Erlent

Pútín fagnar sigri

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Sama hversu mikið þeir hræða okkur, bæla vilja okkar og samsvisku, þá hefur þeim aldrei tekist það,“ segir Vladímír Pútín
„Sama hversu mikið þeir hræða okkur, bæla vilja okkar og samsvisku, þá hefur þeim aldrei tekist það,“ segir Vladímír Pútín EPA

Vladímír Pútín hefur lýst yfir sigri í forsetakosningunum í Rússlandi.

Kjörstjórn í Rússlandi segist hafa talið helming atkvæða og að Pútín hafi hlotið 87 prósent atkvæða. Í öðru sæti er Nikolai Kharitonov, frambjóðandi kommúnistaflokksins.

Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórninni var kjörsókn 74 prósent, sem er það hæsta í sögunni.

„Sama hversu mikið þeir hræða okkur, bæla vilja okkar og samsvisku, þá hefur þeim aldrei tekist það. Þeim mistókst það nú og þeim mun mistakast það í framtíðinni,“ sagði Pútín í sigurræðu sinni.

Dauði Navalní sorglegur að mati Pútíns

Pútín var spurður út í Alexei Navalní, einn helsta pólitíski andstæðing sinn, sem lést í fangelsi í Rússlandi á dögunum.

„Varðandi herra Navalní. Já, hann féll frá. Slíkt er alltaf sorglegt, en það var ekki í fyrsta skipti sem persóna dó í fangelsi. Hefur slíkt ekki gerst í Bandaríkjunum? Að sjálfsögðu,“ sagði forsetinn.

Max Seddon, fréttaritari Financial Times í Moskvu, fullyrðir að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem Pútín minnist á nafn Navalní í ellefu ár. Jafnframt gaf hann til kynna að fangaskipti með Navalní hefðu staðið til boða áður en hann lét lífið, undir þeim formerkjum að stjórnarandstæðingurinn myndi aldrei snúa aftur.

Pútín hefur verið forseti frá árinu 2000, ef undan eru skilin fjögur ár þar sem hann var forsætisráðherra til að brjóta ekki stjórnarskrá landsins eins og hún var þá. Síðan þá hefur Pútín breytt reglunum og gæti boðið sig aftur fram að sex árum liðnum, árið 2030.

Vísir fjallaði um stöðu mála í Úkraínustríðinu fyrr í dag, og þar var meðal annars tekið fyrir hvernig Pútín myndi bregðast við kosningasigrinum, sem þótti ansi fyrirsjáanlegur. Hægt er að lesa um það hér.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×