Upp­gjörið: Breiða­blik - KR 3-3 | Stórleikurinn stóðst væntingarnar

Árni Jóhannsson skrifar
Breiðablik - KR skildu jöfn í frábærum fótboltaleik sem sveiflaðist til og frá í 90 mínútur.
Breiðablik - KR skildu jöfn í frábærum fótboltaleik sem sveiflaðist til og frá í 90 mínútur. Vísir / Diego

Íslandsmeistarar Breiðabliks náðu að bjarga stigi með marki í uppbótartíma eftir frábæran fótboltaleik gegn KR í 5. umferð Bestu deildar karla í kvöld. Eftir markalausan fyrri hálfleik komust Blikar tveimumr mörkum yfir í seinni hálfleik. KR tók forystuna en Blikar jöfnuðu á 92. mínútu. Frábær fótboltaleikur.

Leikurinn byrjaði á þeim nótum sem allir bjuggust við. Liðin spiluðu hugrakkan fótbolta en mál manna var að Blikar hefðu verið ívið betri í fyrri hálfleik. Blikar voru meira með boltann og komu boltanum tvisvar í net KR en í bæði skiptin var búið að flauta og mörkin töldu ekki. KR fann líka sín svæði en eins og hjá Blikum var ákvarðanataka ekki alveg nógu góð og markverðirnir stóðu sína plikt vel. Það var ótrúlegt að enn væri markalaust í hálfleik. Það átti hinsvegar eftir að breytast.

Breiðablik mættu mikið kröftugri út í síðari hálfleikinn og eftir níu mínútna leik þá brast stíflan og var það Tobias Thomsen sem skoraði eftir stoðsendingu frá Anton Loga Lúðvíkssyni.

Hornspyrna var tekin fljótt og boltanum komið á Anton sem lyfti boltanum á fjærstöng þar sem Tobias var einn og óvaldaður og skallaði boltann í netið við mikinn fögnuð.

Sex mínútum seinna var sama tvíeyki aftur á ferðinni. KR tapaði boltanum og töldu Blika hafa brotið á sér og átt að vera dæmdir rangstæðir. Antoni og Tobias var alveg sama og Tobias lyfti boltanum snyrtilega yfir Halldór Georgsson í markinu sem kom út á móti.

Þar með hélt undirritaður að þetta væri komið því takturinn var enginn í KR. Það var rangt. KR gerði skiptingu þar sem Alexander Helgi Sigurðarson kom inn á og honum fylgdi kraftur. Á 67. mínútu minnkaði Eiður Gauti Sæbjörnsson muninn eftir fyrirgjöf Luke Rae með skalla á fjærstöng. Í kjölfarið gerðu KR aðra skiptingu og Hjalti Sigurðsson kom inn á. Honum fylgi enn meiri kraftur.

KR jafnaði metin fjórum mínútum síðar og voru það varamennirnir sem léku sín á milli og endaði það með því að Alexander lagði boltann á Jóhannes Kristinn Bjarnason sem hamraði boltann í netið, óverjandi fyrir Anton í markinu.

Á þessum tímapunkti var eins og Blikar vissu ekki sitt rjúkandi ráð og KR náði að ganga enn lengra á lagið. Á 81. mínútu var viðsnúningurinn fullkomnaður þegar Finnur Tómas Pálmason stangaði knöttinn í netið eftir fyrirgjöf Hjalta Sigurðarsonar.

Breiðblik vaknaði og fór að þjarma að gestunum sem þó fengu sín tækifæri og úr varð æsilegur lokakafli. Breiðblik sendi Kristófer Inga Kristinsson á völlinn á 88. mínútu og fjórum mínútum síðar var hann búinn að jafna metinn eftir að Blikar náður að sprengja upp rangstöðugildru KR-inga. Kristófer smurði boltanum í hliðarnetið fyrir innan fjærstöngina og allt ærðist.

Skömmu síðar var flautað til leiksloka og bæði lið þurftu að sætta sig við jafnan hlut. Ég hugsa að báðir þjálfarar geti verið ánægðir með frammistöðuna hjá sínum mönnum en stigi ekki fleiri en eitt. Enn eru þess vegna þriggja stiga munur á liðunum í þriðja og fjórða sæti.

Atvik leiksins

Í leik þar sem voru fjölmörg atvik sem hægt er að smjatta á þá veljum við skiptingar liðanna. Eftir að KR lenti 2-0 undir komu Alexander Helgi Sigurðarson og Hjalti Sigurðsson inn og með þeim kom aukinn kraftur í leik KR sem voru ráðavilltir í upphafi seinni hálfleiks. Leikurinn snerist við en þá gerðu Breiðablik skiptingu og Kristófer Ingi Kristinsson sem kom inn á bjargaði stigi fyrir heimamenn.

Stjörnur og skúrkar

Þetta var frábær fótboltaleikur. Mörk, vafaatriði, kraftur, spenna og fjör og lítið um skúrka á vellinum. Nóg var af stjörnum en markmenn liðanna t.a.m. komu í veg fyrir fleiri mörk hjá hvoru liði fyrir sig. Tobias Thomsen skoraði tvö mörk, Anton Logi Lúðvíksson var með tvær stoðsendingar og Kristófer var bjargvættur.

Hjá KR var Luke Rae skeinuhættur, varnarmenn KR stóðu sína plikt ágætlega, Eiður Gauti var mikið vandamál fyrir varnarlínu Blika og Jóhannes Kristinn Bjarnason var góður á miðjunni ásamt því að skora mark. Svona til að nefna eitthvað.

Umgjörð og stemmning

Allt upp á 10 hjá Blikum í umgjörðinni og stemmningin frábær. Yfir 1700 manns komu á völlinn og gamla stúkan opin. Báðar fylkingar voru duglegar að hvetja sín lið sem gerði frábæran fótboltaleik enn betri.

Dómararnir

Jóhann Ingi Jónsson, Birkir Sigurðarson og Patrik Freyr Guðmundsson sáu um framkvæmd leiksins og sluppu ágætlega frá honum. Þetta var erfiður leikur að dæma. Mikið af vafaatriðum og enginn virtist vera ánægður með störf Jóhanns Inga í dag. Línan skekktist líka örlítið í leiknum en ég hugsa að það hafi skipst jafnt á milli liða og því ekki hægt að kvarta of mikið.

Viðtöl:

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira