Upp­gjörið: Stjarnan - Valur 1-0 | Stjarnan fyrst til að skora gegn Val

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar
Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar vísir

Stjarnan vann 1-0 baráttusigur gegn Val í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna. Valskonur voru taplausar fyrir leik og höfðu ekki fengið á sig mark, en Jakobína Hjörvarsdóttir breytti því. Stjarnan hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir tap í fyrstu tveimur umferðunum. 

Fyrri hálfleikur leiksins var afskaplega rólegur. Það lifnaði aðeins við leiknum eftir um 30 mínútna leik, þá fékk Jordyn Rhodes gott færi ein gegn markmanni en Vera Varis kom vel út úr markinu og náði að loka á það. Þá fékk Fanndís Friðriksdóttir einni fínt færi á fjærstöng sem hún skaut framhjá úr.

Það voru hinsvegar Stjörnukonur sem brutu ísinn, en Jakobína Hjörvarsdóttir skoraði með skalla úr aukaspyrnu. Góður bolti inn í teig frá Andreu Mist og öflugur skalli hjá Jakbínu, en það var það sem skildi liðin af í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri þar sem það var ekki mikið um færi. Þegar leið á leikinn fóru Valskonur að kasta leikmönnum meira og meira fram en það gekk lítið við það. Leikurinn fjaraði því út og Stjarnan tók gríðarlega mikilvægan sigur úr þessum leik.

Atvik leiksins

Í tíðindalitlum leik er lítið annað hægt að tala um en markið. Góð aukaspyrna hjá Andreu Mist inn á teiginn og Jakobína með flottan skalla.

Stjörnur og skúrkar

Stjörnu liðið var mjög þétt og varðist vel sem heild. Jakobína Hjörvarsdóttir skorar eina mark leiksins þannig hún verður að vera álitin sem ákveðin stjarna, auk þess sem hún stóð varnar vinnuna vel. Anna María Baldursdóttir átti stoðsendinguna í markinu og var einnig öflug í leiknum, ásamt Úlfu Dís Kreye Úlfarsdóttir sem átti góðan leik.

Vals liðið náði engum takti í sóknarleik sínum og þá má henda megnið af þeim Valskonum sem spiluðu í dag undir rútuna. Jordyn Rhodes fékk eitt eða tvö góð færi sem hún hefði getað nýtt betur. Ásamt Jasmín Erlu Ingadóttir og Fanndísi Friðriksdóttir sem unnu hart að sér að koma sér í góðar stöður en það varð aldrei mikið úr þeim.

Dómararnir

Nokkuð auðveldur leikur fyrir Stefán Ragnar Guðlaugsson og hans teymi að dæma. Ekkert um risa vafa atriði og ekki mikið um svakalega hörku. Teymið stóð sig vel.

Stemning og umgjörð

Það voru rétt tæplega 200 manns sem mættu á þennan leik en þrátt fyrir fámenni mátti alveg heyra í þeim megnið af leiknum. Umgjörðin var glæsileg eins og við má búast á Stjörnuvellinum, Dúllubarinn opinn, prýðis veitingar í boði, svo var veðrið líka með umgjörðinni í liði. Algjör bongó blíða.

Viðtöl

Matthías: Mér fannst betra liðið vinna í dag

Matthías Guðmundsson þjálfari Vals var svekktur með frammistöðu síns liðs, en það gekk lítið hjá þeim í dag.

„Þetta var hundfúlt. Mér fannst betra liðið vinna í dag, mér fannst þær ákveðnari en við og þeirra ‘gameplan’ gekk upp. Fúlt að fá á sig mark samt úr föstu leikatriði. Við reyndum fullt, en við fengum ekki mörg færi sem við gátum nýtt okkur.“ Sagði Matthías.

Sóknarleikurinn var slakur hjá Val í dag en þeim gekk mjög illa að skapa sér færi.

„Þetta er bara svekkjandi dagur. Við fundum ekki nógu mörg færi og leikurinn var einhvernveginn aðeins of hægur hjá okkur. Opnanir sem hefðu getað komið, þær náðu bara að loka vel á okkur.“

Vals liðið er með sterkan mannskap og með marga leikmenn sóknarlega sem áttu ekki sinn dag í dag.

„Ætli þetta sé ekki bara eins og fótboltinn er oft á tíðum, andstæðingurinn leyfði okkur ekki að spila þann leik. Þær eiga eftir að stíga upp seinna, það er klárt mál, en það bara opnaðist ekki í dag allavega.

Jakobína: Getum unnið alla í deildinni

Jakobína Hjörvarsdóttir skoraði eina mark leiksins í dag en þessi 20 ára gamli varnarmaður var mjög ánægð með framlag sitt og síns liðs.

„Ég er bara á sjöunda himni. Þetta er bara þriðja markið mitt í efstu deild, og fyrsta skalla markið. Þannig ég er bara mjög sátt.“

Stjarnan fékk á sig 12 mörk í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins en héldu hreinu í dag gegn sterku Vals liði. Jakobína var ánægð með hvernig þeim hefur tekist að þétta varnarleikinn.

„Það hefur verið markmiðið okkar, að loka markinu eftir fyrstu tvo leikina. Mér finnst það bara búið að ganga mjög vel.

Valur hafði ekki tapað leik í deildinni fyrir daginn í dag og flestir bjuggust við Vals sigri gegn Stjörnunni. Stjörnu liðið sýndi hinsvegar að þær eru töluvert betra lið en þær sýndu í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins.

„Við bara lokuðum á þeirra styrkleika, og spiluðum á okkar styrkleikum. Þá bara getum við unnið alla í deildinni.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira