkuvopn, orrustuþotur, sprengjuvélar, skriðdreka og önnur vopn.

Verið var að sýna mikið af þeim hergögnum sem voru í skrúðgöngunni í fyrsta sinn opinberlega. Þar á meðal voru ofurhljóðfráar skotflaugar sem Kínverjar hafa hannað til að granda skipum, og þá helst bandarískum flugmóðurskipum. Þessi vopn hafa vakið miklar áhyggjur í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Vilja nota Patriot-kerfi á skipum til að skjóta niður kínverskar eldflaugar

Hér að neðan má sjá tæplega 24 mínútna myndband af sýningunni í morgun. Áhugasamir geta þó horft á hana alla hér. Neðst í fréttinni má svo sjá fjölda mynda frá sýningunni.

Minnti herinn á tilkallið til Taívan

Sýningin byrjaði á því að fjöldi hermanna gengu inn á hátíðarsvæðið á Tiananmen-torgi í fylkingum. Xi keyrði því næst fram hjá þeim öllum um borð í limósínu og ávarpaði hann hermennina, áhorfendur og aðra.

Þar sagði hann að Kínverska þjóðin hefði aldrei látið fauta ógna sér og sagði að upprisa Kína væri óhjákvæmileg.

Meðal annars sagði hann að Kínverjar gætu treyst hernum fullkomlega og sagði markmið hersins vera að tryggja fullveldi Kína og „sameiningu“. Var hann þar að vísa til tilkalls Kína til Taívan.

„Við þjónum fólkinu!“ kölluðu hermennirnir til baka.

Ráðamenn í Kína hafa heitið því að sameina Kína og Taívan og gera það með valdi ef svo þarf. Þeirra á meðal er Xi. Hann er sagður hafa gert það að markmiði sínu að ná völdum á Taívan og hefur hann sagt að það markmið megi ekki enda á höndum komandi kynslóða.

Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.

Sjá einnig: Sigldu tveimur flugmóðurskipum lengra en áður út á Kyrrahafið

Undanfarin ár hafa Kínverjar beitt Taívan sífellt meiri þrýstingi með því markmiði að grafa undan vörnum ríkisins. Herafli Kína hefur sömuleiðis gengist mikla nútímavæðingu og uppbyggingu en Xi er sagður hafa skipað forsvarsmönnum hersins að vera tilbúnir fyrir mögulega innrás í Taívan árið 2027. Það ár mun marka aldarafmæli kínverska hersins.

Xi Jinping og Vladimír Pútín, heyrðust tala um það það í Peking í morgun að sjötugur maður væri nánast barn í dag. Það væru til svo margar leiðir til að framlengja líf sitt og nefndu meðal annars líffæraígræðslur.

Sagði heiminn standa frammi fyrir friði eða stríði

Í öðru ávarpi á hersýningunni umfangsmiklu sagði Xi að Kínverska þjóðin hefði aldrei óttast ofbeldi. Hún væri sjálfbær og sterk þjóð. Hann sagði einnig að heimurinn stæði enn á ný frammi fyrir valkosti. Vali um stríð eða frið, um samvinnu eða ágreining.

Hann sagði Kínverja ætla að vinna friðsamlega með öllum ríkjum heims í því að byggja sameiginlega framtíð fyrir mannkynið.

Í gær sagði Xi eftir fund með Pútín að heimurinn stæði á krossgötum. Miklir umbreytingartímar væru í vændum.

Sendu skýr skilaboð til Bandaríkjanna

Eins og áður hefur komið fram hófst hersýningin á því að hermenn, rúmlega tíu þúsund talsins, gengu inn á Tiananmen-torg. Áætlað er að um tvær milljónir manna séu í kínverska hernum en þeir hermenn sem tóku þátt í sýningunni voru margir frá nýstofnuðum herdeildum sem koma að tölvuárásum, drónum og öðrum deildum sem stofnaðar voru í fyrra.

Sjá einnig: Drekinn að ná í stélið á erninum

Meðal annars sýndu Kínverjar svo nýjar eldflaugar sem þróaðar hafa verið í Kína. Ein kallast samkvæmt frétt Wall Street Journal, YJ-19 og er skilgreind sem ofurhljóðfrá stýriflaug sem hönnuð er til að granda herskipum.

Til að vera skilgreind sem ofurhljóðfrá þarf eldflaug að geta ferðast á að minnsta kosti fimmföldum hljóðhraða, sem samsvarar 1.720 metrum á sekúndu eða 6.190 kílómetra á klukkustund.

Sjá einnig: Kína sendir skila­boð til Banda­ríkjanna og Trump svarar um hæl

Auk YJ-19 sýndu Kínverjar þrjár aðrar gerðir eldflauga sem hannaðar eru til granda skipum og þar af eru tvær ofurhljóðfráar. New York Times hefur eftir bandarískum sérfræðingi í málefnum kínverska hersins að skilaboðin með þessu hafi verið skýr og þau hafi verið ætluð yfirvöldum í Bandaríkjunum og í Tavían.

Skilaboðin eru þau að Kínverjar hafi getu til að ógna og granda bandarískum herskipum á Kyrrahafi.

Einnig var sýnd ný gerð skotflauga. Þær kallast DF-5C og eiga að geta borið kjarnorkuvopn hvert sem er í heiminum.

Fjölmargir og fjölbreyttir drónar

Þegar kemur að drónum hafði kínverski herinn margt að sýna. Meðal annars voru sýndir nýir drónar sem eiga að fljúga sjálfir með mönnuðum herþotum og styðja þær. Einnig voru sýndir nýir eftirlitsdrónar og smærri drónar sem notaðir geta verið af hermönnum á jörðu niðri.

Tveir nýir drónar vöktu mikla athygli á sýningunni í morgun en báðir eru þeir neðansjávardrónar og er lítið vitað um þá.

Annar þeirra var um tuttugu metra langur og líkist hefðbundnu tundurskeyti. Hinn hafði lítil möstur sem líklega eru til samskipta og gæti verið eftirlitsdróni.

Í samtali við NYT sagði sérfræðingur að líklega væri fyrri dróninn, þessi sem líktist tundurskeyti, búinn sprengiefnum.

Á sýningunni voru einnig sýndir brynvarðir bílar sem hannaðir eru til að granda óvinadrónum og stýriflaugum. Farartæki þessi eru sögð búin leysigeislum og örbylgjusendum sem á að vera hægt að nota til að granda áðurnefndum vopnum en ríkismiðlar Kína segja að nota eigi þessi vopn í samfloti með hefðbundnum loftvarnarkerfum.

Nýir bryndrekar ætlaðir Taívan

Hinir hefðbundnu skrið- og bryndrekar voru einni til sýnis í morgun. Þeir voru þó búnir miklum tækninýjungum sem eiga að nýtast vel á vígvelli nútímans.

Einn bryndreki sem sýndur var er hannaður til að vera fluttur með flugvélum og jafnvel varpað úr lofti. Þeir eru búnir sjónpípum sem eig að gera áhöfnum þeirra kleift að fylgjast með umhverfi þeirra án þess að setja sig í hættu.

Í samtali við NYT segir sérfræðingur að hönnun þessara bryndreka bendi til þess að þeir séu hannaðir með Taívan í huga.

Geri Kínverjar innrás í Tavían þyrftu þeir að flytja mikinn herafla yfir Taívan-sund og yrði það líklega að miklu leyti gert á skipum. Sú sigling yrði 130 kílómetra löng og Taívanar hafa haft sjötíu ár til að undirbúa varnir sínar og víggirða þá fáu staði þar sem hægt væri að lenda umfangsmiklum herafla.

Því væri gott fyrir Kínverja að geta komið hermönnum og bryndrekum til eyjunnar úr lofti.

Einnig var sýnd ný tegund skriðdreka sem kallast Type 100 og á hann að vera búinn ýmsum nýjungum. Má þar nefna nýja tegund ómannaðs skotturns, fjölda skynjara og myndavéla til að bæta yfirsýn áhafna þeirra, bætta brynvörn og ýmislegt annað.

Xi Jinping tók á móti fjölmörgum þjóðarleiðtogum í Peking í morgun.AP/Sergei Bobylev, Sputnik
Kínverskir hermenn á Tiananmen-torgi í morgun.AP/Alexander Kazakov, Sputnik
Um tíu þúsund hermenn marseruðu um torgið.AP/Alexander Kazakov, Sputnik
Áætlað er að um tvær milljónir manna og kvenna séu í kínverska hernum.AP/Ng Han Guan
„Við þjónum fólkinu,“ kölluðu hermenn til Xi Jinping, þegar hann ávarpaði þá.AP/Ng Han Guan
K'inverjar sýndu nýjar skotflaugar í morgun. Sumar þeirra geta borið kjarnorkuvopn hvert sem er í heiminum.AP/Andy Wong
Hersýningin fór einnig fram í háloftunum.AP/Rafiq Maqbool
Margskonar hergögn voru til sýnis í Peking í morgun. Þar á meðal bryndrekar sem hannaðir eru til að vera fluttir með flugvélum og jafnvel varpað úr lofti.AP/Guo Yu, Xinhua
Bryndrekum ekið um Tiananmen-torg.AP/Andy Wong
Margskonar drónar voru sýndir á sýningunni.AP/Liiu Xu, Xinhua
Nokkrar gerðir af stýriflaugum og skotflaugum sem hannaðar eru til að granda herskipum voru til sýnis.AP/Ng Han Gua
Hefðbundnir skriðdrekar voru sýndir en einnig var fjórða kynslóð kínverskra skriðdreka opinberuð.AP/Ng Han Guan
DF-5C er skotflaug sem er sérstaklega hönnuð til að flytja kjarnorkuvopn.AP/Andy Wong
Tvær tegundir neðasjávardróa voru til sýnis og vöktu þeir sérstaka athygli greinenda.AP/Andy Wong
Orrustuþotum flogið yfir Peking.AP/Rafiq Maqbool
Tilefni hersýningarinnar var að áttatíu ár eru liðin frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk í Kína.AP/Ng Han Guan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×