Sport

LA Rams velja ný­liðana í 16 milljón dollara glæsi­villu

Siggeir Ævarsson skrifar
Litlu hefur verið til sparað, enda Zillow að borga brúsann
Litlu hefur verið til sparað, enda Zillow að borga brúsann Twitter@RamsNFL

Nýliðavalið í NFL deildinni rúllar af stað í kvöld en það er eitt lið sem fer örlítið aðrar leiðir í undirbúningi sínum. Los Angeles Rams koma starfsliði sínu fyrir í glæsivillu sem kostar litlar 16,5 milljónir Bandaríkjadollara. 

Nýliðavalið í NFL stendur yfir í nokkra daga en alls eru sjö umferðir í valinu. Alla jafna vinna liðin frá höfuðstöðvum sínum enda í mörg horn að líta og margir starfsmenn sem koma að ferlinu. Árið 2021 ákváðu forsvarsmenn LA Rams að fara aðra leið og hafa alla tíð síðan komið starfsliði sínu fyrir í glæsilegu húsnæði þar sem litlu er til sparað.

Húsið í ár er í ákveðnum sérflokki en fasteignamiðlunin Zillow er samstarfsaðili Rams í þessu og má fastlega reikna með að Zillow borgi brúsann að mestu eða öllu leyti. Hvað sem því líður þá er ljóst að það mun ekki væsa um starfsfólk Rams næstu daga en liðið á 19. valrétt í fyrstu umferð.

Nýliðavalið í NFL verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsendingin núna á miðnætti.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×