Fótbolti

Rangnick hafnar Bayern München

Sindri Sverrisson skrifar
Ralf Rangnick ætlar að halda áfram með austurríska landsliðið.
Ralf Rangnick ætlar að halda áfram með austurríska landsliðið. Getty/Robbie Jay Barratt

Ralf Rangnick, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, hefur ákveðið að hafna boði um að taka við Bayern München og ætlar að halda áfram þjálfun landsliðs Austurríkis.

Frá þessu greinir þýska blaðið BILD nú í morgun og þar með heldur áfram leit Bayern að manni til að taka við af Thomas Tuchel í sumar. 

Bayern vildi fá Rangnick og það hefði þýtt að hann hefði þurft að rifta samningi við austurríska knattspyrnusambandið. Nú er hins vegar ljóst að hann mun stýra Austurríki á Evrópumótinu í sumar og samkvæmt BILD ætlar hann sér að standa við núgildandi samning sem gildir til ársins 2026.

Bayern tilkynnti í febrúar að Tuchel myndi kveðja félagið í sumar, ári fyrr en til stóð. Félagið hefur síðan horft til Xabi Alonso og Julian Nagelsmann en Alonso ákvað að halda áfram með Leverkusen, og Nagelsmann ætlar að halda áfram með þýska landsliðið.

Tuchel er kominn með Bayern í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu, þar sem liðið gerði 2-2 jafntefli við Real Madrid í fyrri leik á þriðjudaginn, en honum mistókst algjörlega að verja þýska meistaratitilinn sem fór til Leverkusen.

Bayern hafði unnið þýsku deildina 11 ár í röð áður en Leverkusen vann hana í ár. Bayern féll auk þess úr leik í þýska bikarnum eftir tap gegn 3. deildarliði Saarbrucken.

Þrátt fyrir að Rangnick, sem er 65 ára gamall, hafi ekki slegið í gegn sem stjóri United þá nýtur hann mikillar virðingar í Þýskalandi vegna þess fótbolta sem lið hans hafa boðið upp á, en hann stýrði þar síðast liði Leipzig áður en hann hætti 2019. 

Rangnick stýrði United tímabundið í hálfa leiktíð, eftir brottrekstur Ole Gunnars Solskjær síðla árs 2021, og tók svo við austurríska landsliðinu sem hann kom inn á EM.


Tengdar fréttir

Bayern hyggst ráða manninn sem United losaði sig við

Bayern München er í þjálfaraleit fyrir sumarið og hefur sett sig í samband við Ralf Rangnick, sem þjálfaði Manchester United í hálfa leiktíð. Rangnick hefur skilað góðu starfi með austurríska landsliðið að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×