Tónlist

Níu bón­orðs­bréf til sömu konunnar inn­blásturinn að nýjustu plötunni

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Síðasta sólóplata Emilíu Torrini, Tookah, kom út árið 2013.
Síðasta sólóplata Emilíu Torrini, Tookah, kom út árið 2013. Getty/Lorne Thomson

Tónlistarkonan Emilíana Torrini stefnir á að gefa út sína fyrstu sólóplötu í tíu ár í júní. Innblásturinn að plötunni má segja að sé ævintýri líkastur en lögin á plötunni fjalla um níu bónorðsbréf sem móðir vinkonu hennar fékk á lífsleiðinni og fundust eftir að hún dó. 

Emilíana var gestur Ívars Guðmundssonar á Bylgjunni í dag. Þar ræddi hún nýju plötuna, söguna á bak við hana og listina. Hún segir þörfina til þess að gefa út nýja tónlist vera að spretta hjá henni á ný. 

Síðustu ár hefur Emilíana tekið að sér ýmis verkefni, þar á meðal var hún eitt tónskálda leiksýningarinnar Vertu Úlfur.

„Ég hef aldrei verið eins pródúktív og núna. Ég er alltaf að semja. Þannig að það verða ábyggilega bara nokkrar í röð,“ segir Emilíana. Í fyrra gaf hún út plötuna Racing The Storm ásamt hljómsveitinni The Colorist Orchestra.

Fundu níu bónorðsbréf eftir andlát Geraldine

Emilíana segir að sólóplatan hennar komi út í júní. „Og er um konu sem heitir Miss Flower,“ segir hún.

„Þetta er kona sem var mamma vinkonu minnar. Og þegar ég var að semja með manninum hennar úti í garði var ég stundum send upp í kokteil til mömmu hennar. Hún hét Geraldine og við kölluðum hana Mamaldine. Og var svona algjör týpa. Rosalega glamúrus, flott, bara ólýsanleg.“

Eftir að Geraldine dó segir Emilíana frá því að hafa farið til vinkonu sinnar að hjálpa til. „Við finnum þennan kassa með bréfum og það kemur í ljós að hún fékk níu bónorð.“

Hún hafi aldrei gift sig, verið einstæð móðir og karakter sem leitaði út fyrir kassann. 

Las bara eitt bréf í einu

„Þegar ég finn fyrsta bréfið þá er það lag sem heitir Miss Flower. Og það er sem sagt smá hot bréf. Það er einn maður að ímynda sér að hún sé vín, og hvernig vín hún væri.“

Þá hafi hún reynt að hugga vinkonuna með því að spyrja hvort hún vildi koma inn í stúdíó að semja lag. „Svo fékk ég mjög mikið artistic lisence á það. Rampaði lagið mikið upp. Svo var ég alveg bara: Ó nei, fór ég of langt?“

Vinkonan hafi þá fullvissað hana um að mamma hennar hefði elskað lagið.

„Ég las aldrei öll bréfin í einu. Það var alltaf bara eitt bréf í einu. Ég samdi sem sagt út frá því þannig að hver maður á í raun sitt lag,“ segir Emilíana. 

Hágrét þegar hún las síðasta bréfið

Hún segir alls konar spooky vera í gangi í bréfunum. „Maðurinn sem var lengst í hennar lífi og tengdist henni djúpum böndum, hún skildi hann eftir á altarinu í endann. Alla leið þangað til hún dó voru þau mjög náin. Og það kemur í ljós að hann var njósnari. Og svo koma fullt af bréfum sem sýna það að hún hafi jafnvel líka verið svolítið djúpt sokkin í smá tíma.“

Í leyniþjónustu jafnvel?

„Hver veit!“

Emilíana segist hafa verið í þrjú ár að vinna í lögunum á plötunni. „Þannig að ég fer svolítið mikið að lifa mig inn í þetta, og þetta verða svona svolítið parallel heimar. Þannig að þetta var bara stórkostlegt. Og ég grét svona horgrát þegar ég las síðasta bréfið,“ segir hún og hlær.

„En svo ertu líka alltaf að fá bréf frá þessum mönnum. Þú ert aldrei að fá hennar rödd. Þannig að þetta var ofboðslega mikil fjársjóðskista.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að neðan.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×