Fótbolti

Dortmund tók aukasætið sem ensku liðin dreymdi um

Sindri Sverrisson skrifar
Manchester United eygði veika von um 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en nú er ljóst að það dygði ekki til að komast í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Dortmund á nú öruggt sæti þar, þó liðið sitji í 5. sæti þýsku deildarinnar.
Manchester United eygði veika von um 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en nú er ljóst að það dygði ekki til að komast í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Dortmund á nú öruggt sæti þar, þó liðið sitji í 5. sæti þýsku deildarinnar. Samsett/Getty

Eftir sigur Dortmund gegn PSG í gærkvöld er endanlega ljóst að það verða Ítalía og Þýskaland sem fá eitt aukasæti hvort í nýrri útgáfu Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á næstu leiktíð, en ekki England.

England og Þýskaland voru lengi vel í hnífjafnri baráttu um það að fimmta sætið í þeirra landsdeildum myndi duga til að komast í Meistaradeildina á næstu leiktíð. Tottenham og Manchester United, sem sitja í 5. og 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, eygðu þannig betri möguleika á að komast í keppnina.

En eftir að ensku liðin féllu hvert á fætur öðru úr leik í Evrópukeppnunum, og aðeins Aston Villa stóð eftir, er ljóst að árangur þýsku liðanna er betri í vetur og því fær Þýskaland aukasæti.

Jafnvel þó að Aston Villa myndi vinna báða leiki sína gegn Olympiacos í undanúrslitum Sambandsdeildar Evrópu, og úrslitaleikinn, myndi England mest geta fengið 18,25 stig á árangurslista UEFA en Þýskaland er komið með 18,356 stig, eftir sigur Dortmund í gær og jafntefli Bayern við Real Madrid í fyrrakvöld.

Staðan á stigalista UEFA

Ítalía. Stig: 19,428. Lið eftir í Evrópukeppni: Atalanta, Roma, Fiorentina

Þýskaland. Stig: 18,357. Lið eftir í Evrópukeppni: Bayern München, Bayer Leverkusen, Dortmund

England. Stig: 17,375. Lið eftir í Evrópukeppni: Aston Villa

Frakkland. Stig:16,083. Lið eftir í Evrópukeppni: PSG

Spánn. Stig: 15,437. Lið eftir í Evrópukeppni: Real Madrid

Dortmund hjálpaði sjálfu sér

Þannig vill til að Dortmund er í 5. sæti þýsku deildarinnar eins og er, og getur ekki endað neðar, og því má segja að liðið hafi með sigrinum í gær tryggt sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Við þetta bætist að sigurliðin í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni á þessari leiktíð, fá öruggt sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Það er því þannig að ef Dortmund fer alla leið og vinnur Meistaradeildina í ár, en endar í 5. sæti þýsku deildarinnar eins og allt útlit er fyrir, fá alls sex þýsk lið þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Frankfurt situr í 6. sæti þýsku deildarinnar.

Svipuð staða er á Ítalíu þar sem sex lið fá að fara í Meistaradeildina á næstu leiktíð ef ítalskt lið vinnur Evrópudeildina. Bæði Roma og Atalanta eru komin í undanúrslit keppninnar en þau sitja einmitt í 5. og 6. sæti ítölsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×