Sport

Missir af sínum fyrstu Ólympíu­leikum síðan 1992

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Oksana Chusovitina hefur verið lengi að.
Oksana Chusovitina hefur verið lengi að. getty/Fang Jianfei

Oksana Chusovitina, fimleikakona frá Úsbekistan, verður ekki með á Ólympíuleikunum í París í sumar. Það er ekki í frásögur færandi nema að þetta verða fyrstu Ólympíuleikarnir síðan 1992 sem hún missir af.

Chusovitina greindi frá því á Instagram að hún myndi missa af Asíuleikunum í fimleikum vegna meiðsla. Þar af leiðandi getur hún ekki tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum í París.

Hin 48 ára Chusovitina hefur keppt á öllum Ólympíuleikum frá því í Barcelona 1992. Þá var hún aðeins sautján ára og keppti fyrir hönd Samveldisins.

Chusovitina hefur einnig keppt fyrir hönd heimalandsins, Úsbekistans, og Þýskalands á þeim átta Ólympíuleikunum sem hún hefur tekið þátt í. Aðeins sautján aðrir íþróttamenn hafa keppt á átta Ólympíuleikum eins og Chusovitina.

Hún vann gull í liðakeppni með Samveldinu 1992 og silfur í stökki fyrir hönd Þýskalands 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×